Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   fim 30. nóvember 2017 12:25
Magnús Már Einarsson
Axel Óskar til Torquay á láni - Fer í efri deildir eftir áramót
Axel Óskar Andrésson.
Axel Óskar Andrésson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Axel Óskar Andrésson, varnarmaður U21 árs landsliðsins og Reading, er farinn til Torquay í ensku utandeildinni á láni. Lánssamningurinn gildir til áramóta.

Torquay er í fallbaráttu í efstu utandeildinni á Englandi og Axel á að hjálpa liðinu þar. Þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar fer Axel í ensku C eða D-deildina á láni.

„Hann er mjög mikils metinn hjá okkur. Við viljum að hann spili fleiri aðalliðsleiki og þess vegna sendum við hann á lán. Eftir jól fer hann í league one (C-deild) eða league two (D-deild)," sagði Brian Tevreden, yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading, við Fótbolta.net í dag.

„Það eru nokkur lið sem hafa áhuga á honum. Við viljum taka þetta í réttum skrefum og þess vegna fer hann í utandeildina fyrst. Síðan sendum við hann annað á lán."

Axel spilaði sína fyrstu leiki með aðalliði Reading í enska deildabikarnum fyrr á tímabilinu en hann hefur einnig verið á bekknum í leikjum í Championship deildinni.

„Hann er að standa sig mjög vel. Við viljum að hann vaxi á láni og komi síðan til okkur í aðalliðið. Við sjáum hann sem framtíðarleikmann hjá Reading," sagði Brian.

Hinn 19 ára gamli Axel er uppalinn hjá Aftureldingu en hann fór til Reading árið 2014. Á síðasta tímabili fór Axel til Bath á láni en það félag er í næstefstu utandeild á Englandi. Axel sló í gegn þar en hann var gerður að fyrirliða þrátt fyrir ungan aldur. Gary Owers, stjóri Torquay, þekkir Axel vel því hann þjálfaði Bath á síðasta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner