Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 11. desember 2017 14:00
Magnús Már Einarsson
Íslenskir strákar fengu að hitta leikmenn Liverpool fyrir leik
Mikael Breki og Sigmundur Logi ásamt Mo Salah.
Mikael Breki og Sigmundur Logi ásamt Mo Salah.
Mynd: Úr einkasafni
Fjórir íslenskir strákar duttu í lukkupottinn fyrir nágrannaslag Liverpool og Everton á Anfield í gær. Strákarnir voru ásamt feðrum sínum að taka myndir fyrir utan Bill Shankly styttuna á Anfield löngu fyrir leik þegar starfsfólk frá Liverpool spjallaði við þá.

Starfsfólkið bauð strákunum að taka þátt í verkefni hjá Liverpool sem heitir „magic moment" en þar fá ungir aðdáendur að hitta leikmenn fyrir leik og fá með þeim mynd og eiginhandaráritun.

Sextán ungir aðdáendur fengu að hitta leikmenn Liverpool fyrir leik og þeir Mikael Breki og Sigmundur Logi Þórðarsynir og Daði Snær og Eiður Sölvi Hálfdánarsynir voru þar á meðal.

„Fyrir ferðina þá voru þeir að tala um að þeir væru að fara að hitta alla leikmennina en ég var að draga úr væntingunum og sagði að þeir væru nú ekki endilega að fara að hitta leikmennina þó að þeir væru að fara á Anfield. Þetta var töluvert meira en ég átti nokkurntímann von á," sagði Þórður Sigmundur Sigmundsson, faðir Mikaels og Sigmundar, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Mikael Breki er 10 ára og Sigmundur Logi er 8 ára en þeir æfa báðir með KA. Þeir fengu meðal annars myndir með uppáhaldsleikmönnum sínum sem eru Mohamed Salah, Roberto Firminio og Sadio Mane.

„Þeir voru mjög almennilegir. Það kom mér á óvart hvað þeir gáfu sér mikinn tíma í þetta fyrir leikinn," sagði Þórður.

„Emre Can, Salah og Coutinho voru þvílíkt almennilegir. Firmino kom meira segja aftur til þeirra í myndatöku þar sem fyrri myndin var ekki nógu góð," sagði Þórður en hann er með sannkallað Liverpool uppeldi.

„Ég söng Liverpool söngva fyrir þá þegar ég var að svæfa þá í gamla daga. Það voru engar vögguvísur. Það er grjóthart uppeldi á þessum bæ. Það er verið að klára að kristna þá með þessu."
Athugasemdir
banner
banner