Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   þri 07. maí 2024 20:52
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Dortmund vann í París
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
PSG 0 - 1 Dortmund (0-2 samanlagt)
0-1 Mats Hummels ('50)

Paris Saint-Germain tók á móti Borussia Dortmund í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Dortmund vann fyrri leikinn 1-0 á heimavelli og var staðan markalaus eftir bragðdaufan fyrri hálfleik í París þar sem bæði lið fengu hálffæri en tókst ekki að skapa mikla hættu.

Heimamenn í PSG mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik og áttu skot í stöng áður en Dortmund fékk hornspyrnu sem Mats Hummels skallaði í netið eftir að hafa verið skilinn eftir einn innan vítateigs. Lucas Beraldo átti að dekka Hummels en gleymdi sér.

PSG skapaði góð færi en tókst ekki að jafna gegn skipulögðum gestum sem voru skeinuhættir í skyndisóknum sínum. Parísarmenn fengu nokkur dauðafæri í síðari hálfleik og hreint með ólíkindum að þeim hafi ekki tekist að jafna metin.

Dortmund er því búið að tryggja sig í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í ár. Þetta er í fyrsta sinn í ellefu ár sem Dortmund kemst í úrslitaleikinn, eftir að liðið tapaði gegn erkifjendum sínum í FC Bayern 2013. Sá úrslitaleikur gæti verið endurtekinn í ár, þar sem Bayern er í undanúrslitum gegn Real Madrid.

Til gamans má geta að úrslitaleikurinn 2013 var leikinn á Wembley, alveg eins og úrslitaleikurinn í ár.
Athugasemdir
banner
banner