Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   þri 07. maí 2024 22:20
Ívan Guðjón Baldursson
Terzic: Draumurinn er enn á lífi
Mynd: EPA
Edin Terzic, þjálfari Borussia Dortmund, var himinlifandi eftir sigur lærisveinna sinna á útivelli gegn stórveldi Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Dortmund tryggði sér þannig þátttöku í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með samanlögðum 2-0 sigri eftir 1-0 sigur á heimavelli í fyrri leik liðanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Dortmund kemst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðan 2013, þegar liðið tapaði gegn FC Bayern á Wembley. Úrslitaleikurinn í ár fer einnig fram á Wembley og á Bayern möguleika á að tryggja sér sæti þar takist liðinu að leggja Real Madrid að velli annað kvöld.

„Ég er mjög stoltur af strákunum. Draumurinn er enn á lífi. Við þjáðumst mikið í kvöld en við sýndum frábæra frammistöðu gegn sterkum andstæðingum. Við vörðumst gríðarlega vel gegn snöggu og leiknu sóknarliði. Við getum verið stoltir," sagði Terzic eftir sigurinn í kvöld, þar sem PSG óð í færum í síðari hálfleik en tókst ekki að skora.

„Við unnum báða leikina í undanúrslitunum, það er ótrúlegt. Þeir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en við fengum besta færið og það var mikilvægt fyrir strákana til að halda í trúna. Við gerðum virkilega vel að halda þetta út."

Dortmund mætir annað hvort FC Bayern eða Real Madrid í úrslitaleik á Wembley.
Athugasemdir
banner
banner
banner