Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 20. júlí 2021 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fá ráð frá Alfons hvernig best sé að skora á Hannes og sækja á Birki
Alfons Sampsted á landsliðsæfingu í mars.
Alfons Sampsted á landsliðsæfingu í mars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Bodö/Glimt í fyrra.
Í leik með Bodö/Glimt í fyrra.
Mynd: Håkon Kjøllmoen
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted er að fara mæta Val í Sambandsdeildinni með liði sínu Bodö/Glimt. Norsku meistararnir mæta til Íslands á morgun og mæta Valsmönnum á Origo vellinum í fyrri leik liðanna á fimmtudag.

Bodö/Glimt tapaði gegn Legia Varsjá í forkeppni Meistaradeildarinnar og fer úr þeirri keppni í Sambandsdeildina líkt og Valur sem tapaði gegn Dinamo Zagreb. Fótbolti.net heyrði í Alfons í dag og spurði hann út í einvígið og tímabilið með Bodö/Glimt.

„Ég er bara heima í Bodö, við mætum til Íslands um hádegið á morgun,” sagði Alfons við Fótbolta.net í dag.

Gaman að keppa við íslenskt lið á íslenskri grundu
Hvernig líst þér á þetta einvígi?

„Þetta er spennandi, fyrir mig er helvíti gaman að keppa við íslenskt lið á íslenskri grundu. Mér finnst það bara geggjað. Ég hugsa að þetta verði ekki Pepsi-deildar fílingur yfir þessu eins og þegar maður hefur mætt Val áður. Þetta verður Evrópufílingur, meira undir og meira lagt í sölurnar.”

Náðu ekki að refsa pólska liðinu
Þið félluð út gegn Legia í forkeppni Meistaradeildarinnar. Var þetta ójafnt einvígi?

„Nei, við stjórnuðum báðum leikjum í rauninni og vorum meira með boltann. Svo erum við bara ekki alveg nógu hættulegir fram á við. Við náðum aldrei að refsa þeim í þeim færum sem við fengum. Þeir sáu að það borgar sig að liggja lágt og beita skyndisóknum. Þeir voru með nokkra leikmenn frammi sem eru á virkilega háu getustigi. Þeir skora t.d. eftir tvær mínútur í fyrri leiknum, taka tvær, þrjár sendingar og svo allt í einu er komin fyrirgjöf og maður mættur á fjær, þetta gerðist svo hratt hjá þeim. Gæðin fram á við hjá þeim voru virkilega góð og það var eiginlega það sem skildi á milli, að við refsuðum ekki og þeir refsuðu.”

Misst mikið úr sóknarlínunni
Eruð þið með mikið breytt lið frá því í fyrra?

„Leikstílslega séð er þetta mjög svipað. Við missum þrjá fremstu og ætli það hafi ekki farið hátt í 80 mörk úr liðinu við það. Annar af framherjunum sleit svo krossband og síðan misstum við núna um daginn báða kantmennina okkar. Annar sleit krossband og hinn fór úr axlarlið. Þannig það má segja að allur sóknarkrafturinn okkar hvarf á einu bretti nánast. Vörnin og miðjan er mjög svipuð í fyrra og uppspilið frá aftasta manni er í sama klassa og í fyrra. Það er þessi síðast þriðjungur, við erum í smá brasi þar, miklar róteringar og mikið um meiðsli.”

Ódýr mörk á sig og ekki nægilega góðir fram á við
Bodö/Glimt er í 2. sæti deildarinnar eftir fjórtán leiki, fimm stigum frá toppliði Molde. Liðið hefur fengið fimm stig úr síðustu fimm leikjum.

Þið voruð eftirminnilega meistarar í fyrra. Hvernig er gengið í deildinni núna, eruð þið á pari miðað við væntingar?

„Frammistöðulega séð höfum við verið að spila vel en höfum verið að leka inn virkilega ódýrum mörkum. Eins og um helgina lekum við inn marki þar sem við klúðrum tveimur hreinsunum inn í eigin markteig, léttum hreinsunum þar sem þeir taka frákastið og skora. Seinna markið er eftir stutta aukaspyrnu á þeirra vallarhelmingi og þeir ná boltanum og bruna upp, það á ekki að gerast. Það hafa komið leikir þar sem við vöðum í dauðafærum í lokin en það dettur ekki. Frammistöðulega séð erum við á flottum stað en síðasti þriðjungurinn hefur ekki verið nægilega góður í undanförnum leikjum og lið hafa refsað okkur.”

Er að fá stærra hlutverk í liðinu - Fleiri stoðsendingar
Þín eigin frammistaða á þessari leiktíð, ertu sáttur með hana?

„Ég er sáttur með hana, er búinn að ná í fleiri stoðsendingar en í fyrra og það er næs. Maður finnur að eftir því sem líður á og það verða fleiri breytingar á liðinu að maður fær stærra og stærra hlutverk inn á vellinum. Það er mjög þægilegt að finna traustið í því, að maður getur verið að taka til sín meira og meira.”

Bætt sig sóknarlega
Finnuru að þú sért að bæta þig með hverjum mánuðinum?

„Já, í raun og veru er Bodö/Glimt klúbbur þar sem er hoft mikið í einstaklingsbætingar, hvernig er hægt að bæta hvern og einn leikmann. Fyrir mig sjálfan finnst mér ég hafa tekið framförum í ár, þá sérstaklega þegar kemur að sóknarleiknum.”

Ekkert konkret
Ég hef eitthvað heyrt af áhuga erlendra félaga á þér, tekur þú eftir því sjálfur?

„Í raun og veru ekkert sem hefur komið inn á borð. Það getur verið að þú vitir aðeins meira en ég. Maður heyrir eitthvað hér og þar en ekkert konkret sem ég get verið að kommenta á.”

Þjálfararnir fá tips
Þú ert að mæta Birki og Hannes, landsliðsfélögunum. Er gaman að mæta þeim?

„Já, að sjálfsögðu. Það er gaman að þekkja til leikmannanna, þjálfararnir koma til manns og eru að fá tips hvernig best sé að skora á Hannes og sækja á Birki. Þetta er aðeins öðruvísi inngangur heldur en inn í aðra leiki. Mér finnst það mjög gaman,” sagði Alfons að lokum.

Alfons á að baki fimm A-landsleiki að baki og var fyrsti keppnisleikurinn gegn Þýskalandi í mars á þessu ári.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner