Þýskaland - Norður Írland - Úkraína - Pólland
Í C-riðlinum má búast við mikilli skemmtun. Sá leikur sem flestir horfa til í honum er leikur Póllands og Þýskalands þar sem Heimsmeistararnir þurfa að stöðva Lewandowski.
EM-upphitanir:
A-riðill
B-riðill
EM-upphitanir:
A-riðill
B-riðill
ÞÝSKALAND
Flestir af þeim leikmönnum sem lyftu HM-bikarnum í Brasilíu fyrir tveimur árum eru enn til staðar í hópnum. Þó eru hlekkir eins og Philipp Lahm og Miroslav Klose búnir að leggja landsliðsskóna á hilluna. Þeirra skörð hafa ekki verið fullkomlega fyllt og þá er Bastian Schweinsteiger ekki sami leikmaður og hann var.
Þar með hefur Þýskaland misst ákveðinn stöðugleika en liðinu hefur tekist að komast að minnsta kosti í undanúrslit á síðustu fimm stórmótum. Af hverju ætti það að breytast?
Styrkleikar: Fjölbreytilegur sóknarleikur. Þeir hafa leikskilning Mesut Özil og klókindi Thomas Muller sem er snillingur í að vera rétti maðurinn á réttum tíma. Svo geta þeir líka farið í gamla skólann með Mario Gomez. Heimsklassa markvörður í Manuel Neuer.
Veikleikar: Það má ekki mikið út af bregða varnarlega þar sem breiddin er ekki eins mikil og á öðrum stöðum.
Væntingar: Aðeins tveir þjálfarar hafa unnið bæði HM og EM; Helmut Schon og Vicente Del Bosque. Joachim Löw á að vera sá þriðji.
Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Neuer; Kimmich, Boateng, Hummels, Hector; Kroos, Khedira; Muller, Özil, Draxler; Götze.
Lykilmaðurinn - Jerome Boateng
Fyrir fimm árum var hann vara hægri bakvörður Manchester City. Hjá Bayern München hefur hann þróast í magnaðan miðvörð og leiðtoga.
Þjálfarinn - Joachim Löw
Margir héldu að hann myndi stíga til hliðar eftir sigurinn á HM 2014 en í staðinn skrifaði hann undir samning til 2018.
Ummæli - Lukas Podolski
„Við þekkjum það út og inn hvernig á að vinna á stórmóti til að ná árangri, hvernig á að undirbúa og spila. Það verður hörð keppni um gullið. Við stefnum á það en fáum samkeppni frá Frökkum, Spánverjum og Englendingum."
NORÐUR ÍRLAND
Í fyrsta sinn á stórmóti síðan á HM 1986 í Mexíkó. Liðið fer pressulaust inn í þetta mót en það má enginn vanmeta það. Mörg stærri lið hafa gert það undanfarna mánuði og setið særð eftir.
Styrkleikar: Hafa komist þetta langt á samheldni og hungri í að þagga niður efasemdarraddir. Einbeiting liðsins er mögnuð og það var aðeins tvívegis undir í undankeppninni.
Veikleikar: Enginn með reynslu af stórmóti og flestir af þeim ekki mætt svona öflugum andstæðingum áður.
Væntingar: Vonast til að halda áfram að koma á óvart en líklegast er að liðið muni fara heim eftir riðlakeppnina.
Líklegt byrjunarlið 3-1-4-2: McGovern; McAuley, Catchart, J. Evans, Baird; C. McLaughlin, Norwood, Davis, Dallas; Ward, K. Lafferty.
Lykilmaðurinn - Kyle Lafferty
Sóknarmaður sem hefur flakkað á ferlinum; spilað á Ítalíu, Skotlandi, Sviss og Tyrklandi. Með landsliðinu er hann bestur; skoraði sjö mörk í undankeppninni.
Þjálfarinn - Michael O'Neill
Var ekki stóra nafnið sem stuðningsmenn vildu þegar hann var ráðinn 2011 en nú er hann í miklum metum.
Ummæli - Michael McGovern
„Það er rosalega stórt að vera að fara á EM sem aðalmarkvörður og ég er í skýjunum. Tólf úr fjölskyldunni eru á leið á mótið. Ég ætla að reyna að fá miða fyrir þau öll! Fyrir undankeppnina var markmiðið að komast í umspil svo það var framar öllum væntingum að vinna riðilinn."
ÚKRAÍNA
Ófriðurinn í landinu gerir það að verkum að umhverfið í úkraínskum fótbolta hefur verið sérstakt. Á EM er tækifæri til að sameina þjóðina á bak við fótboltaliðið.
Styrkleikar: Hinn kraftmikli Andriy Yarmolenko og hinn hraði Yevhen Konoplyanka (leikmenn Dynamo og Sevilla) eru stórhættulegir vængmenn.
Veikleikar: Markvarslan gæti verið vandamál. Markvörðurinn Andriy Pyatov er of mistækur.
Væntingar: Vilja komast upp úr riðlinum. Lokaleikur riðlakeppninnar gegn Póllandi mun líklega ráða örlögunum.
Líklegt byrjunarlið 4-3-3: Pyatov; Fedetskiy, Khacheridi, Rakitskiy, Shevchuk; Sydorchuk, Stepanenko; Rybalka; Yarmolenko, Konoplyanka, Seleznyov.
Lykilmaðurinn - Andriy Yarmolenko
Fjölhæfur sóknarmaður sem verður að sýna sínar bestu hliðar svo Úkraína komist áfram. Hávaxinn, hraður og leikinn með góða skottækni. Gæti nýst nánast öllum liðum í heimsfótboltanum.
Þjálfarinn - Mykhaylo Fomenko
Þessi 67 ára fyrrum varnarmaður Dynamo Kiev hefur vaxið mikið í starfi.
Ummæli - Anatoliy Tymoshchuk
„Besta stund landsliðsins var þegar það komst í 8-liða úrslitin á HM 2006. Ég tel að núverandi lið geti náð svipuðum árangri. Við erum með leikmenn sem geta komið með einstaklingsframtak og einnig flotta liðsheild."
PÓLLAND
Pólskir íþróttafréttamenn sjá fyrir sér að Pólland gæti orðið svarti hestur mótsins og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, hefur talað um að liðið gæti farið alla leið. Að hafa Robert Lewandowski innan sinna raða eykur allavega líkurnar!
Styrkleikar: Mörk. 33 mörk skoruð í 10 leikjum undankeppninnar. Lewandowski skilar sínum og félagi hans í sóknarlínunni Arkadiusz Milik jafnaði nýlega met Luis Suarez með því að skora í sex leikjum í röð fyrir Ajax.
Veikleikar: Það vantar öfluga leikmenn varnarlega. Bartosz Salamon hjá Cagliari er varnarmaðurinn sem hefur verið að spila sem best en hann er ekki með reynslu.
Væntingar: Pólverjar vona að þeir geti keppt við bestu lið mótsins.
Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Fabianski; Piszczek, Szukala, Glik, Rybus; Krychowiak, Blaszczykowski, Maczynski, Grosicki; Milik, Lewandowski.
Lykilmaðurinn - Robert Lewandowski
Sóknarmaður Bayern München var markahæsti leikmaður undankeppninnar með 13 mörk. Hann er 27 ára og er á hátindi ferilsins. Hann mun láta ljós sitt skína í reyndara liði en því sem ekki komst í gegnum riðlakeppnina 2012.
Þjálfarinn - Adam Nawalka
Lék með Póllandi á HM 1978.
Ummæli - Lukasz Fabianski
„Við ætlum að komast upp úr riðlinum, þegar því markmiði hefur verið náð tel ég að ekkert lið vilji mæta okkur. Í undankeppninni unnum við Þýskaland. Þegar við vinnum heimsmeistarana þá óttumst við engan andstæðing."
Athugasemdir