Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 08. nóvember 2017 20:40
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Reyna að heilla Heimi meðan aðrir sleikja sólina
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Kjartan Henry ásamt sjónvarpsmanni í Katar.
Kjartan Henry ásamt sjónvarpsmanni í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrri leikurinn í Katar er að baki. Tap niðurstaðan. Ekkert sem maður er óvanur þegar kemur að vináttulandsleikjum hjá Íslandi.

Döpur úrslit vináttuleikja er ekki kvörtunarefni á meðan árangurinn þegar máli skiptir er svona stórkostlegur. Líka þegar maður veit að vináttulandsleikirnir eru nýttir til að auka möguleikana á því að vinna leikina sem telja.

Fjölgun æfingaleikja og verkefna á borð við janúarverkefnin utan landsleikjahléa eru klárlega einn af fjölmörgum þáttum þess að við eigum landslið í fremstu röð.

Núverandi landsleikjahlé er ansi sérstakt hjá íslenska landsliðinu. Heimir Hallgrímsson fer ekki leynt með það að heimsóknin til Katar sé að stórum hluta verðskulduð verðlaun fyrir þá leikmenn sem tryggðu okkur ævintýri á HM í Rússlandi á næsta ári. Golfkylfurnar eru dregnar fram, sólin sleikt og strengir stilltir í rólegheitum. Menn njóta þess að vera hér pressulausir á meðan stórar fótboltaþjóðir eru að spila umspilsleiki um að fá félagsskap okkar í Rússlandi.

En þeir sem ekki teljast lykilmenn í íslenska hópnum geta ekki slakað of mikið á við sundlaugabakkann. Samkeppnin um að komast í lokahópinn á næsta ári er enn harðari en hún var fyrir Evrópumótið. Fleiri eru að gera tilkall og hlutirnir eru fljótir að breytast í boltanum. Þar gildir það sem þú hefur gert að undanförnu.

„Þetta var versti dagur lífs míns," sagði landsliðsmaður sem missti af sæti á EM í Frakklandi við mig þegar hann lýsti deginum þegar lokahópurinn var kynntur.

Kapphlaupið um að koma með til Rússlands er farið á fleygiferð og menn keppast um að heilla Heimi. Stuðningsmenn sjá það sem gerist inni á vellinum en ljóst er að það sem gerist utan vallar, það sem menn gera innan hópsins í verkefnum, skiptir líka gríðarlega miklu máli.

Þó það séu 217 dagar til HM í Rússlandi eru dagarnir sem leikmenn fá til að sanna sig innan landsliðshópsins ekki margir áður en lokahópurinn verður kynntur. Spurningamerkin eru enn ansi mörg.

Það er öðruvísi en klárlega mikilvægt landsliðsverkefni í gangi og það í ansi sérstöku landi. Við fjöllum nánar um það síðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner