Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
Í BEINNI
Besta-deild karla
HK
14:00 0
0
FH
Valur
0
3
Bodö/Glimt
0-1 Ulrik Saltnes '40
0-2 Patrick Berg '51 , víti
0-3 Patrick Berg '54
22.07.2021  -  19:00
Origo völlurinn
Sambandsdeild UEFA
Aðstæður: Rigningarlegt en annars fínt
Dómari: Vitor Ferreira (Portúgal)
Áhorfendur: 623
Maður leiksins: Ulrik Saltnes (Bodo/Glimt)
Byrjunarlið:
1. Hannes Þór Halldórsson (m)
2. Birkir Már Sævarsson
3. Johannes Vall
4. Christian Köhler ('79)
5. Birkir Heimisson
6. Sebastian Hedlund
9. Patrick Pedersen ('79)
10. Kristinn Freyr Sigurðsson ('65)
13. Rasmus Christiansen
14. Guðmundur Andri Tryggvason ('88)
77. Kaj Leo í Bartalsstovu ('65)

Varamenn:
25. Sveinn Sigurður Jóhannesson (m)
8. Arnór Smárason ('79)
11. Sigurður Egill Lárusson ('79)
12. Tryggvi Hrafn Haraldsson ('88)
15. Sverrir Páll Hjaltested ('65)
17. Andri Adolphsson ('65)
20. Orri Sigurður Ómarsson
21. Magnus Egilsson
33. Almarr Ormarsson

Liðsstjórn:
Heimir Guðjónsson (Þ)
Haukur Páll Sigurðsson
Srdjan Tufegdzic

Gul spjöld:
Birkir Már Sævarsson ('19)
Patrick Pedersen ('42)

Rauð spjöld:
Leik lokið!
Valur fer í erfiðan leiðangur til Noregs í næstu viku...

Ég þakka samfylgdina í kvöld. Þangað til næst.


93. mín
Inn:Sigurd Kvile (Bodö/Glimt) Út:Marius Lode (Bodö/Glimt)
93. mín
Inn:Elias Kristoffersen Hagen (Bodö/Glimt) Út:Sebastian Tounekti (Bodö/Glimt)
92. mín
Það hefði verið gott að sjá þennan inni en því miður er þetta ekki dagur Valsmanna.
91. mín
ARNÓR SMÁRA!
Tekur boltann á lofti og neglir honum í slána!!
90. mín
Fjórum mínútum bætt við.
90. mín
Valur vinnur boltann hátt á vellinum en nær ekki að nýta sér það. Sending Sverris á Tryggva ekki nægilega góð.
88. mín
Inn:Tryggvi Hrafn Haraldsson (Valur) Út:Guðmundur Andri Tryggvason (Valur)
Gott að sjá Tryggva Hrafn aftur inn á fótboltavellinum. Hans annar leikur í sumar held ég; er að stíga upp úr meiðslum.
84. mín
Mér finnst ekkert benda til þess að Valur minnki muninn. Norska liðið er með fulla stjórn á þessu.
81. mín
Alfons fer hér niður við litla hrifningu stuðningsmanna Vals.
80. mín
Mynd sem lýsir þessu kvöldi Valsmanna nokkuð vel.


79. mín
Inn:Sigurður Egill Lárusson (Valur) Út:Patrick Pedersen (Valur)
79. mín
Inn:Arnór Smárason (Valur) Út:Christian Köhler (Valur)
78. mín
Andri kemst svo í ágætis færi í teignum, kassar boltann og setur hann yfir markið.
77. mín
Andri Adolphs fellur í teignum en ekkert dænt. Það var mögulega eitthvað í þessu...
77. mín
Sigurður Egill að koma inn á hjá Val.
77. mín
Inn:Lasse Selvåg Nordås (Bodö/Glimt) Út:Erik Botheim (Bodö/Glimt)
77. mín
Inn:Axel Lindahl (Bodö/Glimt) Út:Hugo Vetlesen (Bodö/Glimt)
75. mín
Sverrir Páll keyrir á vörnina og reynir skot. Fínasta tilraun sem Haikin handsamar í annarri tilraun.
73. mín
Fín sókn hjá Val. Boltinn berst til Vall vinstra megin og hann er með flotta fyrirgjöf á fjærstöngina. Andri nær að taka við boltanum en settur hann í andlitið á Konradsen. Varamaðurinn stendur sem betur fer beint aftur upp.
72. mín
Inn:Morten Konradsen (Bodö/Glimt) Út:Marius Høibråten (Bodö/Glimt)
69. mín
Brunstad Fet með skot yfir markið. Valsmenn ekkert líklegir til að minnka muninn eins og er.
68. mín
Fín pressa hjá Andra og Lode hendir sér í jörðina þegar hann er kominn í erfiða stöðu. Aukaspyrna dæmd. Ekkert á þetta.
67. mín
Köhler með frábæra tæklingu inn á teignum og kemur í veg fyrir skot. Hann þurfti að tímasetja þessa hárrétt og gerði það bara.
65. mín
Inn:Andri Adolphsson (Valur) Út:Kaj Leo í Bartalsstovu (Valur)
65. mín
Inn:Sverrir Páll Hjaltested (Valur) Út:Kristinn Freyr Sigurðsson (Valur)
64. mín
Bodo fær þrjár hornspyrnur í röð. Ná ekki að búa sér til neitt úr þeim.
62. mín
Andri Adolphs og Sverrir Páll að koma inn á hjá Valsmönnum.
60. mín
Vall dauðafrír vinstra megin en Kaj Leo er hrikalega lengi að athafna sig fyrir sendinguna yfir. Hún kemur loksins og þá kemst Alfons inn í hana; les þetta eins og opna bók.

Alfons ræðir hér við þjálfara sinn. Landsliðsbakvörðurinn búinn að vera virkilega flottur hér í dag. Búinn að vera 'solid' ef við slettum aðeins.
59. mín
Ekki alveg verið leikurinn hans Patrick Pedersen, og ekki alveg verið sumarið hans. Hann er ekki mikið í því að hitta boltann inn á teignum.
58. mín
Patrick Berg búinn að skora tvö mörk.


58. mín
Gleymum því ekki að Valur lenti 3-0 undir gegn Dinamo Zagreb og minnkaði muninn í 3-2.

Ég er að reyna að halda í jákvæðnina hérna...
56. mín
Þetta er fljótt að gerast í fótboltanum. Valsmenn voru flottir fyrsta hálftímann og aðeins meira en það. Núna virðist hausinn bara vera farinn.
54. mín MARK!
Patrick Berg (Bodö/Glimt)
Stoðsending: Ulrik Saltnes
Stöngin, stöngin, INN!

Berg og Saltnes að reynast Valsmönnum erfiðir. Saltnes á sendingu inn á Berg sem kemur askvaðandi inn á teiginn. Berg á svo skot sem fer í báðar stangirnar og inn. Köhler var ekki að elta almennilega.
52. mín
Valsmenn baula á dómarann en þetta var að ég held hárréttur vítaspyrnudómur. Hannes missti boltanum og fór í manninn.
51. mín Mark úr víti!
Patrick Berg (Bodö/Glimt)
Stoðsending: Ulrik Saltnes
ÞAÐ ER GAT Á MARKINU!

Ég hélt að þessi hefði farið fram hjá, en hann fór í gegnum eitthvað gat á markinu. Berg sá þetta strax og fagnaði.

Núna er þetta brekka fyrir Val.
50. mín
Bodo fær víti! Hannes brýtur á Saltnes.
49. mín
Vetlesen með skot að marki fyrir utan teig en það er laflaust og Hannes þarf ekki að hafa mikið fyrir því að handsama það.
48. mín
Rosalega finnst mér Birkir Heimis vera góður leikmaður. Hann er kominn til að vera í þessu Valsliði.
47. mín
Birkir Heimis með lúxussendingu yfir til hægri á nafna sinn. Birkir Már kemur boltanum fyrir og Valur fær hornspyrnu.

Kaj með spyrnuna, yfir allan pakkann.
46. mín
Leikur hafinn
Þetta er byrjað aftur. Koma svo Valur!
45. mín
Hálfleikur
Minni á það að útivallarmörk eru ekki til í Evrópukeppni lengur. Ef leikurinn endar 1-1 og niðurstaðan í Noregi verður markalaust jafntefli, þá verður framlengt.
45. mín
Hálfleikur
Satt best að segja, þá finnst mér þetta hafa verið fínn hálfleikur hjá Íslandsmeisturunum og þeir eiga ekki skilið að vera undir. Það eru 45 mínútur eftir og spennandi að sjá hvernig þær þróast.

Tölfræðin:
Skottilraunir: 4 - 7
Á mark: 2 - 3
Með bolta: 34 - 66%

Ég væri ekki það hissa á því ef Valur væri með hærra xG.
45. mín
Hálfleikur
Engu bætt við.
45. mín
Kristinn Freyr með geggjaðan sprett inn á teiginn frá vinstri, fer illa með Alfons og reynir skot, en það fer í varnarmann. Svo er Guðmundur Andri nálægt því að komast í boltann en brýtur á markverðinum að mati dómarans.
44. mín
Tounekti kominn í ágætis stöðu inn í teignum og reynir skot. Hedlund hendir sér fyrir það, setur lærið í boltann, og bjargar því að skotið fari á markið.
43. mín
Berg með skot fyrir utan teig en það fer fram hjá markinu.
42. mín
Vi har Pedersen, vi har Pedersen

Syngja stuðningsmenn Vals þegar sóknarmaðurinn fær gula spjaldið.
42. mín Gult spjald: Patrick Pedersen (Valur)
Marius Lode lætur Patrik heyra það. Róaðu þig vinur, þú ert á gulu.

Patrick fær gult fyrir brot.
41. mín
Mér fannst einhvern veginn eins og pendúllinn væri að komast yfir á Val, þeir væru að ná meiri tökum á leiknum. Svo kemur þetta mark eins og köld gusa í andlitið.

Vont en það er nóg eftir af þessum leik.
40. mín MARK!
Ulrik Saltnes (Bodö/Glimt)
Stoðsending: Erik Botheim
Æjiiiii
Patrick Berg með sendingu sem Botheim skallar niður fyrir Saltnes í teignum. Hann klárar svo afskaplega vel í góðri stöðu.

Einfalt en mjög vel gert samt sem áður.
39. mín
VINDURINN!
Birkir Már með alvöru sprett þarna áðan. Maðurinn er 36 ára en líklega fljótari en allir á vellinum.


39. mín
Kaj Leo og Birkir Heimis standa yfir boltanum.

Birkir tekur skotið en það er ÖMURLEGT! Hátt yfir. Þarna mátti alveg gera betur.
38. mín Gult spjald: Marius Lode (Bodö/Glimt)
Birkir Már fær aukaspyrnu á góðum stað!
35. mín
Það er alveg ljóst - miðað við þessar fyrstu 35 mínútur - að Valur á möguleika í þessu einvígi.
33. mín
Það er farið að birta aðeins til hér á Hlíðarenda.
33. mín
Bodo fær hornspyrnu...

Það kemur ekkert úr henni. Valsmenn náð að verjast hornspyrnum norska liðsins með ágætum til þessa.
31. mín
Valsmenn vilja hendi!

Birkir átti fyrirgjöf og Lode reynir að taka boltann niður. Þetta var mjög vandræðaleg móttaka hjá honum og Valsstúkan kallar eftir hendi. Það er ekkert í þessu sýndist mér.
30. mín
Bodo miklu meira með boltann en þeir hafa ekki náð að gera mikið við hann hingað til.
27. mín
Valsmenn fara upp í hraða sókn. Boltinn berst til Johannes Vall sem hægir á sókninni og missir boltann. Koma Johannes, þú getur betur en þetta!
26. mín
Høibråten brýtur á Kaj Leo við miðlínuna. Lætur svo færeyska kantmanninn heyra það. Fannst hann fara full auðveldlega niður.
23. mín
Eins og Óli Jó sagði margoft í Stúkunni í sumar, þá elska Kristinn Freyr og Patrick að spila saman; þeir reyna alltaf að finna hvorn annan.

Það fyrsta sem Kristinn Freyr gerir þegar hann fær boltann er að hann lítur upp og reynir að finna hvar Patrick er. Hann spyrnir svo boltanum í átt að danska sóknarmanninum. Ekki slæmt leikplan ef þú spyrð mig, tveir frábærir leikmenn. Bjó til mjög fína sókn áðan.
20. mín
Birkir Heimis skallar boltann frá.
19. mín Gult spjald: Birkir Már Sævarsson (Valur)
Aukaspyrna við vítateigslínuna hægra megin. Þessum bolta verður spyrnt inn á teiginn.
18. mín
Sondre Brunstad Fet, stattu upp maður! Kyssir olnbogann á Köhler og fellur í jörðina með tilþrifum. Fær aukaspyrnu. Hélt við værum að spila fótbolta, ekki körfubolta. Áfram gakk!
17. mín
Ég held að Valsmenn geti verið tiltölulega sáttir með frammistöðu sína hingað til. Bodo/Glimt eru hættulegir og það má ekki sofna á verðinum í eina sekúndu.
16. mín
Hornspyrna hjá gestunum og Høibråten rís hæst í teignum. Skalli hans er hins vegar fram hjá.
15. mín
Guðmundur Andri klikkaði illa í varnarvinnunni á Skaganum síðasta laugardag. Hér er hann mættur til baka og verst mjög vel í tvígang inn á teignum.
14. mín
FÆRI!!!
Birkir átti frábæra sendingu yfir á nafna sinn hægra megin. Birkir nær flottum bolta fyrir en Patrik nær ekki alveg að hitta hann nægilega vel. Skot hans fram hjá markinu.

Það er kraftur í Valsmönnum!
12. mín
Bodo á hornspyrnu. Saltnes nær skallanum á nærstönginni en hátt yfir markið. Engin hætta af þessu.
12. mín
Brunstad Fet með skot hinum á vellinum - við vítateiginn - en það fer fram hjá markinu.
11. mín
Þetta var skemmtilega spilað hjá Val!

Kristinn Freyr með langa sendingu upp völlinn, inn á Patrick. Sá danski tekur við honum og spilar með G. Andra. Kantmaðurinn á svo fínustu tilraun að marki en markvörður Bodo grípur. Flott sókn.
9. mín
Kristinn Freyr næstum því búinn að ná boltanum af Marius Lode í öftustu línu. Það hefði skapað dauðafæri. Lode bjargar sér fyrir horn.
7. mín
Þetta er að byrja skemmtilega, bæði lið fengið færi til að skora fyrsta markið.
6. mín
Birkir Heimis tekur hornspyrnu sem hafnar í stönginni utanverðri.
6. mín
Guðmundur Andri, nálægt því að skora fyrsta markið!


5. mín
AHHHHHHH
Kristinn Freyr fær aukaspyrnu og er fljótur að hugsa. Aukaspyrnan er frábær og hann þræðir Guðmund Andra í gegn. Snertingin hans er hins vegar ekki nægilega góð.

Þarna munaði ekki miklu!
4. mín
Valsvörnin verður að standa betur en þetta. Var alltof auðvelt fyrir norska liðið að búa sér til fínt færi þarna.
3. mín
Fínasta færi
Bodo spilar ágætlega og það endar með því að Tounekti fær skot. Hannes gerir vel og ver það. Þarna leit Johannes Vall ekki vel út!

Bodo fær hornspyrnu en Valsmenn skalla hana frá.
2. mín
Lið Bodo (4-3-3):
Haikin
Alfons - Moe - Lode - Høibråten
Brustad Fet - Berg - Saltnes
Tounekti - Botheim - Vetlesen
2. mín
Lið Vals (4-2-3-1):
Hannes
Birkir Már - Seba - Rasmus - Vall
Birkir Heimis - Köhler
Guðmundur Andri - Kristinn Freyr - Kaj Leo
Patrick
1. mín
Leikur hafinn
ÁFRAM Valur, ÁFRAM íslenskur fótbolti!
Fyrir leik
Það gilda aðrar reglur á leikjum á vegum UEFA. Varamenn þurfa að sitja upp í stúku og fjölmiðlamenn fá ekki að fara niður á völl til að taka viðtöl eftir leik.
Fyrir leik
Það eru tíu mínútur í þetta! Liðin fara inn í klefa.
Fyrir leik
Heimir Guðjóns er obbosins 'manager'. Leyfir Túfa að stýra upphituninni og er bara rólegur á meðan. Túfa lifir sig vel inn í upphitunina og heldur mönnum á tánum.


Fyrir leik
Miðað við uppstillingu frá UEFA, þá eru bæði lið í 4-3-3.
Fyrir leik
Valur þarf að hafa góðar gætur á Botheim
Valur þarf í dag að hafa góðar gætur á sóknarmanninum Erik Botheim, sem leikur í treyju númer 20 hjá norska liðinu. Á þessu tímabili er hann búinn að skora átta mörk í 14 deildarleikjum. Hann virkaði ekki eins vel fyrir Stabæk í fyrra, þar sem hann skoraði hvorki meira né minna en núll mörk í 15 leikjum.

Hann var með Erling Haaland í norska U19 landsliðinu eins og sjá má á þessari mynd:

Embed from Getty Images
Fyrir leik
Valsmenn búnir að hita upp í sirka tíu mínútur áður en Alfons og félagar mæta út á völl.
Fyrir leik
Valsmenn eru mættir út á völl í upphitun, vel gíraðir.
Fyrir leik
FH mætir líka norsku liði í kvöld. FH-ingar taka á móti Rosenborg. Sá leikur er auðvitað líka í beinni textalýsingu á Fótbolta.net!

Smelltu hér til aað fara í beina textalýsingu frá Kaplakrikavelli.
Fyrir leik
Vel gert Breiðablik
Breiðablik var að spila við Austria Vín í Austurríki og tókst þar að landa 1-1 jafntefli. Vel gert Breiðablik. Vonum að FH og Valur nái líka í góð úrslit í leikjunum sem byrja núna klukkan 19:00!


Fyrir leik
BYRJUNARLIÐIN:
Byrjunarliðin eru klár. Alfons Sampsted er í byrjunarliðinu hjá Noregsmeisturunum.

Valur gerir fjórar breytingar frá tapleiknum gegn ÍA síðasta laugardag. Birkir Heimisson, Rasmus Christiansen Guðmundur Andri Tryggvason og Kaj Leo í Bartalsstovu koma inní byrjunarliðið fyrir Orra Sigurð Ómarsson, Almarr Ormarsson, Sigurð Egil Lárusson og Andra Adolphsson.
Fyrir leik
Ég hvet fólk til að taka þátt í umræðunni í kringum leikinn með því að nota myllumerkið #fotboltinet Á Twitter. Þitt tíst gæti birst hér í lýsingunni.


Fyrir leik
Lykilmaður Bodo/Glimt
Skráum það á miðjumanninn Patrick Berg. Leiðtogi á miðsvæðinu og svolítið bara potturinn og pannan í þessu liði. Ekki láta ykkur bregða þó hann skipti yfir í stærra félag á næstu árum. Aðeins 23 ára gamall.


Fyrir leik
Lykilmaður Vals
Lykilmaður Íslandsmeistarana... ég ætla að setja þetta á landsliðsmarkvörðinn Hannes Þór. Búinn að vera rosalega góður í sumar og hann þarf svo sannarlega að eiga góðan leik hér í dag ef Valur á að eiga möguleika.


Fyrir leik
Spáir jafntefli
Ég henti spurningu á Ingólf Sigurðsson, fyrrum leikmann Vals, um leikinn í kvöld. Hann ætlar að vera bjartsýnn.

Ég ætla að vera bjartsýnn og spá 1-1 jafntefli. Valur kemst óvænt yfir en gestirnir jafna í lok leiks.


Fyrir leik
Vanmetur ekki Valsmenn
Kjell Knutsen, þjálfari Bodo/Glimt var í viðtali við heimasíðu félagsins þar sem hann líkti Val við Kristiansund, sem situr í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Brynjólfur Willumsson leikur með Kristiansund.

Hann vanmetur ekki Val, hann býst við erfiðum leik.

Fyrir leik
Upphitunarfréttir fyrir leikinn
Maskínan Sæbjörn Þór Steinke ræddi við Alfons Sampsted og Hannes Þór Halldórsson fyrir leikinn. Hann skrifaði upp úr þeim samtölum nokkrar upphitunarfréttir. Tengla fyrir þær fréttir má sjá hér að neðan:

Hannes að mæta sínum gömlu félögum: Stórt og mikilvægt tímabil á mínum ferli

Landsliðsbakverðir mætast - Mun aldrei segja að neinn sé betri en Birkir

Fá ráð frá Alfons hvernig best sé að skora á Hannes og sækja á Birki

Segir frá augnablikinu þegar hann sá að Birkir mun aldrei gefast upp

Fyrir leik
Staðan á liðunum
Staðan heima fyrir er þannig að Valur er á toppi Pepsi Max-deildarinnar með 27 stig eftir 13 leiki. Í Noregi er Bodo/Glimt í öðru sæti með 25 stig eftir 14 leiki, fimm stigum frá toppliði Molde.

Síðasti deildarleikur Bodo endaði með 2-2 jafntefli gegn Sarpsborg. Á meðan tapaði Valur mjög óvænt fyrir botnliði Pepsi Max-deildarinnar, ÍA.
Fyrir leik
Hafa misst mikið
Eins og kom fram hér að neðan, þá rúllaði Bodö/Glimt yfir norsku úrvalsdeildina á síðustu leiktíð. Liðið hefur hins vegar misst mikið frá þessu magnaða tímabili, eins og Alfons kom inn á í samtali við Fótbolta.net.

Leikstílslega séð er þetta mjög svipað. Við missum þrjá fremstu og ætli það hafi ekki farið hátt í 80 mörk úr liðinu við það. Annar af framherjunum sleit svo krossband og síðan misstum við núna um daginn báða kantmennina okkar. Annar sleit krossband og hinn fór úr axlarlið. Þannig það má segja að allur sóknarkrafturinn okkar hvarf á einu bretti nánast. Vörnin og miðjan er mjög svipuð í fyrra og uppspilið frá aftasta manni er í sama klassa og í fyrra. Það er þessi síðasti þriðjungur, við erum í smá brasi þar; miklar róteringar og mikið um meiðsli.

Á meðal þeirra sem Bodo/Glimt hefur misst frá síðasta tímabili er Jens Petter Hauge. Hann fór til AC Milan (sjá á mynd).


Fyrir leik
Landsliðsbakverðir mætast
Alfons er ekki eini hægri bakvörður íslenska landsliðsins sem spilar hér í kvöld. Í liði Vals er nefnilega sjálfur Birkir Már Sævarsson.

Alfons hefur talað um Birki sem fyrirmynd.

Já, hann er það (fyrirmynd) og hefur verið það undanfarin ár fyrir mig. Hann hefur gert frábæra hluti í landsliðinu og er þessi bakvörður sem þú getur alltaf treyst á. Hann er með þannig leikstíl að hann mun alltaf skila sínu og hefur verið að spila á háu stigi. Ég hef horft til hans lengi, löngu áður en ég hitti hann svo í landsliðinu.


Fyrir leik
Alfons Sampsted mætir á Hlíðarenda
Í liði Bodo/Glimt er einn Íslendingur. Það er hægri bakvörðurinn Alfons Sampsted. Hann byrjar væntanlega í hægri bakverðinum í kvöld.


Fyrir leik
Bodo rúllaði yfir norsku deildina í fyrra
Bodo fór á kostum í Noregi í fyrra og rúllaði yfir deildina þar í landi. Liðið endaði með 81 stig úr 30 leikjum, 19 stigum meira en næsta lið. Bodo spilaði líka stórskemmtilegan fótbolta, og skoraði 103 mörk í þessum 30 leikjum sem er magnaður árangur.

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals, er fyrrum leikmaður Bodo. Hann segir árangurinn virkilega flottan.

Ég held að völlurinn sé sá sami en þeir hafa hitt á eitthvað ótrúlegt af því að í grunninn er þetta tiltölulega lítið lið í norsku deildinni; mjög óvænt að þeir hafi tekið deildina og straujað yfir hana í fyrra. Þeir hafa hitt á einhverja frábæra blöndu og eru að gera einhverja ótrúlega hluti þarna. Þetta var ekki alveg í kortunum þegar ég var þarna. Þetta er lið sem hefur verið í neðri hluta, fellur stundum en nær einu og einu góðu tímabili þar sem liðið er í efri hlutanum en aldrei meistarakandídatar. Þannig að þeir hafa verið að gera eitthvað rétt.


Fyrir leik
Bæði lið féllu úr leik í Meistaradeildinni
Þetta eru meistararnir á Íslandi og í Noregi að mætast. Þessi lið féllu úr leik í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar og voru því send beint niður í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Valur tapaði gegn Dinamo Zagreb frá Króatíu í tveimur leikjum á meðan Bodo/Glimt þurfti að sætta sig við tap gegn Legia Varsjá frá Póllandi.


Fyrir leik
Gleðilegan fimmtudaginn, kæru lesendur!

Hér verður bein textalýsing frá leik Vals og Bodo/Glimt í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Leikurinn fer fram á Origo vellinum að Hlíðarenda.


Byrjunarlið:
12. Nikita Haikin (m)
2. Marius Lode ('93)
3. Alfons Sampsted
4. Marius Høibråten ('72)
7. Patrick Berg
10. Hugo Vetlesen ('77)
14. Ulrik Saltnes
17. Sebastian Tounekti ('93)
18. Brede Moe
19. Sondre Brunstad Fet
20. Erik Botheim ('77)

Varamenn:
30. Joshua Smits (m)
11. Axel Lindahl ('77)
16. Morten Konradsen ('72)
21. Vegard Kongsro
22. Vegard Leikvoll Moberg
23. Elias Kristoffersen Hagen ('93)
24. Lasse Selvåg Nordås ('77)
26. Sigurd Kvile ('93)

Liðsstjórn:
Kjetil Knutsen (Þ)

Gul spjöld:
Marius Lode ('38)

Rauð spjöld: