Arda Guler á óskalista Liverpool - Fulham hefur áhuga á Chalobah - Hættir Man Utd við Branthwaite? - Velur Real Madrid fram yfir stórlið á Englandi
   lau 08. júní 2024 12:24
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fúsa tíðrætt um andleysi og orkuleysi - „Best að ég myndi stíga til hliðar"
Lengjudeildin
'Ég fann líka sjálfur að ég væri orkulítill'
'Ég fann líka sjálfur að ég væri orkulítill'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Liðið fyrir leikinn gegn Keflavík.
Liðið fyrir leikinn gegn Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Ég var búinn að reyna berja einhverri orku í þá en það gekk ekkert alltof vel'
'Ég var búinn að reyna berja einhverri orku í þá en það gekk ekkert alltof vel'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Ég veit að um leið og það tekst þá verður liðið í mjög góðum málum'
'Ég veit að um leið og það tekst þá verður liðið í mjög góðum málum'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Ég hafði ótrúlega gaman af þessu eina og hálfa ári hjá Leikni'
'Ég hafði ótrúlega gaman af þessu eina og hálfa ári hjá Leikni'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fúsi í leik með Leikni árið 2013.
Fúsi í leik með Leikni árið 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vigfús Arnar Jósepsson sagði upp sem þjálfari Leiknis í vikunni. Síðasti leikur liðsins undir hans stjórn var 5-0 tap gegn Keflavík á útivelli þar sem úrslitin voru ráðin í fyrri hálfleik.

Vigfús tók við liðinu fyrir tímabilið 2023 og var um eitt og hálft ár í starfi. Fótbolti.net ræddi við Fúsa í dag.

„Tímabilið í fyrra var erfitt að mörgu leyti, byrjuðum mjög illa, unnum okkur vel á strik og enduðum á því að ná markmiðinu að komast í umspilið. Það hefði verið gaman að komast upp úr því en það gerðist ekki. Við fórum vongóðir inn í undirbúningstímabilið, með töluverðar væntingar um að við værum búnir að þróa liðið og taka einhver skref. Það var fínn gír hjá okkur, en við byrjum mótið illa; töpum á móti Njarðvík í fyrsta leik, flatur fyrri hálfleikur - og þessir leikir hafa verið frekar flatir. Mér finnst hafa vantað orku í liðið, eins og það væri smá andleysi eitthvað."

„Það var 0-0 í hálfleik gegn Aftureldingu en einhvern veginn var tilfinningin að við værum að tapa leiknum 0-3. Svo kom þessi Keflavíkurleikur sem var hræðilegur, sérstaklega fyrri hálfleikurinn. Margir lykilmenn ekki að spila nógu vel. Ég var búinn að reyna berja einhverri orku í þá en það gekk ekkert alltof vel. Ég fann líka sjálfur að ég væri orkulítill. Ég hef verið í öðru starfi með þessu í eitt og hálft ár. Ég fann eftir Keflavíkurleikinn að það væri mögulega einhver betur til þess fallinn en ég að taka þetta áfram, gefa þessum gaurum orku. Mér fannst þetta helsta vandamálið."

„Ég er ekki hlutlaus en mér finnst liðið vera í fínu standi og vel þjálfaðir, en það er þetta orkuleysi og þetta andleysi sem hefur verið að trufla mig. Mér fannst liðið þurfa nýja rödd, nýtt sjónarhorn, einhvern sem getur gefið þeim þá orku sem þeir þurfa til að ýta sér áfram. Ég er fullviss um að um leið og þeir fá það þá verða strákarnir í góðum málum,"
segir Fúsi.

Byrjunin í fyrra var erfið í fyrra og var staðan þannig að ef liðið myndi ekki ná í úrslit þá yrði Fúsi látinn fara. Liðið svaraði því kalli og gengið snerist við.

Fúsi talar um að hann sjálfur sé orkulítill. Þú sást þig ekki vera manninn í að snúa þessu við á þessum tímapunkti?

„Það er akkúrat þannig. Í fyrra var ég á fyrsta tímabili, búið að vera mikið álag en maður var alltaf með trú að maður væri rétti einstaklingurinn til þess að ýta þessu áfram. Það raungerðist. Núna er maður í svipuðum aðstæðum, búinn að endurlifa sömu hlutina og maður finnur að maður er orkulaus einhvern veginn. Annað árið í röð i sama pakka, eitthvað sem maður bjóst ekki við. Persónulega er ég mjög svekktur yfir því og ég veit að strákarnir eru mjög svekktir yfir því líka."

„Ég veit ekki hvað það eru margir þjálfarar í Lengjudeildinni að vinna með þjálfuninni. Ég var í þeim pakka og svo hafa verið einhverjir hlutir í persónulega lífinu sem höfðu líka áhrif. Mótið er á fullri ferð og það er enginn tími fyrir liðið að bíða eftir að ég fái orku aftur, það eru leikir í hverri viku og liðið á botninum. Það er enginn tími til þess að þjálfarinn jafni sig á einhverju orkuleysi. Það þarf bara einstakling inn sem getur rifið þetta strax upp."


Hver var þín upplifun á mönnum þegar þú tilkynnir þeim að þú ætlir að hætta?

„Ég talaði við þá fyrir æfingu og það kom einhverjum á óvart og öðrum minna á óvart. Þetta kom held ég flatt upp á flesta að ég hafi ákveðið þetta núna."

„Ég fann þetta vera að byggjast upp, sérstaklega eftir leikinn gegn Aftureldingu. Svo kom það aftur eftir leikinn gegn Keflavík. Manni leið eins og blaðran væri loftlaus - orkulítill."


„Það endurspeglar þetta andleysi"
Ef svarið frá liðinu í Keflavík hefði verið betra, sérðu þig þá hafa tekið slaginn áfram?

„Þá hefði maður séð að strákarnir svöruðu kallinu, það hefði komið þessi orka í þá sem þarf til. Þá hefði maður hugsað að þetta væri kannski komið aftur á réttan kjöl. Maður er ekki jafngagnrýnin á sjálfan sig þegar maður vinnur fótboltaleiki. Að vera 5-0 undir í hálfleik, þeir áttu held ég sjö skot á markið okkar í öllum leiknum og fimm fóru inn. Við áttum tíu skot á markið þeirra en skoruðum ekkert. Við vorum mikið meira með boltann en þeir, komumst oftar inn í vítateig en þeir, en töpuðum hins vegar miklu fleiri návígum. Það endurspeglar þetta andleysi."

„Ég var búinn að segja við strákana að ég hefði þungar áhyggjur af andleysinu, sagði það við þá eftir leikinn Gróttu sem við hentum frá okkur í lokin. Ég sagði að við þyrftum að rífa okkur í gang en það tókst ekki í næstu tveimur leikjum. Það tekur í persónulega að vera á botninum. Ég ákvað að það væri best að ég myndi stíga til hliðar og einhver annar kæmi inn."


Þarf að vekja liðið
Fúsi er stuðningsmaður Leiknis. Hvern viltu sjá taka við liðinu?

„Eina sem ég hef skoðun á er að það verði einstaklingur sem getur gefið liðinu mikla orku, kemur með jákvæðni, von og trú - nái að lyfta strákunum upp, vekja þá af þessum svefni sem þeir hafa verið í núna í byrjun móts. Það þarf að vera einstaklingur sem leyfir þeim að finna leikgleðina aftur. Ég veit að um leið og það tekst þá verður liðið í mjög góðum málum."

„Ég vona að liðið nái sér á strik sem fyrst, finni leikgleðina aftur og þetta keppnisskap sem þarf til að vinna fótboltaleiki. Það er mín mesta von að það gerist núna mjög hratt."


„Það langskemmtilegasta sem ég geri"
Hvað tekur við hjá þér, langar þig að taka að þér annað starf í þjálfun á næstunni?

„Já, ég er alveg opinn fyrir því. Ég hef mjög gaman af þessu, þetta er ástríðan mín, það langskemmtilegasta sem ég geri. Ég hafði ótrúlega gaman af þessu eina og hálfa ári hjá Leikni, maður lærði ótrúlega mikið og lagði líf og sál í þetta. Maður eyddi ófáum klukkustundunum í þetta og þetta var ógeðslega skemmtilegt. Ef það koma önnur tækifæri inn á borð til mín þá mun ég klárlega skoða það, hvort sem það verður núna strax eða seinna. Það kemur bara í ljós," sagði Fúsi.

Næsti leikur Leiknis er gegn Grindavík eftir viku.
Lengjudeild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    HK 7 4 2 1 20 - 8 +12 14
2.    FHL 6 4 1 1 19 - 16 +3 13
3.    Afturelding 7 4 1 2 8 - 5 +3 13
4.    Grótta 7 3 2 2 13 - 12 +1 11
5.    Grindavík 6 3 1 2 7 - 3 +4 10
6.    ÍA 7 3 0 4 9 - 13 -4 9
7.    Fram 7 2 2 3 13 - 10 +3 8
8.    Selfoss 6 2 2 2 10 - 10 0 8
9.    ÍBV 6 1 1 4 8 - 12 -4 4
10.    ÍR 7 1 0 6 6 - 24 -18 3
Athugasemdir
banner
banner
banner