Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 13. janúar 2017 15:30
Elvar Geir Magnússon
Upphitun fyrir Afríkukeppnina - Hverjir geta unnið?
Flautað til leiks í Gabon á morgun
Gabonmaðurinn geggjaði, Aubameyang.
Gabonmaðurinn geggjaði, Aubameyang.
Mynd: Getty Images
Riyad Mahrez var valinn leikmaður ársins í Afríku 2016.
Riyad Mahrez var valinn leikmaður ársins í Afríku 2016.
Mynd: Getty Images
Tony Mawejje, leikmaður Þróttar, verður í eldlínunni með Úganda.
Tony Mawejje, leikmaður Þróttar, verður í eldlínunni með Úganda.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adebayor er án félags en verður samt í eldlínunni i Gabon.
Adebayor er án félags en verður samt í eldlínunni i Gabon.
Mynd: Getty Images
Sadio Mane hefur verið á eldi með Liverpool.
Sadio Mane hefur verið á eldi með Liverpool.
Mynd: Getty Images
Afríkukeppnin hefst í 31. sinn á morgun klukkan 16 þegar heimamenn í Gabon og Gínea-Bissá, sem er í fyrsta skipti í lokakeppnininni, eigast við. Sextíu ár eru síðan fyrsta Afríkukeppnin fór fram í Súdan 1957.

Í núverandi fyrirkomulagi taka sextán þjóðir þátt í fjórum riðlum og leiknir eru 32 leikir á 23 dögum. Úrslitaleikurinn verður þann 5. febrúar. Keppnin er nú haldin í Gabon en átti upphaflega að vera í Libíu. Vegna borgarastyrjaldar þar var keppnin færð.

Af þátttökuþjóðum er Gabon lægst skrifaða lið Afríkukeppninnar, situr í 108. sæti á FIFA-listanum. En í liðinu er þó einn hættulegasti sóknarmaður heims, Pierre-Emerick Aubameyang sem spilar fyrir Borussia Dortmund.

Meðal annarra stjarna sem taka þátt í Afríkukeppninni er Riyad Mahrez og dýrasti leikmaður Afríku frá upphafi, Sadio Mane. Mahrez var í lykilhlutverki í Englandsmeistaraliði Leicester í fyrra og er lykilmaður hjá Alsír. Mane kostaði Liverpool 34 milljónir og hefur staðið undir verðmiðanum. Hann er hættulegasta vopn Senegal.

23 leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni taka þátt í Gabon. Auk Mahrez og Mane má þar nefna Fílabeinsstrendinginn Eric Bailly hjá Manchester United, Ganverjann Andre Ayew hjá West Ham, Alsíringinn Islam Slimani hjá Leicester og vængmanninn Wilfried Zaha sem spilar fyrir Crystal Palace og Fílabeinsströndina. Stutt er síðan Zaha ákvað að spila fyrir Fílabeinsströndina en ekki England.

Einnig verður spennandi að sjá Egyptann Mohamed Salah sem hefur verið frábær með ítalska liðinu Roma síðan hann kom frá Chelsea. Ef hann nær fram sínu besta í Gabon gæti hann kryddað mótið svo um munar.

Svo má ekki gleyma því að einn leikmaður sem spilar í íslensku B-deildinni er með á mótinu. Það er miðjumaðurinn Tony Mawejje sem leikur fyrir Þrótt. Mawejje á um 70 landsleiki að baki fyrir Úganda.

Lykilmaður Úganda er þó markvörðurinn Denis Onyango sem valinn var besti Afríkumaðurinn sem spilar með félagsliði í Afríku. Hann leikur með Mamelodi Sundowns í Suður-Afríku.

Herve Renard setur stefnuna á að verða fyrsti þjálfarinn til að vinna Afríkukeppnina með þremur mismunandi þjóðum. Frakkinn lyfti bikarnum með Sambíu 2012 og síðan með Fílabeinsströndinni á síðasta móti. Hann er nú þjálfari Marokkó.

Meðal annarra þjálfara á mótinu er Avram Grant hjá Gana, fyrrum stjóri Chelsea. Heitt er undir Grant og reiknað með því að hann missi starfið sama hvernig fer því ekki hefur gengið vel í aðdraganda mótsins.

Gínea-Bissá tekur þátt í mótinu í fyrsta sinn. Það er risastórt fyrir þessa þjóð, eina fátækustu þjóð heims, að komast í lokakeppnina. Fyrir undankeppnina hafði landsliðið aðeins unnið fjóra af 32 leikjum sínum í sögunni. Liðið er nær eingöngu skipað innflytjendum sem spila í neðri deildum Portúgals.

„Þegar ég skoða leikmannahópa Alsír, Gana, Fílabeinsstrandarinnar og Senegal sé ég að við erum ekki meðal bestu liða keppninnar. En allir 23 sem spila fyrir Tógó munu gera sitt besta á mótinu," segir Emmanuel Adebayor, fyrirliði Tógó. Adebayor spilaði í mörg ár í ensku úrvalsdeildinni en hefur verið án félags síðan hann yfirgaf Crystal Palace í júní 2016.

Kamerún er alls ekki líklegt til afreka á mótinu. Ekki síst fyrir þær sakir að átta leikmenn liðsins neituðu að taka þátt, þar á meðal varnarmaðurinn Joel Matip hjá Liverpool. „Við erum fórnarlömb fjárkúgunar," sagði stjórnarmaður kamerúnska sambandsins, Simon Lyonga, sem sakar knattspyrnustjóra í Evrópu um að hvetja leikmenn sína til að taka ekki þátt í Afríkukeppninni.

Hvaða lið geta unnið mótið?

Ríkjandi meistarar í Fílabeinsströndinni hafa gengið í gegnum endurnýjun á hópnum eftir að leikmenn á borð við Yaya Toure og Didier Drogba lögðu skóna á hilluna. Liðið strögglaði í undankeppninni en það sama var uppi á teningnum áður en liðið vann bikarinn fyrir tveimur árum. Reiknað er með því að Zaha verði notaður sem fremsti maður og spennandi að sjá hvernig það gengur upp.

Gana hefur fjórum sinnum orðið Afríkumeistari, síðast 1982. Síðan þá hefur liðið tapað þrívegis í úrslitaleik. Mun ganga betur í Gabon?

Í Alsír má finna Mahrez og Slimani auk miðjumannsins Yacine Brahimi hjá Porto. Liðið var ósigrað í undankeppninni og hefur fína breidd í leikmannahópnum. Það er bjartsýni í Alsír á að liðið geti unnið sinn annan titil.

Senegal fór í gegnum undankeppnina með 100% árangur. Ef liðið nær að halda áfram á sömu braut og Mane blómstrar í sóknarleiknum gæti liðið farið alla leið. Auk Mane má finna öfluga leikmenn eins og Kalidou Koulibaly, varnarmann Napoli, miðjumanninn Cheikhou Kouyate hjá West Ham og sóknarmanninn Moussa Sow hjá Fenerbahce.

Egyptaland var einnig öflugt í undankeppninni og er þekkt fyrir að standa sig þegar mestu máli skiptir. Salah er maðurinn sem allt snýst um í liðinu.

Annars er erfitt að giska á sigurvegara í Afríkukeppninni. Sambía kom öllum á óvart 2012 og keppnin er sífellt að verða erfiðari.

Riðlarnir:
A-riðill: Gabon, Búrkína Fasó, Kamerún, Gínea- Bissá.
B-riðill: Alsír, Túnis, Senegal, Simbabve.
C-riðill: Fílabeinsströndin, Lýðveldið Kongó, Marokkó, Tógó.
D-riðill: Gana, Malí, Egyptaland, Úganda.

Tvö efstu lið hvers riðils komast í 8-liða úrslit sem leikin verða 28. og 29. janúar.
Athugasemdir
banner
banner