England - Wales - Rússland - Slóvakía
Það er ljóst að íslenskir fótboltaáhugamenn munu horfa mikið til B-riðils þar sem enska landsliðið verður á sviðinu. Það verður enginn auðveldur leikur í þessum riðli en við fáum grannaslag milli Englands og Wales.
EM-upphitanir:
A-riðill
EM-upphitanir:
A-riðill
ENGLAND
Englendingar eru með svarta beltið í að valda vonbrigðum á stórmótum en það verður að viðurkennast að langt er síðan liðið hefur verið eins spennandi og nú. Það hafa orðið ákveðin kynslóðaskipti og leikmenn eins og Dele Alli, Harry Kane, Ross Barkley og Eric Dier eru ákveðnir í að láta ljós sitt skína.
England var hreinlega í auðveldum riðli í undankeppninni en fær hrós fyrir að sigla þessu faglega í höfn með fullt hús.
Styrkleikar: Ferskur andi yfir enska liðinu sem er fullt sjálfstrausts eftir öfluga undankeppni. Breiddin fram á við er meiri og liðsvalið hefur frekar einkennst af núinu en fyrri afrekum.
Veikleikar: Skyndilega á England fullt af kostum í sóknarlínuna en varnarlega eru spurningamerkin fleiri. Chris Smalling hefur vaxið í frábæran varnarmann en Cahill, Jagielka og Stones hafa allir verið að ströggla.
Væntingar: Enska pressan gerir alltaf kröfur. Hún vill sjá skemmtilegan fótbolta og að sitt lið nái sem allra lengst.
Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Hart; Clyne, Smalling, Cahill, Rose; Dier, Alli; Henderson, Rooney, Sterling; Kane.
Lykilmaðurinn - Eric Dier
Englandi hefur vantað öflugan varnarmiðjumann í mörg ár. Er hann fundinn í hinum 22 ára Dier? Leikmaðurinn lék virkilega vel fyrir Tottenham á liðnu tímabili og skaust á stjörnuhimininn.
Þjálfarinn - Roy Hodgson
Er kominn með 50 leiki sem þjálfari enska landsliðsins.
Ummæli - Raheem Sterling
„Eg vil fara í öll mót til að reyna að vinna þau. Ég fer ekki í þetta bara til að vera með" Við förum til Frakklands og gerum okkar besta. Vonandi komumst við langt."
WALES
Loksins eru þeir velsku mættir á Evrópumótið. Talað hefur verið um að liðið sé nánast bara Gareth Bale og tíu aðrir en þarna má finna nöfn eins og Aaron Ramsey, Ashley Williams, Joe Ledley, Joe Allen og unga og efnilega leikmenn
Styrkleikar: Bale, augljóslega. En helsti styrkleikinn er varnarleikurinn. 7 hrein lök í 10 leikjum undankeppninnar.
Veikleikar: Skortur á mörkum. Aðeins Albanía skoraði færri mörk í undankeppninni af þeim liðum sem komust áfram.
Væntingar: Stuðningsmenn Wales þrá sigur gegn Englandi. 16-liða úrslit er líklega það lengsta sem liðið getur komist.
Líklegt byrjunarlið 5-3-2: Hennessey; Hunter, Chester, A. Williams, Davies, Taylor; Allen, Ramsey, Ledley; Bale, Robson-Kanu.
Lykilmaðurinn - Gareth Bale
Kom að 10 af 11 mörkum Wales í undankeppninni. Leikmaður Real Madrid og býr yfir mörkum og stoðsendingum sem geta gert gæfumuninn. Magnaður leikmaður. Svo verður að nefna Williams í vörninni, sannur leiðtogi.
Þjálfarinn - Chris Coleman
Virtist hafa siglt í strand á þjálfaraferlinum en hefur náð að rísa upp.
Ummæli - Hal Robson-Kanu
„Það var stór áfangi að koma Wales loksins á stórmót eftir bið í hálfa öld. Liðið er vel skólað og hefur verið lengi saman. Manni líður vel í þessum hóp, eins og maður sé heima hjá sér."
RÚSSLAND
Rússar mæta á EM fullir bjartsýni. Þeir fara til Frakklands til að gera alvöru hluti.
Styrkleikar: Vopnin sóknarlega. Artem Dzyuba getur gert öllum varnarmönnum lífið leitt og hann fær góðan stuðning Roman Shirikov og Aleksandr Kokorin sem getur sprengt leiki upp.
Veikleikar: Aldraðir varnarmenn sem gætu átt í erfiðleikum gegn yngri og hraðari andstæðingum. Stóðu sig vel í undankeppninni en mæta nú öflugri sóknarmönnum.
Væntingar: Fyrsta skrefið er að koma sér upp úr riðlinum. Sama hver mótherjinn verður næst er ljóst að Rússland er erfiður andstæðingur.
Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Akinfeev; Smolnikov, Ignashevich, V. Berezutski, Zhirkov, Denisov; Dzagoev, Kokorin, Shirokov, Sahtov; Dzyuba.
Lykilmaðurinn - Roman Shirokov
Öflugur sóknarmiðjumaður og Rússland þarf á því að halda að hann verði í stuði í Frakklandi. Þessi leikmaður CSKA Moskvu býr til færi og getur skorað mörk þegar mest þarf á að halda.
Þjálfarinn - Leonid Slutsky
Þurfti að hætta sem leikmaður 19 ára eftir að hafa meiðst á hné en hann féll úr tré þegar hann var að bjarga ketti. Snéri sér þá að þjálfun.
Ummæli - Artem Dzyuba
„Þetta er ekki erfiðasti riðillinn og heldur ekki sá auðveldasti. England er sigurstranglegasta liðið í riðlinum þó ég haldi að þeir muni ekki berjast um sigur á mótinu"
SLÓVAKÍA
Landslið Slóvaka er eitt það óútreiknanlegasta í Evrópu. Liðið býr yfir leikreynslu og menn hafa verið lengi saman. Sjálfstraustið er til staðar.
Styrkleikar: Öflug vörn með Martin Skrtel í lykilhlutverki. Þar fyrir framan eru tveir öflugir varnarmiðjumenn; Juraj Kucka og Victor Pecovsky. Lykilmaðurinn fram á við er Marik Hamsik leikstjórnandi.
Veikleikar: Það vantar hraða í öftustu línu - Eitthvað sem hljómar eins og tónlist í eyrum Gareth Bale og Jamie Vardy.
Væntingar: Slóvakar vonast til að komast í 16-liða úrslit.
Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Kozacik; Pekarik, Skrtel, Durica, Hubocan; Pecovsky, Kucka; Mak, Hamsik, Weiss; Duris.
Lykilmaðurinn - Marek Hamsik
Slóvakar verða að treysta á að Hamsik verði í flottu formi á EM. Þessi 28 ára fyrirliði Napoli skilar lykilhlutverki í sköpunarkrafti landsliðs síns.
Þjálfarinn - Jan Kozak
Þessi reynslumikli Tékki hefur blásið sjálfstrausti í hæfileikaríkan leikmannahóp.
Ummæli - Peter Pekarik
„Okkar helsta markmið er að komast upp úr mjög erfiðum riðli. Það yrði magnað að endurtaka árangurinn frá HM 2010 og komast í 16-liða úrslitin. Við vonumst til að geta náð óvæntum úrslitum gegn Englandi. Það myndi vekja athygli."
Athugasemdir