Frakkland - Rúmenía - Albanía - Sviss
Evrópumótið fer af stað á föstudaginn þegar Frakkland mætir Rúmeníu í opnunarleik mótsins. Með þessum liðum í A-riðli eru Sviss og Albanía en lykilmenn í svissneska liðinu eiga ættir að rekja til Albaníu.
Fótbolti.net skoðar riðlana fyrir mótið.
Fótbolti.net skoðar riðlana fyrir mótið.
FRAKKLAND
Það hefur verið óvenju mikil lognmolla kringum franska landsliðið í aðdraganda Evrópumótsins. Engin lið þekkja dramatík utan vallar betur en Frakkar og kynlífsmyndbandsmálið kringum Mathieu Valbuena og Karim Benzema minnir okkur á það. Breiddin sem Didier Deschamps býr yfir gerir það að verkum að liðinu ætti að vegna vel án þeirra tveggja.
Frökkum hefur áður gengið vel þegar stórmót eru haldin á þeirra heimagrund og þeir unni EM 84 og HM 98. Liðinu hefur vegnað vel í leikjum í aðdraganda mótsins að þessu sinni.
Styrkleikar: Liðið hefur feykilega sterkt vopnabúr sóknarlega og með menn á bekknum sem geta komið inn og breytt gangi mála.
Veikleikar: Það eru spurningamerki í öftustu línu eftir meiðsli öflugra manna og bakverðirnir geta lent í vandræðum varnarlega. Mikið mun mæða á Hugo Lloris sem verður að eiga toppmót.
Væntingar: Í Frakklandi vonast almenningur eftir því að þeirra lið lyfti bikarnum á heimavelli og það verði upphafið að nýju blómatímabili.
Líklegt byrjunarlið 4-3-3: Lloris; Sagna, Mangala, Koscielny, Evra; Cabaye, Pogba, Matuidi; Griezmann, Martial, Giroud.
Lykilmaðurinn - Paul Pogba
Það hefur lengi verið talað um að þetta verði mótið hans Pogba. Hann er ákafur í að sýna þá gríðarlega hæfileika sem hann býr yfir. Gríðarleg reynsla þrátt fyrir ungan aldur hjá þessum miðjumanni Juventus.
Þjálfarinn - Didier Deschamps
Var fyrirliði Frakklands þegar liðið vann HM 1998.
Ummæli - Andre Pierre Gignac
„Hópnum líður vel saman og það er mikið hlegið. Okkur hefur gengið vel í undirbúningsleikjum þó að það þurfi að slípa varnarleikinn aðeins betur."
RÚMENÍA
Rúmenar hafa aðeins unnið einn af þrettán leikjum sem liðið hefur spilað í lokakeppni Evrópumóts. Það eru engin stór nöfn í liðinu sem vonast þó til að geta komið á óvart.
Styrkleikar: Liðið er byggt upp á samheldni þar sem enginn er ómissandi.
Veikleikar: Gæðaleysi á miðjunni og skortur á markaskorurum. Liðið mun reiða sig á gott skipulag.
Væntingar: Rúmenar vonast til að halda hreinu gegn Albaníu og Sviss og ná að kreista sér leið upp úr riðlinum.
Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Tatarusanu; Sapunaru, Chiriches, Grigore, Rat; Hoban, Pintili; Torje, Stanciu, Stancu; Andone.
Lykilmaðurinn - Nicolae Stanciu
Maðurinn sem Rúmenar treysta á að skapi eitthvað fram á við. Mikils metinn 23 ára dínamískur sóknarmiðjumaður sem spilar með Steaua Búkarest. Einn af fáum Rúmenum sem hafa það sem þarf til að láta til sín taka í sterkri Evrópudeild.
Þjálfarinn - Anghel Iordanescu
Kom Rúmenum í 8-liða úrslit á HM 1994.
Ummæli - Vlad Chiriches
„Þetta er mitt fyrsta stórmót og ég myndi gefa allt fyrir frábæra frammistöðu Rúmeníu. Ég leyfi mér að dreyma um sögulegt mót fyrir okkur."
ALBANÍA
Tekur í fyrsta sinn þátt í stórmóti og enginn býst við neinu frá liðinu. Komst áfram eftir dróna-atvikið umdeilda þar sem liðinu var dæmdur 3-0 sigur gegn Serbíu. Dróna með pólitískum skilaboðum á fána var flogið inn á völlinn.
Styrkleikar: Fékk ekki á sig mark á útivöllum í undankeppninni. Liðið hefur ekki töframenn fram á við og þarf að treysta á að liðsandinn fleyti þeim áfram.
Veikleikar: Liðinu vantar gæðaleikmenn og er að auki reynslulaust á stóra sviðinu.
Væntingar: Það sem þeir hafa þegar afrekað er magnað. Það yrði stórkostlegt fyrir liðið að ná að komast upp úr riðlakeppninni.
Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Berisha; Hysaj, Cana, Mavraj, Agolli; T. Xhaka, Abrashi; Lila, Kace, Lenjani; Balaj.
Lykilmaðurinn - Elseid Hysaj
Þegar hann gekk í raðir Napoli fyrir 5 milljónir punda í fyrra varð hann næst dýrasti albanski leikmaður sögunnar, aðeins fyrirliðinn Lorik Cana hefur verið keyptur fyrir hærri upphæð. Hysaj er 22 ára og er hluti af vörn albanska liðsins sem verður að eiga gott mót ef liðið ætlar áfram.
Þjálfarinn - Gianni De Biasi
Kom Modena í ítölsku A-deildina 2002 og er elskaður í Albaníu.
Ummæli - Lorik Cana
„Það er draumur að rætast með þessari þátttöku, ekki bara fyrir okkur heldur þjóðina alla. Við erum með hraða og kraft fram á við og frábæra vörn."
SVISS
Endaði í öðru sæti undankeppninnar, langt frá toppliði Englands. Féllu út eftir framlengingu gegn Argentínu á síðasta HM og ætla að eiga sitt besta Evrópumót. Í sannleika sagt þurfa þeir ekki mikið til að afreka það.
Styrkleikar: Reynsla. Flestir leikmennirnir leika í efstu deildum á Englandi, Þýskalandi og Ítalíu. Liðið hefur tvo frábæra bakverði, Granit Xhaka sem nýlega gekk í raðir Arsenal á miðjunni og hinn spennandi Breel Embolo í fremstu víglínu.
Veikleikar: Liðið skoraði 24 mörk í undankeppninni en nánast helmingurinn kom gegn San Marínó. Þrívegis mistókst liðinu að skora og það gæti reynst erfitt að koma boltanum í netið í Frakklandi.
Væntingar: Fyrsta skrefið er að komast upp úr riðlinum en bjartsýnustu Svisslendingar vonast til að liðið fari enn lengra, gæti komist í 8-liða úrslit.
Líklegt byrjunarlið 4-4-2: Sommer; Lichtsteiner, Schar, Djourou, Rodriguez; Shaqiri, Dzemaili, Xhaka, Behrami; Embolo, Seferovic.
Lykilmaðurinn - Xherdan Shaqiri
Leikmaður sem íslenskir fótboltaáhugamenn þekkja ansi vel. Messi alpanna eins og hann hefur verið kallaður býr yfir svakalegri boltatækni og hans þarf að gæta allar 90 mínúturnar. Skoraði og lagði upp mörk í undankeppninni. Þó hann hafi ekki alltaf verið í stuði með Stoke spilar hann alltaf vel fyrir Sviss.
Þjálfarinn - Vladimir Petkovic
Bosníumaður sem vann ítalska bikarinn með Lazio 2013.
Ummæli - Yann Sommer
„Liðsandinn er okkar helsti styrkur. Við byrjum á Albaníu og Rúmeníu og viljum ná í stig úr þeim leikjum áður en við mætum Frökkum. Þetta er mitt fyrsta stórmót sem aðalmarkvörður Sviss og ég get ekki beðið."
Athugasemdir