Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   þri 03. maí 2011 08:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 12. sæti
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Getty Images
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólta og neðsta sæti í þessari spá var Árborg sem fékk 37 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Árborg.



12. Árborg
Búningar: Dökkblá treyja, dökkbláar buxur, dökkbláir sokkar.
Heimasíða: arborgfc.net
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í 3.deild

Árborg náði sínum langbesta árangri frá upphafi í fyrra þegar liðið endaði í þriðja sæti í þriðju deildinni. Árborg hafði aldrei áður komist í úrslitakeppnina í þriðju deild frá stofnun félagsins árið 2000 en í fyrra var gengi liðsins mun betra en áður. Árborgarar voru svekktir eftir tap í undanúrslitunum gegn Tindastóli en í nóvember gátu þeir tekið tappann úr kampavínsflöskunni og fagnað sæti í 2. deild. Þá sameinuðust Tindastóll og Hvöt sem þýddi að Árborg komst upp um deild, um það bil tveimur mánuðum eftir að keppni lauk í þriðju deildinni.

Á sama tíma hófst undirbúningur hjá Árborg fyrir sitt fyrsta tímabil í annarri deild. Þónokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum í vetur, nokkrir leikmenn hafa hætt og aðrir komið í staðinn en ekki er ólíklegt að fleiri leikmenn bætist við hópinn fyrir átökin í sumar.

Enski varnarmaðurinn Andy Pew samdi meðal annars við Árborg en hann fór upp úr annarri deildinni með Selfyssingum árið 2007. Pew hefur lítið leikið með Árborg á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla en ef hann kemst í stand er líklegt að hann muni leika stórt hlutverk í sumar.

Árborg er spáð tólfta og neðsta sæti í spá fyrirliða og þjálfara og árangur liðsins í vetur hefur eflaust sitt að segja í þeirri spá. Árborg vann ekki leik í Lengjubikarnum og skoraði einungis fjögur mörk í fimm leikjum. Þar munaði mikið um að Guðmundur Ármann Böðvarsson skoraði ekkert en hann hefur dregið vagninn í markaskorun hjá Árborg undanfarin ár. Í fyrra skoraði Guðmundur Ármann 21 mark í þriðju deildinni og hann þarf að skora þau nokkur í sumar ef Árborg ætlar að halda sér uppi.

Hinn gamalreyndi Einar Jónsson tók við þjálfun Árborgar í vetur og hann þekkir aðra deildina afar vel eftir að hafa þjálfað Selfyssinga í deildinni í mörg ár á sínum tíma. Stemningin hjá Árborg er afar góð og hún gæti komið liðinu langt í sumar. Þéttur kjarni er í kringum liðið og margir leikmenn hafa spilað fyrir hönd Árborgar í áraraðir. Þeir fá núna tækifæri í annarri deildinni í fyrsta skipti og spennan innan herbúða félagsins er mikil.

Búast má við að sumarið verði langt og strangt fyrir Árborg en leikmenn liðsins munu berjast með kjafti og klóm fyrir sæti sínu í deildinni. Hvort það dugi verður síðan að koma í ljós en það þarf margt að ganga upp ef Árborg ætlar að leika aftur í annarri deildinni sumarið 2012.

Styrkleikar:
Liðsandinn er góður og stemmningin er alltaf góð. Þó að félagið hafi ekki yngri flokka eða stórt bakland þá starfar öflugur hópur manna í kringum liðið og menn hafa metnað til að gera vel. Reynslumikill þjálfari sem þekkir þessa deild eins og handarbakið á sér.

Veikleikar:
Miklar breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra og það gæti veikt liðið. Lítl breidd sem gæti haft áhrif enda Árborg að fara að spila fleiri leiki en áður. Flestir leikmenn hafa einungis reynslu úr 3. deildinni og þekkja ekki að spila í annarri deild.

Lykilmenn: Andy Pew, Guðmundur Ármann Böðvarsson, Guðmundur Garðar Sigfússon.

Þrír fyrstu leikir sumarsins: Njarðvík (Úti), Hamar (Heima), Dalvík/Reynir (Úti)
Þjálfari: Einar Jónsson (Fæddur 1958):
Einar Jónsson tók við þjálfun Árborgar í vetur en hann er öllum hnútum kunnugur á Selfossi. Einar er leikjahæsti leikmaður Selfoss frá upphafi en hann tók við þjálfun liðsins haustið 1994, þegar hann lagði skóna á hilluna. Einar þjálfaði Selfyssinga til ársins 1999, með stuttu hléi árið 1998 þegar hann tók aftur við liðinu á miðju sumri og bjargaði því frá falli. Hann tók við kvennaliði Selfoss 1998 áður en hann hóf þjálfum meistaraflokks Ægis í Þorlákshöfn 2000-2002. Einar tók svo aftur við Selfyssingum haustið 2005 og þjálfaði liðið fram í júní sumarið 2007.



Komnir:
Andy Pew frá Englandi
Aron Valur Leifsson frá Selfossi
Gunnar Hauksson frá Birninum
Hilmar Þór Jónsson frá Selfossi
Hjörvar Sigurðsson frá KFR
Magnús Helgi Sigurðsson frá Selfossi
Óskar Guðjónsson, að láni frá Selfossi
Tómas Kjartansson frá KFS

Farnir:
Árni Páll Hafþórsson hættur
Árni Sigfús Birgisson hættur
Einar Andri Einarsson, úr láni í KR
Guðbergur Baldursson í KFR
Guðmundur Eggertsson hættur
Hafþór Theodórsson hættur


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Árborg 37 stig
banner
banner
banner