Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
KA
2
1
Breiðablik
Rodrigo Gomes Mateo '25 1-0
1-1 Viktor Karl Einarsson '59
Hallgrímur Mar Steingrímsson '88 , víti 2-1
11.09.2022  -  14:00
Greifavöllurinn
Besta-deild karla - 21. umferð
Aðstæður: Skýjað og 6° hiti. Rigndi fyrri partinn, en nú er bara grámyglulegt.
Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson
Áhorfendur: 835
Maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
Byrjunarlið:
12. Kristijan Jajalo (m)
3. Dusan Brkovic
4. Rodrigo Gomes Mateo
5. Ívar Örn Árnason
7. Daníel Hafsteinsson ('89)
10. Hallgrímur Mar Steingrímsson
14. Andri Fannar Stefánsson ('58)
22. Hrannar Björn Steingrímsson ('69)
27. Þorri Mar Þórisson
29. Jakob Snær Árnason ('69)
30. Sveinn Margeir Hauksson

Varamenn:
13. Steinþór Már Auðunsson (m)
9. Elfar Árni Aðalsteinsson
11. Ásgeir Sigurgeirsson ('69)
23. Steinþór Freyr Þorsteinsson ('89)
26. Bryan Van Den Bogaert ('69)
28. Gaber Dobrovoljc
77. Bjarni Aðalsteinsson ('58)

Liðsstjórn:
Hallgrímur Jónasson (Þ)
Arnar Grétarsson (Þ)
Halldór Hermann Jónsson
Petar Ivancic
Branislav Radakovic
Steingrímur Örn Eiðsson
Igor Bjarni Kostic

Gul spjöld:
Þorri Mar Þórisson ('66)
Sveinn Margeir Hauksson ('90)

Rauð spjöld:
Leik lokið!
Risastór sigur fyrir KA menn!

KA halda lífi í titilbaráttunni með miklum seiglusigri á toppliðinu. Þessi gat dottið hvoru megin sem var, en Akureyringar verða gulir og glaðir í kvöld!
97. mín
Blikar hrúga öllum fram og Anton ætlar að lúðra boltanum inná teig KA.
95. mín
Aukaspyrna Dags er góð!

Jajalo ver boltann í horn!
94. mín
Blikar fá aukaspyrnu á hættulegum stað! Ísak tekinn niður. Þetta er bæði skotfæri og gott færi til að smella boltanum á pönnuna á einhverjum.
93. mín
ÁSGEIR HEFÐI GETAÐ KLÁRAÐ LEIKINN!!

Sveinn Margeir á geggjaðan sprett inná teig Blika og leggur hann á Ásgeir sem getur valið sér stað í markinu, en skotið er afleitt!
91. mín Gult spjald: Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
Tekur Hallgrím niður.
90. mín
Sjö mínútur í uppbótartíma!
90. mín Gult spjald: Sveinn Margeir Hauksson (KA)
Dýfa!
89. mín
Inn:Steinþór Freyr Þorsteinsson (KA) Út:Daníel Hafsteinsson (KA)
89. mín
Inn:Sölvi Snær Guðbjargarson (Breiðablik) Út:Andri Rafn Yeoman (Breiðablik)
88. mín Mark úr víti!
Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
HALLGRÍMUR ER ÍSKALDUR!!

Setur boltann í mitt markið og Anton á afturendann. 2-1!
87. mín
KA MENN FÁ VÍTI!!!

Rodri og Bjarni spila frábærlega á milli sín, áður en Rodri setur Ásgeir í gegn. Þar tekur hann einfalda gabbhreyfingu á Viktor Örn sem að einfaldlega tæklar hann í gervigrasið.
85. mín
VIKTOR KARL Í DAUÐAFÆRI!!!

Viktor kemst einn gegn Jajalo en Bosníumaðurinn ver frábærlega til að halda stöðunni í 1-1!
85. mín
Fimm mínútur plús uppbót til leiksloka. Fáum við sigurmark?
83. mín
Þá vinnur Hallgrímur boltann og setur hann á Bryan, en Belginn kemur boltanum ekki fyrir og KA fær horn.
82. mín
Það er mun betri taktur í Blikaliðinu þessa stundina og þeir eru líklegri til þess að sækja sigurmark sem stendur.
81. mín
Títtnefndur Ívar sparkar boltanum óvart í boltastrák en er fljótur að knúsa hann.
77. mín
Ég verð ekki eldri. Ívar er mættur aftur til leiks!
75. mín
Gaber Dobrovoljc er að gera sig kláran í að koma inná. Það getur bara ekki verið að Ívar sé reiðubúinn að halda áfram.
74. mín
Ívar Örn þarfnast aðhlynningar eftir rosalegt samstuð við markstöngina inni í teig Blika. Þetta var gríðarlegt högg og það kæmi mér mjög á óvart ef að Ívar klárar þennan leik.
72. mín
Sveinn Margeir í góðu færi!

Frábær sókn KA endar með því að Hallgrímur Mar leggur hann fyrir fætur Sveins Margeirs en sýndist Viktor Örn blokka skot hans í dauðafæri!
69. mín
Inn:Bryan Van Den Bogaert (KA) Út:Hrannar Björn Steingrímsson (KA)
69. mín
Inn:Ásgeir Sigurgeirsson (KA) Út:Jakob Snær Árnason (KA)
67. mín
Hallgrímur Mar með góðan skalla rétt framhjá!

Bræðrasamstarf! Hrannar á fína fyrirgjöf á Hallgrím sem að er hársbreidd frá því að koma KA yfir!
66. mín Gult spjald: Þorri Mar Þórisson (KA)
Rífur Jason niður. Hárrétt.
62. mín
Í sókninni á undan jöfnunarmarkinu hafði Hallgrímur Mar komist í ágætis færi en Anton varði vel í marki Blika. Stutt á milli í þessu!
59. mín MARK!
Viktor Karl Einarsson (Breiðablik)
Stoðsending: Jason Daði Svanþórsson
BLIKAR JAFNA!!!

Jason Daði setur boltann á Viktor Karl sem að veður inn á teig KA. Þorri Mar mætir honum en hann missir jafnvægið sem að gerir það að verkum að Viktor getur valið sér skot/sendingu.

Hann þrumar á nærstöngina og Jajalo kemur engum vörnum við. Jajalo virtist veðja á að Viktor myndi setja boltann fyrir markið. 1-1!
58. mín
Inn:Bjarni Aðalsteinsson (KA) Út:Andri Fannar Stefánsson (KA)
Andri verið flottur og afar vinnusamur.
56. mín
Aukaspyrna Sveins er hættuleg og skapar smá usla en Blikar koma boltanum frá.
55. mín
Þorri á góðan sprett upp völlinn og klippir inn á hægri eins og bróðir sinn gerir svo gjarnan. Þar tekur Viktor Karl hann niður og Vilhjálmur sleppir pjúra spjaldi.
53. mín
Jason Daði vinnur horn eftir baráttu við Þorra.

Ekkert kemur úr horninu, en Blikar halda boltanum og pressunni á KA.
50. mín
KA menn vilja Ísak útaf!

Jajalo hreinsar og Ísak eiginlega hleypur bara á löpp markmannsins. Sýndist Jajalo skilja löppina vísvitandi eftir og gera eins mikið úr þessu og hann gat. Hefði verið helvíti hart að henda öðru gulu á Ísak fyrir þetta.
48. mín
Vilhjálmur stoppar leikinn við litla hrifningu Blika sem voru nýbúnir að vinna boltann, en hinu megin á vellinum virtist Hrannar Björn kveinka sér vegna höfuðmeiðsla.
46. mín
Seinni hálfleikur hafinn

Áfram með smjörið!
45. mín
Hálfleikur
Fyrri hálfleik lokið

Fjörugur fyrri hálfleikur að baki. Blikarnir talsvert meira með boltann og fengið sína séns, en það eru hellings tækifæri fyrir KA menn ef að þeir eru nægilega svalir í skyndisóknum. Þeir leið 1-0 í hálfleik. Mjög áhugaverður síðari hálfleikur framundan!
45. mín
Einni mínútu bætt við.
43. mín
Færi á báða bóga!

Hallgrímur Mar kemst inn í sendingu Antons Ara en á skot beint á Anton í markinu. Blikarnir fá svo virkilega gott færi hinu megin, þegar að Ísak Snær spænir sig upp völlinn og leggur boltann á Kristinn Steindórsson, en skot Kristins fer framhjá fjærstönginni!
41. mín
Stutt í að leikmenn gangi til búningsklefa. Blikum hefur gengið illa að opna KA liðið, sérstaklega eftir mark Rodri. Það getur þó breyst á sekúndubroti.
40. mín
Jakob nálægt því að klafsa sig í gegnum teig Blika, en jafnvægið var alveg farið undir restina og Blikar vinna boltann.
37. mín
Jakob Snær dæmdur brotlegur fyrir tæklingu á Gísla. Gísli liggur aðeins eftir, en virðist í fínu lagi. Áfram gakk.
35. mín
KA menn í nokkuð langri sókn sem að endar með því að Sveinn Margeir fær gott skotfæri fyrir utan teig Blika. Anton Ari ver vel í horn!
32. mín
Blikar spila frábærlega út úr pressu KA, en Jason Daði er flaggaður rangstæður þegar hann er settur í gegn. Ívar Örn komst hvort eð er inní sendinguna.
29. mín
Daníel Hafsteinsson var aleinn í hlaupi inn fyrir vörn Blika, en hvorki Andri Fannar né Sveinn Margeir kusu að nýta sénsinn. Mjög furðulegt. Hann hefði verið einn í gegn!
25. mín MARK!
Rodrigo Gomes Mateo (KA)
Stoðsending: Sveinn Margeir Hauksson
RODRI KEMUR KA YFIR!!!

Sveinn Margeir á þéttingsfastan bolta inná teig Blikanna og þar er Rodri gjörsamlega aleinn og skallar boltann framhjá Antoni Ara í marki Blika. 1-0!
24. mín
Daníel fær aukaspyrnu úti á hægri kantinum. Virtist afskaplega lítið.
21. mín
Þeir gerðu það ekki.

Blikar reyndu að sækja hratt en KA menn voru fljótir að koma sér fyrir aftan boltann.
20. mín
KA fær hornspyrnu. Jakob virtist ýta við Damir og varnarmaðurinn er brjálaður, en KA freistar þess nú að nýta fast leikatriði.
18. mín
Ekkert kemur úr horninu og Blikar hefja sókn að nýju.
17. mín
KA menn fá sína fyrstu hornspyrnu. Skot Hrannars Björns í varnarmann og aftur fyrir.
15. mín Gult spjald: Ísak Snær Þorvaldsson (Breiðablik)
Seinn í Dusan þegar Serbinn skallar boltann í burtu. Rétt hjá Vilhjálmi.
13. mín
Dagur Dan á glimrandi sprett með Daníel Hafsteinsson á hælunum. Dagur leggur hann á Ísak Snæ sem að á skot í Rodrigo og aftur fyrir. Enn eitt hornið.
12. mín
Flestar sóknir Blika fara upp hægri kantinn. Þar finnur Jason Daði svæði fyrir aftan KA liðið trekk í trekk, en enn einu sinni bjarga KA menn í horn. Uppúr horninu skallar Höskuldur Gunnlaugsson yfir mark heimamanna.
10. mín
Og enn fá Blikar horn!
8. mín
Jason Daði kemst upp að endamörkum inná teig KA og setur boltann fyrir en Jajalo ver boltann aftur fyrir. Annað horn Blika.
7. mín
Ívar Örn kveinkar sér. Sá ekki hvað olli því, en hann er allavega tilbúinn til þess að halda áfram.
6. mín
KA menn koma sér inn í teig Blika, en Andri Fannar er dæmdur brotlegur þegar hann vinnur boltann eftir smá baráttu. Ekki sannfærður um að þetta hafi verið rétt.
2. mín
Blikar pressa hátt til að byrja með. Þeir fá hornspyrnu eftir ágætis samspil fyrir framan teig KA manna.
1. mín
Leikur hafinn
KA menn koma þessu af stað!
Fyrir leik
Grár himinn - gulir og bláir gegn grænum og hvítum. Allt að fara í gang á Greifavellinum.
Fyrir leik
Blikafáninn sést flöktandi í stúkunni á Greifavellinum. Og sömuleiðis er fáni með mynd af Arnari Grétarssyni, þjálfara KA. Galvaskur hópur mættur úr Kópavogi. Ekkert nema gaman að því!

Elvar Geir Magnússon
Fyrir leik
Dómarinn

Dómari leiksins er Vilhjálmur Alvar Þórarinsson. Honum til aðstoðar eru Gylfi Már Sigurðsson og Birkir Sigurðarson. Þá er Vilhelm Adolfsson eftirlitsmaður og varadómari er Þorvaldur Árnason.


Konsertmeister í dag.
Fyrir leik
Einn í banni

Oliver Sigurjónsson tekur út leikbann hjá Blikum, vegna uppsafnaðra spjalda. Aðrir eru klárir í slaginn.


Miðjumaðurinn öflugi er í leikbanni í dag.
Fyrir leik
Markakóngurinn til Belgíu

Stuttu fyrir lok félagsskiptagluggans í Belgíu fóru að berast fréttir af því að Beerschot VA, lið í næstefstu deild í Belgíu, væri á eftir Nökkva Þey Þórissyni, sóknarmanni KA og markahæsta leikmanni deildarinnar. Þær sögusagnir reyndust á rökum reistar og staðfesti KA þann 5. september að Nökkvi væri á leið í læknisskoðun hjá belgíska liðinu.

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, sagði ákvörðunina að selja Nökkva erfiða - en samt ekki. ,,Við höfum sagt við alla þessa stráka sem hafa komið til okkar; Nökkvi, Sveinn, Þorri, Bjarni og Danni að við séum með það sem markmið að reyna að hjálpa þessum strákum að komast út. Þegar það kemur tilboð sem er gott fyrir klúbbinn og mjög gott fyrir leikmanninn, þá verðum við að þora að standa við það og standa við þau orð sem að við höfum gefið leikmanninum þegar að hann kom upphaflega. Þó að þetta sé vond tímasetning fyrir okkur þá er þetta þannig tækifæri fyrir Nökkva að við viljum ekki standa í vegi fyrir honum.''

Það var svo staðfest degi síðar að Nökkvi hefði skrifað undir þriggja ára samning við Beerschot VA, með möguleika á eins árs framlengingu. Hann spilaði svo sinn fyrsta leik fyrir félagið þremur dögum síðar, en Beerschot mátti sætta sig við 2-0 tap gegn Lommel.


Kominn til Belgíu!
Fyrir leik
Gengi liðanna

KA: WWWLD
Breiðablik: LDWWW

Liðin hafa verið á virkilega fínu skriði í deildinni að undanförnu, en bæði lið þurftu að sætta sig töp í undanúrslitum Mjólkurbikarsins um daginn. Blikar voru kýldir kaldir á fyrstu 20 mínútunum gegn sprækum Víkingum, en KA menn fengu á sig sigurmark annan leikinn í röð þegar að FH-ingar komu, sáu og sigruðu í Kaplakrika.

KA menn náðu ævintýralegu 2-2 jafntefli gegn Fram í síðasta leik. Framarar höfðu náð 2-0 forystu um miðbik síðari hálfleiks og virtust ætla að sigla sigrinum í höfn. Miðvörðurinn Gaber Dobrovoljc minnkaði muninn í 2-1 á 91. mínútu. Héldu þá flestir að um sárabótarmark væri að ræða, en það héldu norðanmenn nú ekki. Þremur mínútum síðar jafnaði Jakob Snær Árnason með frábæru skoti úr þröngu færi og KA menn náðu á ótrúlegan máta að taka eitthvað með sér til baka úr Úlfarsárdalnum.

Í sömu umferð unnu Blikar gríðarlega sterkan 1-0 sigur á Valsmönnum. Má segja að meistarabragur hafi verið á Blikaliðinu, þar sem að þeir höfðu þar á undan mátt þola þungt tap gegn Víkingum en í stað þess að brotna, þá stjórnuðu þeir leiknum og áttu sigurinn fyllilega skilinn. Það var títtnefndur Ísak Snær Þorvaldsson sem að skoraði sigurmark Breiðabliks í leiknum eftir stoðsendingu Jasons Daða Svanþórssonar.


Jason Daði lagði upp sigurmark Blika í síðasta leik.
Fyrir leik
Fyrri leikur liðanna: Breiðablik 4-1 KA

Blikar unnu öruggan 4-1 sigur í fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli þar sem að Ísak Snær Þorvaldsson fór á kostum. Staðan var 1-0 í hálfleik þar sem að Ísak Snær hafði komið Blikum yfir um miðjan fyrri hálfleik. KA menn þrýstu talsvert á heimamenn í þeim seinni og Oleksii Bykov og Ásgeir Sigurgeirsson komust nálægt því að jafna metin áður en Blikar refsuðu þeim grimmilega.

Jason Daði Svanþórsson tvöfaldaði forystuna eftir stoðsendingu frá Ísak. Hinn sjóðheiti Ísak var svo aftur á ferðinni 5 mínútum seinna þegar hann gjörsamlega hakkaði KA vörnina í sig áður en hann lagði boltann fyrir Viktor Karl Einarsson sem að hamraði boltann undir Steinþór Má Auðunsson í marki KA. Heimamenn negldu svo síðasta naglann í kistu KA manna 10 mínútum fyrir leikslok. Þar skoraði Jason Daði sitt annað mark eftir góðan undirbúning Davíðs Ingvarssonar.


KA menn áttu í bölvuðu basli með Ísak Snæ í fyrri leik liðanna í sumar.
Fyrir leik
Staða liðanna

Í dag mætast liðin í 1. og 3. sæti deildarinnar. Blikar tróna á toppi deildarinnar með 48 stig eftir 20 umferðir, en heimamenn í KA hafa nælt í 37 stig og hafa ekki alveg skráð sig úr baráttunni um titilinn, þar sem að annað mót er í vændum eftir að 22 leikir hafa verið spilaðir. En staða Blika er afar sterk og sigur í dag myndi fara langleiðina með það að gera út um vonir KA manna.

Á milli liðanna er svo Víkingur R. í öðru sæti með 39 stig. Þeir eiga útileik í Keflavík á sama tíma í dag, kl. 14:00.
Fyrir leik
Góðan daginn! Hér mun fara fram textalýsing á stórleik KA og Breiðabliks í Bestu-deild karla.


Mikkel Qvist og Höskuldur Þórhallsson berjast um boltann. Þeir eru í dag liðsfélagar hjá grænklæddum.
Byrjunarlið:
1. Anton Ari Einarsson (m)
4. Damir Muminovic
7. Höskuldur Gunnlaugsson (f)
8. Viktor Karl Einarsson
10. Kristinn Steindórsson
11. Gísli Eyjólfsson
14. Jason Daði Svanþórsson
16. Dagur Dan Þórhallsson
21. Viktor Örn Margeirsson
22. Ísak Snær Þorvaldsson
30. Andri Rafn Yeoman ('89)

Varamenn:
12. Brynjar Atli Bragason (m)
2. Mikkel Qvist
7. Viktor Andri Pétursson
13. Anton Logi Lúðvíksson
18. Davíð Ingvarsson
19. Sölvi Snær Guðbjargarson ('89)
27. Viktor Elmar Gautason

Liðsstjórn:
Óskar Hrafn Þorvaldsson (Þ)
Halldór Árnason (Þ)
Ólafur Pétursson
Marinó Önundarson
Aron Már Björnsson
Særún Jónsdóttir

Gul spjöld:
Ísak Snær Þorvaldsson ('15)
Höskuldur Gunnlaugsson ('91)

Rauð spjöld: