Nóg af Amorim tengdu slúðri - Arsenal horfir til Bayern - Chelsea horfir til Lecce - Gerrard ætlar að berjast
   fim 21. maí 2015 10:45
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 4. umferð: Við erum komnir í pakkann
Skúli Jón Friðgeirsson (KR)
Skúli í leiknum í Lautinni í gær.
Skúli í leiknum í Lautinni í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Skúli Jón segir góð gæði í deildinni.
Skúli Jón segir góð gæði í deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Vonandi var þetta ekki þetta eina mark mitt á tímabilinu. Vonandi kem ég með fleiri mörk í sumar," segir varnarmaðurinn Skúli Jón Friðgeirsson hjá KR sem er leikmaður fjórðu umferðar Pepsi-deildarinnar og fær því pizzuveislu frá Domino's.

Hann kórónaði flotta frammistöðu sína í 3-1 útisigri gegn Fylki með því að skora annað mark KR-inga í leiknum.

Smelltu hér til að sjá úrvalslið umferðarinnar

„Það var mjög sterkt að vinna þennan leik. Sérstaklega í ljósi þess að þetta var ekki okkar allra besti leikur og þess vegna er þetta enn sterkara. Það var kominn tími til að nýta föstu leikatriðin með því að skora og ég fagna því að við náðum því og að ég nái inn mark," segir Skúli en eftir aukaspyrnu renndi hann sér í boltann og setti hann í stöngina og inn.

„Við vorum ekki sáttir með að vera með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina en vissum að spilamennskan var alveg í lagi og þetta myndi smella. Nú erum við komnir með tvo sigurleiki í röð sem er mjög mikilvægt. Við erum komnir í pakkann."

Jónas fæddur leiðtogi
Skúli er kominn aftur í íslensku deildina og segir að gæðin séu góð.

„Fótboltinn fær ennþá að líða fyrir ástandið á völlunum á þessum árstíma en „standardinn" er samt góður. Liðin hafa verið að reyta hvert af öðru svo þessi byrjun er bara mjög skemmtileg fyrir alla," segir Skúli.

Jónas Guðni Sævarsson stýrði fagnaðarlátunum í klefa KR-inga af mikilli snilld en óhætt er að segja að hann hafi gert það listilega vel miðað við myndband sem birtist á netinu.

„Hann lætur vel í sér heyra inni á vellinum og líka utan hans. Hann er fæddur leiðtogi og er hrikalega flottur í þessu hlutverki," segir Skúli Jón en næsti leikur KR er heimaleikur gegn ÍBV á mánudag.

„Það er heimaleikur og það kemur ekki annað til greina á heimavelli en að vinna. ÍBV er komið á blað en eru kannski enn smá brothættir. Við keyrum á þá."

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
3. umferð: Sigurður Egill Lárusson (Valur)
2. umferð: Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Athugasemdir
banner
banner