Arda Guler á óskalista Liverpool - Fulham hefur áhuga á Chalobah - Hættir Man Utd við Branthwaite? - Velur Real Madrid fram yfir stórlið á Englandi
banner
   lau 08. júní 2024 17:05
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Afturelding hafði betur í sjö marka leik
Lengjudeildin
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Dalvík/Reynir
Afturelding 4 - 3 Dalvík/Reynir
1-0 Georg Bjarnason ('30)
1-1 Abdeen Temitope Abdul ('38)
2-1 Gunnar Bergmann Sigmarsson ('43)
3-1 Elmar Kári Enesson Cogic ('50, víti)
3-2 Abdeen Temitope Abdul ('60)
3-3 Amin Guerrero Touiki ('75)
4-3 Hrannar Snær Magnússon ('82)

Lestu um leikinn: Afturelding 4 -  3 Dalvík/Reynir

Afturelding tók á móti Dalvík/Reyni í eina leik dagsins í Lengjudeild karla og úr varð gríðarlega mikil skemmtun.

Afturelding var talsvert sterkari aðilinn í byrjun leiks en tókst ekki að taka forystuna fyrr en á 30. mínútu, þegar Georg Bjarnason skoraði eftir góðan undirbúning frá Elmari Kára Cogic, en gestirnir jöfnuðu átta mínútum síðar.

Abdeen Temitope Abdul skoraði þá með marki sem kom þvert gegn gangi leiksins, eftir góða fyrirgjöf frá Amin Guerrero.

Mosfellingar voru talsvert sterkari og voru ekki lengi að endurheimta forystuna, þegar Gunnar Bergmann Sigmarsson skoraði eftir níundu hornspyrnu heimamanna í leiknum.

Staðan var 2-1 í leikhlé og tvöfaldaði Elmar Kári forystuna með marki úr vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks. Afturelding byrjaði seinni hálfleikinn af krafti en Dalvíkingum tókst að jafna metin.

Abdeen skoraði sitt annað mark á 60. mínútu eftir hrikalegan varnarleik heimamanna, þar sem varnarlína Aftureldingar sofnaði á verðinum og Arnar Daði Jóhannesson átti að gera betur í markinu, en hann missti boltann inn eftir að hafa varið skot Abdeen.

Aftur kom mark Dalvíkinga gegn gangi leiksins, rétt eins og þriðja markið sem Amin Guerrero skoraði eftir frábæra skyndisókn á 75. mínútu.

Staðan var þá orðin 3-3 þökk sé frábærri færanýtingu gestanna, en heimamenn héldu áfram að sækja líkt og þeir höfðu gert allan leikinn.

Það skilaði sér með marki á 82. mínútu þegar Hrannar Snær Magnússon skoraði með glæsilegum skalla af löngu færi.

Mosfellingar fengu færi til að bæta öðru marki við en tókst ekki og urðu lokatölur 4-3 eftir mikla yfirburði Aftureldingar og góða færanýtingu Dalvíkinga.

Þetta er annar sigurinn í röð hjá Aftureldingu og er liðið komið með 8 stig eftir 6 fyrstu umferðirnar á nýrri leiktíð.

Dalvík/Reynir er með 6 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner