mán 20. október 2014 15:00
Halldór Smári Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Lækur gleðitára rennur um Fossvogsdal
Halldór Smári Sigurðsson
Halldór Smári Sigurðsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Að lokum læt ég fylgja með mynd af liðsstjóranum okkar, Einari, sem tekin var í eftirpartýi um daginn.
Að lokum læt ég fylgja með mynd af liðsstjóranum okkar, Einari, sem tekin var í eftirpartýi um daginn.
Mynd: Úr einkasafni
Seinast þegar ég gerði pistil höfðum við nýlega skítfallið úr efstu deild. Ekki bætti úr skák að fyrir tímabilið hafði minn maður Björn Einarsson, þá formaður knattspyrnudeildar, gefið það út að við yrðum Íslandsmeistarar árið 2014. Við fórum því með skottið á milli lappana niður í 1. deild og kannski var það bara gott á okkur. Það tók okkur tvö tímabil að girða upp um okkur buxurnar. Það gekk ekki nógu vel að hysja þær upp árið 2012 en í september 2013 voru buxurnar komnar á réttan stað, við vorum mættir aftur í deild þeirra bestu og nú átti að ríghalda í buxnastrenginn.

Undirbúningstímabilið var ágætt. Við gerðum reyndar ekki nokkurn skapaðan hlut í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarinn er ekkert til að tala um en það var gaman að vera í þessum hóp og það gerði biðina eftir sumrinu miklu betri. Farið var í æfingaferð til Tyrklands sem heppnaðist vel. Við vorum á flottu hóteli, spiluðum á fínum völlum, það var gott veður og félagsskapurinn var frábær. Stundum þegar ég er lítill í mér þá skoða ég myndir frá ferðinni og staldra yfirleitt við mynd af Tómasi Guðmundssyni allsberum með sólgleraugu að skófla í sig djúpum en þannig var hann meira og minna alla ferðina. Að öðru leyti var æfingaferðin nokkuð róleg og ekki mikið markvert sem gerðist. Busavígslan var þó skemmtileg en þar fengum við m.a. að sjá hreint út sagt ótrúlegt atriði frá Kristófer Karli Jenssyni markverði sem ég get því miður ekki tjáð mig meira um. Þá fékk ónefndur leikmaður sms frá kærustu sinni þar sem hún sagðist elska hann. Aðspurður um hvort hann ætlaði ekkert að senda til baka svaraði hann: „Ertu eitthvað bilaður, veistu hvað það er dýrt að senda sms heim?“

Þegar horft er til þess að Víkingur R. hefur ekki verið í meira en tvö tímabil í röð í efstu deild síðan við féllum árið 1993 hefði ekki verið óskynsamlegt að setja okkur einungis það markmið að halda okkur í deildinni. Það er hins vegar þreyttara en að sérmerkja peysurnar sínar fyrir Þjóðhátíð. Sumarið byrjaði þó ekki á neinni flugeldasýningu en við drullutöpuðum fyrsta leik 0-3 á móti Fjölni. Ég ætla ekki að ljúga, ég hugsaði með mér að þetta ætti eftir að verða langt sumar. Við komum hins vegar sterkir til baka og eftir níu leiki vorum við komnir með 16 stig, einu stigi meira en við fengum allt sumarið 2011. Eftir smá hikst í lok móts tryggðum við okkur 4. sætið í deildinni með fínu 0-2 tapi í Keflavík. Leikurinn skipti engu máli þar sem Valur og Fylkir unnu ekki sína leiki og því bíður Evrópa okkar næsta sumar (S/O á Breiðablik og Fram). Það er líka algjör óþarfi að gera meira en maður þarf. Halda maraþonhlauparar áfram að hlaupa eftir að þeir koma í mark?

Ásamt góðum árangri í deildinni fórum við í lúmskt ævintýri í bikarnum. Við unnum Grindavík, Fylki og BÍ/Bolungarvík áður en við töpuðum í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum á móti Keflavík. Það var eftir leikinn við BÍ/Bolungarvík sem Ívar Örn Jónsson fékk viðurnefnið „Aukaspyrnu-Ívar“ enda lúðraði hann tveimur aukaspyrnum í samskeytin í þeim leik. Það viðurnefni fer mikið í taugarnar á mér þar sem ég hef reynt að láta „Ív-Online“ festast við hann í að verða þrjú ár en það er ekki að takast.

Eitt af stóru málunum í sumar var leikur okkar við Val í seinni umferðinni en þar vildu einhverjir meina að reynt hafi verið að meiða Aron Elís Þrándarson og sparka hann út úr leiknum. Ég skildi ekki öll þessi læti og tengdi vel við Valsara en mig langaði oft sjálfum að sparka í Aron á æfingum. Maður getur ekkert að því gert hann er bara svo óþolandi góður í fótbolta.

Leikmannahópurinn varð ekki fyrir jafn miklum breytingum á milli ára og oft áður sem var jákvætt. Við fengum tvo skota, Alan Lowing, sem fótboltaáhugamenn þekkja og Harry Monaghan. Harry var skírður Henry en honum finnst það svo viðbjóðslegt nafn að hann vill láta kalla sig Harry. Ætli það sé ekki svipað og ég myndi vilja láta kalla mig Halldór en héti í rauninni Hallbjörn, sem væri alls ekki nett. Það er alltaf athyglisvert þegar einni manneskju tekst að eyðileggja heilt nafn fyrir öðrum.

Umboðsmaðurinn hans Harry er greinilega með sterk sambönd en áður en hann kom á reynslu til okkar hafði hann verið á reynslu hjá liði í Kyrgyzstan.
Fyrir áhugasama er landið í Asíu og er frábærlega staðsett með landamæri að Tajikistan, Kazakhstan og Úzbekistan.

Við fengum þó ekki bara tvo skota fyrir tímabilið heldur fengum við líka Todor Hristov frá Búlgaríu en hann er mikill áhugamaður um Ásdísi Rán. Þá komu Sveinbjörn Jónasson og Sigurður Hrannar Björnsson og liðið varð þá ekki aðeins betra fótboltalega séð heldur einnig útlitslega séð en þeir eru fáránlega myndarlegir. Þá styrktist liðið enn meira með komu Darra Steins Konráðssonar frá Stjörnunni og Ómars Friðrikssonar frá KA sem fengu seinna viðurnefnin „Darraðadansinn“ og „Ómskoðunartækið“. Um mitt mót bættust svo við tveir búlgarar, Ilyan Garov og Ventseslav Ivanov. Michael Abnett kom frá BÍ/Bolungarvík og við fengum Pál Olgeir Þorsteinsson á láni frá Breiðablik annað árið í röð. Allt toppmenn sem áttu eftir að hjálpa okkur mikið í þeim leikjum sem eftir voru.

Þeir menn sem bættust við liðið, ásamt þeim sem fyrir voru lögðu allir sitt á vogaskálarnar og stóðu sig vel. Til að taka nokkra út þá voru Aron Elís og Igor Taskovic í ruglinu eins og allir vita en Alan Lowing var einnig frábær þó að minna hafi farið fyrir hrósi til hans. Kristinn Jóhannes Magnússon er alltaf jafn mikilvægur fyrir liðið og þá spilaði Kjartan Dige Baldursson eins og Annie Mist hafi hótað að berja hann ef hann stæði sig illa. Ekki má gleyma þjálfurum liðsins, Ólafi Þórðarsyni og Milos Milojevic, sem gerðu frábæra hluti með liðið og eiga mikið hrós skilið.

Nú þegar Íslandsmótið 2014 er liðið þá erum við kannski ekki Íslandsmeistarar eins og Bjössi formaður sagði en við vorum ekkert langt frá því. Jú ókei, við vorum alveg nokkuð langt frá því en við erum allavega nær því en við vorum eftir Íslandsmótið 2011. Víkingar geta verið stoltir af sumrinu en þetta er besti árangur Víkings á Íslandsmótinu síðan við unnum það árið 1991, pælum aðeins í því. Við horfum með tilhlökkun til næsta árs og stefnan er að sjálfsögðu sett á að gera enn betur. Svo við höldum áfram með buxna-samlíkingar má segja að við höfum ekki aðeins haldið buxunum uppi í ár heldur komum við vel brókaðir undan sumri.

Fyrir hönd okkar strákanna í meistaraflokki Víkings vil ég þakka stuðningsmönnum, liðsstjórn, stjórnarmönnum, þjálfurum, Berserkjum og öðrum sem koma að knattspyrnunni í Fossvogi, kærlega fyrir sumarið.

Að lokum læt ég fylgja með mynd af liðsstjóranum okkar, Einari, sem tekin var í eftirpartýi um daginn.

Áfram Víkingur,
Halldór Smári Sigurðsson

Sjá einnig:
Evrópski draumurinn - Valur
Heilsteypti Árbærinn- Fylkir
Jafnteflasumarið - Breiðablik
Ísöld - Keflavík
Brekkan - Fjölnir
Vonbrigði - ÍBV
Fall er fararheill - Fram
Skítarákir upp eftir allri dollunni - Þór
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner