Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   fös 10. júní 2016 15:00
Ívan Guðjón Baldursson
EM-upphitun
EM-Upphitun: D-riðill - Erfitt fyrir meistarana
Andres Iniesta er töframaðurinn á miðjunni.
Andres Iniesta er töframaðurinn á miðjunni.
Mynd: Getty Images
Þetta verður líklega síðasta stórmót Vicente del Bosque.
Þetta verður líklega síðasta stórmót Vicente del Bosque.
Mynd: Getty Images
Vladimir Darida, leikstjórnandi Tékka.
Vladimir Darida, leikstjórnandi Tékka.
Mynd: Getty Images
Það er ekkert grín að stöðva Arda Turan þegar hann fer af stað.
Það er ekkert grín að stöðva Arda Turan þegar hann fer af stað.
Mynd: Getty Images
Fatih Terim er hokinn af reynslu og gerir miklar kröfur.
Fatih Terim er hokinn af reynslu og gerir miklar kröfur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Luka Modric þarfnast vart kynningar.
Luka Modric þarfnast vart kynningar.
Mynd: Getty Images
Mynd: UEFA
D-riðillinn á EM er grjótharður þar sem ríkjandi Evrópumeistarar Spánverja mega ekki misstíga sig vilji þeir hampa titlinum þriðja skiptið í röð. Íslendingar vita það vel að Króatar, Tyrkir og Tékkar eru engin lömb að leika sér við.

EM-upphitanir:
A-riðill
B-riðill
C-riðill



SPÁNN
Eftir sex ár á toppi knattspyrnuheimsins endaði ótrúleg sigurhrina Spánverja á HM 2014 þegar þeir voru slegnir út í riðlakeppninni eftir tapleiki gegn Hollandi og Síle. Spánverjum tókst að sigra tvö Evrópumót og eitt Heimsmeistaramót á sex árum og virðast þeir hungraðir í annan titil eftir slæmt gengi í Brasilíu.

Styrkleikar: Vörnin. Spænska vörnin var sú besta í undankeppninni og fengu Spánverjar ekki mark á sig í átta síðustu leikjunum. Juanfran, Gerard Pique, Sergio Ramos og Jordi Alba mynda öfluga varnarlínu með Sergio Busquets fyrir framan sig í hlutverki djúps miðjumanns.

Veikleikar: Sóknin. Engum sóknarmanni hefur tekist að sanna sig með landsliðinu á undanförnum árum. Diego Costa fer ekki með á lokamótið og því er mögulegt að Cesc Fabregas verði notaður sem fölsk nía ef Aritz Aduriz gerir engar rósir.

Væntingar: Spánverjar vonast til að bæta enn eitt metið með því að vinna þriðja Evrópumótið í röð. Ekkert landslið hefur unnið HM eða EM þrisvar í röð.

Líklegt byrjunarlið 4-3-3: De Gea; Juanfran, Pique, Ramos, Alba; Thiago, Busquets, Iniesta; Silva, Aduriz, Pedro

Lykilmaðurinn - Andres Iniesta
Þeir tímar sem Andres Iniesta þurfti að spila sem vinstri kantmaður eru liðnir og mun hann fara fyrir öflugu miðjuspili Spánverja í sumar. Iniesta er talinn vera á meðal allra bestu miðjumanna knattspyrnusögunnar og alltaf gaman að fylgjast með snilli hans á vellinum.

Þjálfarinn - Vicente del Bosque
EM 2016 verður líklega síðasta stórmót Del Bosque sem hefur stýrt spænska landsliðinu síðustu átta ár. Bosque er þekktur fyrir að vera afar tryggur og vel liðinn af leikmönnum sínum.

Ummæli - Nolito
„Mig hefur dreymt um þessa stund svo oft og ég hef barist mikið fyrir því að komast með hópnum á EM. Ég vil njóta mótsins eins mikið og ég mögulega get og gera allt til að hjálpa Spánverjum að verja titilinn."



TÉKKLAND
Gullár Tékka eru að baki en leikur liðsins byggist nú á mikilli samheldni og vinnusemi. Þrátt fyrir að skarta engum stórstjörnum, að Petr Cech undanskildum, er ljóst að Tékkar eru erfiðir andstæðingar fyrir hvaða mótherja sem er.

Styrkleikar: Þetta er samheldinn og ákveðinn hópur sem getur sigrast á hvaða andstæðingum sem er.

Veikleikar: Varnarleikurinn var alls ekki nægilega góður í undankeppninni og þá vantar liðinu öflugan sóknarmann eftir að menn eins og Milan Baros og Jan Koller lögðu skóna á hilluna.

Væntingar: Tékkar vonast til að koma öllum á óvart og endurtaka leikinn frá EM 96 þegar þeir komust óvænt í úrslit.

Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Cech; Kaderabek, Sivok, Suchy, Limbersky; Plasil, Darida - Dockal, Rosicky, Krejci - Lafata

Lykilmaðurinn - Vladimir Darida
Í liði þar sem vantar aðeins upp á sköpunargleðina í sóknarleiknum er Vladimir Darida mikilvægastur. Darida leikur fyrir Hertha Berlin í þýska boltanum og er maðurinn sem á að koma sóknarleiknum í gang með magnaðri sendingagetu sinni.

Þjálfarinn - Pavel Vrba
Pavel Vrba gerði garðinn frægan með Viktoria Plzen. Hann kom félaginu í hóp þeirra bestu í Tékklandi áður en hann tók við landsliðinu í janúar 2014.

Ummæli - Jaroslav Plasil
„Það er líklega satt að við höfum afar gott af því að lenda í erfiðum riðli. Á síðasta Evrópumóti bjuggust allir góðum árangri því við lentum í auðveldum riðli en við duttum strax út. Á EM 96 var riðillinn afar erfiður og við komumst alla leið."



TYRKLAND
Tyrkir rétt skriðu á lokamótið eftir sigra gegn Hollandi, Tékklandi og Íslandi í lokaumferðum undankeppninnar. Þeir eru eins og óskrifað blað og í raun til alls líklegir enda hefur verið afar mikill munur á frammistöðu liðsins milli leikja á undanförnum árum.

Styrkleikar: Það vantar ekki sköpunargleðina í leikmannahópinn. Menn eins og Hakan Calhanöglu og Arda Turan eru þekktir fyrir afar mikla útsjónasemi og hárnákvæmar sendingar.

Veikleikar: Sóknarleikurinn getur verið mikill hausverkur ef Burak Yilmaz finnur ekki taktinn. Cenk Tosun er annar eftir Yilmaz í goggunarröðinni en hann hefur fengið lítinn spilatíma upp á síðkastið þar sem hann er varaskeifan hans Mario Gomez hjá tyrkneska stórliðinu Besiktas.

Væntingar: Tyrkir hafa mikla trú á því að komast upp úr erfiðum riðli þrátt fyrir slakt gengi í undankeppninni.

Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Babacan; Gonul, Aziz, Balta, Erkin; Topal, Inan; Calhanöglu, Özyakup, Turan; Yilmaz

Lykilmaðurinn - Arda Turan
Turan hefur lengi verið lykilmaðurinn og er meðal reynslumestu leikmanna hópsins. Turan leikur á kantinum og verður í aðalhlutverki í sóknarleiknum.

Þjálfarinn - Fatih Terim
Þetta er í fjórða sinn sem Tyrkir komast á EM og hefur Terim stýrt landsliðinu á þremur lokamótum. Síðast fór Terim með liðið á EM 2008, þegar Tyrkir komust alla leið í undanúrslit.

Ummæli - Oguzhan Özyakup
„Við erum lið sem gerir alltaf vel á stórmótum, sérstaklega EM. Síðast komumst við alla leið í undanúrslit og það verða vonbrigði fyrir okkur ef ekki tekst að endurtaka leikinn."



KRÓATÍA
Það veit enginn við hverju má búast af Króötum í ár þar sem þeir rétt slefuðu inn á EM þrátt fyrir stórsigra gegn Norðmönnum og Búlgörum í undankeppninni. Stuðningsmennirnir gætu verið til vandræða þar sem gríðarlega mikið ósætti hefur verið á milli stuðningsmanna og króatíska knattspyrnusambandsins undanfarin ár.

Styrkleikar: Það myndu öll lið mótsins vilja hafa menn á borð við Ivan Rakitic og Luka Modric innanborðs.

Veikleikar: Ante Cacic þjálfari hefur litla reynslu af stóra sviðinu og lítur út fyrir að hafa ekki það sem þarf til þess að höndla stjörnurnar í búningsklefa Króatíu á réttan hátt. Liðið má ekki reiða sig of mikið á Mario Mandzukic sem gerði aðeins 1 af 20 mörkum liðsins í undankeppninni.

Væntingar: Króatíski lýðurinn vonast til að landsliðið standi sig og geti byrjað að virka sem sameiningartákn á nýjan leik, en tap gegn Tyrkjum í fyrsta leik gæti haft þveröfug áhrif.

Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Subasic; Srna, Corluka, Vida, Vrsaljko; Modric, Brozovic; Perisic, Rakitic, Pjaca; Mandzukic

Lykilmaðurinn - Luka Modric
Þessi snillingur þarfnast vart kynningar. Modric er meðal bestu miðjumanna heims og á sér fast sæti í byrjunarliði Real Madrid. Með landsliðinu neyðist Modric oft til að spila sem djúpur miðjumaður en hefur hingað til leyst það verkefni afar vel af hólmi, sérstaklega gegn Ítalíu í undankeppninni.

Þjálfarinn - Ante Cacic
Cacic hefur skipt oftar en 20 sinnum um starf á 30 ára ferli sínum sem þjálfari. Bestu liðin sem Cacic hefur stýrt eru Dinamo Zagreb og Maribor. Cacic er ekki vinsæll, stuðningsmenn gera grín að honum og hann er í raun lítið annað en strengjabrúða króatíska knattspyrnusambandsins.

Ummæli - Danijel Subasic
„Það er ekki hægt að segja til um hversu mikilvægir Modric og Rakitic eru, þeir spila fyrir bestu félagslið heims og gefa hópnum ótrúlega mikið sjálfstraust. Svo erum við líka með Perisic sem var okkar besti maður í undankeppninni, til að tala ekki um Mandzukic sem er ótrúlega gæðamikill."
Athugasemdir
banner
banner