Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 26. júní 2016 14:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
EM: Griezmann kom Frökkum til bjargar
Griezmann er maður augnabliksins í Frakklandi
Griezmann er maður augnabliksins í Frakklandi
Mynd: Getty Images
Frakkland 2 - 1 Írland
0-1 Robbie Brady (´2, víti )
1-1 Antoine Griezmann (´58 )
2-1 Antoine Griezmann (´61 )
Rautt spjald: Shane Duffy, Írland (´66 )

Gestgjafarnir frá Frakklandi lentu í kröppum dansi gegn Írlandi í fyrsta leik dagsins í 16-liða úrslitunum á EM.

Síðast þegar þessi lið mættust var mönnum gríðarlega heitt í hamsi. Það var árið 2009 í umspilsleik um sæti á HM í Suður-Afríku. Frakkar fóru þá áfram á kolólöglegu marki og voru Írar brjálaðir.

Margir töluðu um það að þeir færu með hefnd í huga í leikinn í dag, en það var eflaust ekki í huga leikmanna Írlands þegar þeir löbbuðu inn á völlinn í dag. Aðeins þrír leikmenn í hópi Íra spiluðu leikinn árið 2009, þeir John O'Shea, Glenn Whelan og Robbie Keane.

Það kom mörgum á óvart þegar Írland náði forystunni í leiknum eftir aðeins tvær mínútur. Paul Pogba felldi þá Shane Long í teignum og vítaspyrna var dæmd. Úr henni skoraði Robbie Brady og staðan 1-0 fyrir Íra, heldur betur óvænt.

Frakkarnir byrjuðu strax að þjarma að marki Íra eftir það, en tókst ekki að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik og Írar leiddu því í hálfleik 1-0. Didier Deschamps, þjálfari Frakka, setti Kingsley Coman inn á í hálfleik og það átti eftir að skila sínu.

Á 57. mínútu jafnaði Antoine Griezmann með frábærum skalla og stuttu síðar skoraði hann sitt annað mark. Allt í einu voru Frakkar komnir yfir og hlutirnir versnuðu bara fyrir Írland þegar Shane Duffy fékk að líta beint rautt spjald fyrir tækla títtnefndan Griezmann sem var að sleppa einn í gegn.

Frakkar spiluðu vel það sem eftir lifði, en lokatölur urðu 2-1 fyrir Frakkland, sem mæta því annað hvort England eða Íslandi í 8-liða úrslitum. Leikur Englands og Íslands fer fram annað kvöld.







Athugasemdir
banner
banner
banner
banner