Arda Guler á óskalista Liverpool - Fulham hefur áhuga á Chalobah - Hættir Man Utd við Branthwaite? - Velur Real Madrid fram yfir stórlið á Englandi
   þri 11. júní 2024 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Siggi Höskulds: Pirrandi að heyra það sem stuðningsmaður liðsins
'ið viljum halda í okkar gildi, við erum með lið sem getur lagt Stjörnuliðið þegar kemur að ákefð og hörku. Það er einn af lykilþáttunum í því hvernig leikurinn á morgun spilast'
'ið viljum halda í okkar gildi, við erum með lið sem getur lagt Stjörnuliðið þegar kemur að ákefð og hörku. Það er einn af lykilþáttunum í því hvernig leikurinn á morgun spilast'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég býst við því að hann taki þátt í leiknum'
'Ég býst við því að hann taki þátt í leiknum'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Fannar er byrjaður að æfa á fullu, styttist mikið í hann'
'Fannar er byrjaður að æfa á fullu, styttist mikið í hann'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Margir eru að stíga sín fyrstu skref í alvöru liði með alvöru væntingar á bakinu'
'Margir eru að stíga sín fyrstu skref í alvöru liði með alvöru væntingar á bakinu'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Margir leikmenn sem ég hef þjálfað og þekki vel'
'Margir leikmenn sem ég hef þjálfað og þekki vel'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Við erum alls ekki að búast við því að hann mæti hérna í sumar, en vonandi á næsta tímabili'
'Við erum alls ekki að búast við því að hann mæti hérna í sumar, en vonandi á næsta tímabili'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við höfum fundið að stuðningsmenn Þórs geta gefið mikinn kraft og mikla orku'
'Við höfum fundið að stuðningsmenn Þórs geta gefið mikinn kraft og mikla orku'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Klukkan 18:00 á morgun mætast Þór og Stjarnan á heimavelli Þórs í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla. Umferðin í bikarnum hófst með sigri Vals á Keflavík eftir vítaspyrnukeppni á sunnudag og lýkur svo á fimmtudag með tveimur leikjum. Þór er í Lengjudeildinni en Stjarnan er í Bestu deildinni.

Upphitun í Hamri, félagsheimili Þórsarar, hefst klukkan 16:00 og það verður 'happy hour' og frítt candy floss.

Fótbolti.net ræddi við Sigurð Heiðar Höskuldsson í dag. Siggi er þjálfari Þórs.

„Völlurinn er bara ágætur," sagði Siggi við fyrstu spurningu blaðamanns. „Leikurinn leggst mjög vel í mig. Við erum búnir að fá smá hlé þar sem Grindavíkurleiknum var frestað. Við erum að koma úr 12 daga pásu, gátum tekið okkur smá frí og svo æft vel fyrir leikinn. Við erum virkilega vel stemmdir," sagði Siggi.

Marc gæti spilað sinn fyrsta leik í sumar
Allir í Þórshópnum hafa verið að æfa vel en Siggi var sérstaklega spurður út í þá Marc Rochester Sörensen og Fannar Daða Malmquist sem hafa glímt við meiðsli.

„Marc er að koma til baka, hefur æft á fullu í svolítinn tíma. Ég býst við því að hann taki þátt í leiknum. Fannar er byrjaður að æfa á fullu, styttist mikið í hann."

Kannski pirrandi að heyra það sem stuðningsmaður liðsins
Síðasti leikur Þórs var gegn Njarðvík, leikurinn tapaðist 5-1 en Siggi var þrátt fyrir það ánægður með margt í leiknum.

„Það var margt sem við gerðum vel í þeim leik. Það er kannski pirrandi að heyra það sem stuðningsmaður liðsins eftir 5-1 tap, en við vorum nokkuð ánægðir með margt í leiknum. Lykilaugnablik í leiknum fóru með þetta, þeir nýttu sín tækifæri mjög vel, komust í 3-1 og eftir það leystist leikurinn svolítið upp og þeir skoruðu sanngjarnt tvö í viðbót."

„Við höfðum aldrei fengið á okkur fleiri en tvö mörk frá því að ég tók við, þannig þetta var svolítið nýtt fyrir okkur að leka svona mikið af mörum. Þetta var kannski ágæts vakning á því."


Þór átti að spila við Grindavík í síðustu viku en þeim leik var frestað þar sem Grindavík er með leikmenn sem fóru í landsliðsverkefni.

„Auðvitað vildum við spila leikinn, en það var ekkert sem við gátum sagt eða gert við því. Það er vissulega öðruvísi að vera núna alltaf einum leik á eftir hinum liðunum í deildinni. Leikurinn var bara færður og við höfum ekkert verið að pirra okkur á því."

Býst við sterkasta liði Stjörnunnar
Stjarnan hefur tapað tveimur leikum í röð í Bestu deildinni og fengið mikið af mörkum á sig. Við hvernig Stjörnuliði býst Siggi á morgun?

„Miðað við síðustu tvo leiki held ég að Stjarnan muni ekki hringla mikið í liðinu. Ég held að þeir sjái fyrir sér að bikarinn sé eitthvað sem þeir eru að fara keyra á. Ég býst við að þeir stilli upp sínu allra sterkasta liði og keyri á okkur. Við búumst við því, það ætti að vera einhver eldur í þeim. Ég held þeir sjái fyrir sér gott tækifæri til að komast langt í bikarnum á meðan deildin er kannski ekki alveg að spilast eins og þeir vildu. Ég held við fáum dýrvitlaust Stjörnulið hingað á morgun."

Eru með lið sem getur lagt Stjörnuliðið að velli
Hvernig leik þarf Þór að spila til að fara áfram?

„Við þurfum einhvern veginn að bregðast við einhverju af því sem þeir gera í sínum sóknarleik og halda áfram okkar leik þegar við erum á boltanum. Við höfum aðeins hikstað í sóknarleiknum í byrjun tímabils. Mér fannst einhver jákvæð teikn á lofti þar í síðasta leik og við ætlum að reyna bæta ofan á það. Við þurfum að vera fastir fyrir, ákafir. Það eru mjög sprækir og flinkir strákar í Stjörnuliðinu sem við þurfum að taka vel á. Við viljum halda í okkar gildi, við erum með lið sem getur lagt Stjörnuliðið þegar kemur að ákefð og hörku. Það er einn af lykilþáttunum í því hvernig leikurinn á morgun spilast."

„Kemur allt annað Stjörnulið til leiks á morgun"
Það er lítið, ef eitthvað, hægt að horfa í leik þessara liða í Lengjubikarnum þar sem Stjarnan hvíldi allt sitt lið; einungis einn leikmaður Stjörnunnar í þeim leik hefur spilað í deildinni til þessa. Það er Haukur Örn Brink sem skoraði bæði mörk liðsins gegn Vestra í síðustu umferð.

„Við höfum ekkert rætt þann leik neitt. Við horfum í það að það kemur allt annað Stjörnulið til leiks á morgun. Þeir eru kannski örlítið særðir eftir síðustu tvo leiki þannig ég býst við mjög áköfu Stjörnuliði."

„Ég held þeir séu ekki búnir að spila grasleik í sumar. Það er erfitt að lesa í hvernig þeir breyta upplegginu gagnvart því að spila á grasvelli. Ég held þeir séu ekki beint í stöðu til að breyta miklu eða taka einhverja áhættu með einhverjum breytingum. Ég held þeir þurfi að halda áfram að þróa liðið, ef ég á að lesa í stöðuna."


Spenntur að sjá hvernig menn bregðast við
Siggi hefur verið rúmt hálft ár í starfi hjá Þór, var ráðinn eftir að síðasta tímabili lauk.

„Tíminn hefur verið mjög góður, mikill kraftur í klúbbnum; stjórn og stuðningsmönnum og miklar væntingar. Þegar mótið byrjar er maður örlítið að kynnast liðinu upp á nýtt og hvernig menn díla við að vera með væntingar á bakinu. Við gerum kröfur á okkur sjálfa og umhverfið gerir kröfur á okkur að spila árangursríkan fótbolta. Ég er spenntur fyrir framhaldinu, sjá hvernig menn díla við það að byrjunin á deildinni hefur kannski verið aðeins undir pari hvað varðar stigasöfnun."

„Ég er spenntur að sjá hvernig liðið og umhverfið bregst við næstu vikum. Við erum með mjög ungan mannskap, eitt yngsta liðið í deildinni sem er mjög skemmtilegt. Margir eru að stíga sín fyrstu skref í alvöru liði með alvöru væntingar á bakinu. Ég er spenntur að sjá hvernig næstu vikur þróast."


Gefur liðinu mikinn kraft og orku
Hversu mikið myndi öflugur stuðningur úr stúkunni gera fyrir Þórsliðið?

„Virkilega mikið. Við höfum fundið að stuðningsmenn Þórs geta gefið mikinn kraft og mikla orku, sýndu það sérstaklega í keppnisleikjunum inni í Boganum. Þá hjálpuðu þeir okkur alveg gífurlega. Ég býst ekki við öðru en það verði mjög vel sótt á VÍS völlinn á morgun og að við fáum alvöru kraft úr stúkunni."

Auðvitað einhverjar tilfinningar
Siggi var á sínum tíma yngri flokka þjálfari hjá Stjörnunni. Hefur það einhverja þýðingu fyrir hann fyrir leikinn á morgun?

„Já og nei. Ég var í fjögur ár hjá Stjörnunni og auðvitað eru einhverjar tilfinningar, margir leikmenn sem ég hef þjálfað og þekki vel. Það hefur alltaf einhverja smá tilfinningalega þýðingu að spila á móti sínum fyrrum félagi."

Siggi þjálfaði 2. og 4. flokk hjá Stjörnunni á sínum tíma og eru margir hverjir af þeim strákum í stóru hlutverki í meistaraflokknum í dag.

Búast ekki við Aroni í sumar
Að lokum, hefur þú rætt eitthvað við Aron Einar Gunnarsson? Heldur þú að það séu einhverjar líkur á því að hann spili með Þór seinni hluta tímabilsins?

„Það er lítið um það að segja núna. Eina sem ég veit er að hann er að horfa á að taka eitt tímabil í viðbót úti í Katar. Við bara fylgjumst með hvernig þau mál þróast hjá honum. Ég veit að hann vill spila fyrir Þór áður en hann leggur skóna á hilluna. Við bíðum bara rólegir og sjáum hvað gerist. Við erum alls ekki að búast við því að hann mæti hérna í sumar, en vonandi á næsta tímabili," sagði Siggi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner