Antony vill ekki yfirgefa Man Utd - Bakvörður Sevilla á blaði Man Utd - Newcastle ætlar að halda Trippier
banner
   mán 18. maí 2015 12:30
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Bestur í 3. umferð: Tókum lengstu æfingu fyrir leik
Sigurður Egill Lárusson (Valur)
Sigurður Egill í leiknum í gær.
Sigurður Egill í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigurður hefur verið öflugur í síðustu tveimur leikjum.
Sigurður hefur verið öflugur í síðustu tveimur leikjum.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Valsmenn léku á als oddi þegar þeir fengu stórlið FH í heimsókn á Vodafone-Hlíðarenda í gær og unnu 2-0 sigur. Sigurður Egill Lárusson skoraði bæði mörkin í leiknum en hann er leikmaður 3. umferðarinnar hjá Domino's og Fótbolta.net.

Smelltu hér til að sjá úrvalslið umferðarinnar

„Þetta var nánast fullkominn leikur. Mér fannst eiginlega allt ganga upp og þetta var virkilega flottur leikur hjá okkur," sagði Sigurður Egill rétt áður en hann mætti á æfingu Vals núna í hádeginu.

Reyndum að gleyma fyrsta leik
Umræðan um Valsliðið var ansi neikvæð eftir fyrsta leikinn gegn Leikni sem tapaðist 0-3 en Hlíðarendaliðið lét þá umræðu ekki hafa áhrif á sig.

„Fyrsti leikurinn var hörmung og við reyndum bara að gleyma honum. Svo kom leikurinn gegn Víkingi sem mér fannst virkilega góður fyrir utan það þegar við sváfum á verðinum í tveimur föstum leikatriðum. Þeir náðu ekkert að opna okkur. Við ákváðum að byggja ofan á þann leik og það heppnaðist."

Óli vel sjóaður í þessu
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson undirbjuggu leikinn gegn FH vel.

„Stígandinn hefur verið hraður og góður. Óli og Bjössi voru búnir að kortleggja leik FH-ingana vel og Óli þekkir náttúrulega vel til liðsins. Við vissum alveg út í hvað við vorum að fara. Við tókum lengstu æfingu fyrir leik í fyrradag þar sem við fórum yfir föstu leikatriðin og ætluðum ekki að fá á okkur mark úr föstu leikatriði," segir Sigurður.

„Óli og Bjössi eru alveg með þetta. Óli er vel sjóaður í þessu og þeir voru ekkert stressaðir fyrir þennan leik. Þessi leikur gefur okkur aukið sjálfstraust fyrir leikinn á miðvikudaginn á móti sterku liði Breiðabliks."

Einmitt uppskriftin að leikmanni sem ég vildi
Að mati fréttaritara Fótbolta.net á leiknum voru tveir leikmenn sem stóðu öðrum fremri í gær, auk Sigurðar var það Kristinn Freyr Sigurðsson.

„Kristinn var virkilega öflugur. Annars var allt liðið mjög gott. Varnarlínan var mjög traust og Kale í markinu. Daninn Thomas (Christensen) í vörninni er líka frábær viðbót. Hann er virkilega flottur leikmaður og góður karakter. Hann styrkir okkur mikið og er einmitt uppskriftin að leikmanni sem ég óskaði eftir að fá," segir Sigurður Egill.

Fyrra mark Sigurðar í gær skoraði hann með skalla sem hefur ekki verið hans einkennismerki gegnum tíðina.

„Nei það hefur alls ekki verið þannig en ég skoraði samt eitt mark í fyrra með skalla. En þetta er sjaldgæft," segir Sigurður Egill sem fær pizzuveislu frá Domino's en hann er mikill Meat and cheese maður að eigin sögn.

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
2. umferð: Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Athugasemdir
banner
banner
banner