Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Grindavík 141 stig
7. Fram 119 stig
8. Haukar 117 stig
9. Leiknir F. 73 stig
10. Selfoss 71 stig
11. Fjarðabyggð 42 stig
12. Huginn 41 stig
6. Grindavík
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 1. deild
Grindvíkingar féllu úr Pepsi-deildinni árið 2012 og eru nú að fara inn í sitt fjórða tímabil í röð í 1. deildinni. Eftir að hafa verið markatölu frá því að fara upp árið 2013 þá hefur liðið ekki náð að gera alvöru atlögu að sæti í Pepsi-deildinni undanfarin tvö ár.
Þjálfarinn: Óli Stefán Flóventsson tók við Grindvíkingum síðastliðið haust af Tommy Nielsen. Óli Stefán hafði áður verið aðstoðarþjálfari liðsins í fyrra. Óli er öllum hnútum kunnugur í Grindavík eftir að hafa spilað með liðinu stærstan hluta af sínum ferli. Óli var spilandi þjálfari hjá Sindra á Höfn í Hornafirði í fimm ár áður en hann snéri aftur til Grindavíkur í fyrra.
Styrkleikar: Vörnin var flott hjá Grindvíkingum í fyrra og erfitt var að brjóta liðið á bak aftur á löngum köflum. Alexander Veigar Þórarinsson og Gunnar Þorsteinsson eru komnir aftur á heimaslóðir í Grindavík og þeir styrkja miðjuna mikið. Breiddin hefur ekki verið mikil hjá Grindvíkingum undanfarin ár en með styrkingu fyrir mót er hún orðin talsvert meiri en áður auk þess sem ungir leikmenn hafa fengið talsvert af mínútum í vetur.
Veikleikar: Stöðugleikinn var mesti óvinur Grindvíkinga í fyrra. Liðið gat unnið flotta sigra en tapað illa í næsta leik. Alex Freyr Hilmarsson var potturinn og pannan í sóknarleiknum í fyrra en hann var marka og stoðsendingahæstur. Alex fór í Víking R. í vetur og fylla þarf skarðið sem hann skilur eftir sig. Mikil meiðsli hafa verið hjá Grindavík í vetur og nýir leikmenn eru að koma seint til liðs við hópinn. Grindvíkingar hafa því lítið náð að spila á sínu sterkasta liði ennþá og árangurinn í Lengjubikarunm var slakur.
Lykilmenn: Alexander Veigar Þórarinsson, Gunnar Þorsteinsson, Jósef Kristinn Jósefsson.
Gaman að fylgjast með: Brasilíski kantmaðurinn Jo Oliveira samdi við Grindvíkinga á dögunum. Hinn 27 ára gamli Oliveira hefur meðal annars spilað með U17, U19 og U21 árs landsliði Brassa á ferli sínum. Gæti slegið í gegn.
Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:
Komnir:
Alexander Veigar Þórarinsson frá Þrótti
Anton Ari Einarsson frá Val á láni
Gunnar Þorsteinsson frá ÍBV
Jo Oliveira frá Króatíu
Will Daniels frá Ægi
Farnir:
Alejandro Jesus Blazquez Hernandez til Spánar
Alex Freyr Hilmarsson í Víking R.
Angel Guirado Aldeguer til Spánar
Benóný Þórhallsson í Reyni Sandgerði á láni
Scott Ramsay í GG
Tomislav Misura í Reyni Sandgerði á láni
Fyrstu leikir Grindavíkur:
6. maí Grindavík – Haukar
16. maí Huginn – Grindavík
21. maí Grindavík – Leiknir F.
Athugasemdir