Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 08. desember 2017 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Búinn að eltast við Axel Óskar í þrjá mánuði
Axel er mættur í treyju Torquay United.
Axel er mættur í treyju Torquay United.
Mynd: Torquay United
Eltingarleik Torquay United við varnarmanninn Axel Óskar Andrésson er loksins lokið. Axel er kominn til félagsins á láni frá Reading og mun spila með liðinu til áramóta.

Gary Owers, þjálfari Torquay, þekkir Axel vel eftir að hafa þjálfað hann hjá Bath City á síðasta tímabili.

Owers reyndi að fá Axel til félagsins um leið og hann tók við stjórnartaumunum en það var fyrir þremur mánuðum síðan.

„Hann var einn sá fyrsti sem ég hringdi í, það hefur tekið langan tíma að fá hann. Hann hefur verið í kringum aðalliðið hjá Reading, hann hefur ferðast með liðinu og verið á bekknum. Hann hefur líka verið í landsliðverkefnum og þess vegna höfum við þurft að bíða," sagði Owers um Axel Óskar.

„Eftir að við fengum hann til Bath á síðasta tímabili fórum við í gegnum tíu leiki án þess að tapa og hann var lykilmaður í því. Þegar hann yfirgaf félagið elskuðu hann allir."

„Hann er frábær karakter og það er mikil orka sem fylgir honum, hann kemur öllum öðrum í gott skap."

„Vonandi munum við sjá hann hoppa í áhorfendaskarann," sagði Owers, sem vonast líka eftir víkingaklappi."

„Ég vil fá að heyra víkingaklapp," sagði hann að lokum.

Sjá einnig:
Axel Óskar setur sér háleit markmið - Ætlar á HM
Athugasemdir
banner