Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 17. október 2014 14:00
Gunnar Gunnarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Evrópski Draumurinn
Gunnar Gunnarsson
Gunnar Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar ég var beðinn um að skrifa þennan pistil blasti strax við mér eitt vandamál. Eftir að hafa valið á milli Swahili, sænsku, dönsku, íslensku og ensku komst ég loks að þeirri niðurstöðu að þessi pistill yrði skrifaður á íslensku, en það er bara eitthvað sem helmingur Valsliðsins verður að fyrirgefa mér. Gríðarlegar róteringar í leikmannamálum settu mikinn svip á tímabil liðsins en samkvæmt mínum útreikningum yfirgáfu 8 leikmenn, sem byrjuðu tímabilið, liðið í sumar. Þetta var þó ekki alslæmt þar sem 5 aðrir fagmenn voru fengnir til þess að fylla skarð þeirra sem fóru.

Í lok mars var haldið í dýrustu æfingaferð sem farið hefur verið í, síðan Þórður Steinar rakaði sig seinast. Farið var til Florida og æft við toppaðstöðu í toppveðri. Á milli æfinga bauð IMG akademían upp á veitingar sem voru algjörlega til fyrirmyndar. Okkur var úthlutað tveimur frídögum en flestir nýttu þá í verslunarferðir eða vatnagarða. Dóri liðsstjóri eyddi þessum dögum þó í sólinni án sólarvarnar með vægast sagt hörmulegum afleiðingum. Við hlið hans svaf Siggi Lár sem slapp við allan bruna, enda ónæmur fyrir útfjólublárri geislun. Þegar tveir dagar voru eftir af ferðinni spiluðum við æfingaleik á móti Tampa Bay Rowdies sem leikur í næstefstu deild í Bandaríkjunum. Sá leikur var flautaður af eftir að Haukur Páll henti sér í eina „fullorðins” tæklingu á 90. mínútu. Út brutust hópslagsmál og þá kom sér vel að hafa menn eins og Kolbein Kárason innanborðs. Fyrir áhugasama þá endaði þessi leikur með jafntefli 1-1.

Þegar við komum heim eftir vel heppnaða æfingaferð var hópurinn orðinn vel þjappaður saman fyrir mót. Stefnan var, eins og fólk kannski almennt veit, sett á Evrópu og menn almennt bjartsýnir. Við fengum óskabyrjun á mótinu þegar við unnum Baldur Sig og félaga í KR með óvæntri hjálp frá sólinni. Úrslit næstu leikja voru þó sveiflukennd, en næsti sigur liðsins kom í fjórðu umferð á móti Fram í miklum markaleik. Þessi leikur er mér þó minnisstæður fyrir þær sakir að í honum kom án vafa fallegasta liðsmark sumarsins. Þar batt Bjarni Ólafur endahnútinn á nánast fullkomna skyndisókn með vippu að hætti Messi.

Sumarið einkenndist mikið af því að við komum fólki á óvart með því að vera aftur komnir í baráttuna um Evrópusæti. Eftir tvo sigurleiki í röð á móti Fjölni og Keflavík vorum við farnir að gera okkur nokkuð líklega í þessari baráttu. Í þessum leikjum fór Daði Bergsson mikinn og ógnaði sífellt með hraða sínum og krafti. Það var því gífurleg blóðtaka fyrir liðið að hann skyldi vera frá út tímabilið vegna gæsahrolls. Þegar uppi var staðið var Valur aðeins tveimur stigum frá markmiðum sínum í sumar og má segja að við höfum verið sjálfum okkur verstir á köflum. Samt sem áður er heill hellingur sem við getum lært af þessu sumri og notað til að koma tvíefldir til baka í næsta mót. Ég vil því nota tækifærið og enda þennan pistil á orðum Arnars Sveins sem sagði svo eftirminnilega: “C’mon you reds!”.

Gunnar Gunnarsson

Sjá einnig:
Heilsteypti Árbærinn- Fylkir
Jafnteflasumarið - Breiðablik
Ísöld - Keflavík
Brekkan - Fjölnir
Vonbrigði - ÍBV
Fall er fararheill - Fram
Skítarákir upp eftir allri dollunni - Þór
Athugasemdir
banner
banner