Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 08. október 2014 14:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fall er fararheill
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að öðrum pistlinum en það eru Framarar sem gera upp sumarið. Nokkrir leikmenn skrifuðu pistilinn í sameiningu en Ósvald Jarl Traustason fjölmiðlafulltrúi liðsins skilaði honum inn.



Menn eru að detta inn einn af öðrum. Það er þögn. Hæ eða sælir er fleygt í blindni á mannskapinn. Flestir eru með augun límd við gólfið á meðan þeir klæða sig í nútímavæddan æfingaklæðnað frá ítalska sportvörufyrirtækinu Errea.

Nei. Við erum ekki á úrtaksæfingu U17 ára landsliðsins – Meistaraflokkur karla FRAM er að undirbúa sig fyrir fyrstu æfingu liðsins keppnistímabilið 2014.

Þetta ástand breyttist þó fljótt til betri vegar og menn orðnir fínir félagar. Sömuleiðis var góður gangur á æfingunum sem var fagmannlega stýrt af BG#4 og hans hægri hönd Úlfi Blandon. Fljótlega fór að sjást árangur á vellinum og urðum við Framarar Reykjavíkurmeistarar 2014. Frekari afrek voru ekki við unnin þetta árið. Enda er liðið með marga unga og graða leikmenn innanborðs sem eiga það til að vera of fljótir að fá það.

Sjálfsskipaður fjölmiðlafulltrúi FRAM, Ósvald Jarl Traustason, hélt fjölmiðlum landsins uppteknum í byrjun sumars. Dramatískar Twitter færslur og óteljandi viðtöl gerðu Ósa að eftirlæti fjölmiðla sem sóttu grimmt í arftaka Ara Freys í A-landsliðinu.

Eins og mörg lið þá var heimaleikjavesen á okkur í byrjun og spiluðum við flesta leiki í byrjun móts á gervigrasinu í Laugardal. Það er auðvitað ekki óskastaða en reyndar virtust Arnþór Ari og Aron Bjarnason elska að kíkja á skrifstofuna til Kaldal í smá pepp fyrir leiki #lifi.

Í byrjun sumars fengum við skemmtilegan liðsstyrk í formi efnilegs Japana að nafni Björgólfur Takefusa, hann hvarf hins vegar sporlaust um mitt sumar en á sama tíma opnaði Tokyo Sushi í Kópavogi. Við getum ekkert fullyrt um hvort einhver tengsl séu þarna á milli en útilokum ekkert.

Þó gengi liðsins hafi ekki verið til að hrópa húrra fyrir þá voru þó nokkrir jákvæðir punktar. Við spiluðum í Europa League og duttum þar út naumlega á móti Nomme Kalju sem er svar Eistlands við Stjörnunni en þeir höfðu gaman af því að fagna mörkum á athyglisverðan máta - Sjá tengil. Margir leikmenn liðsins öðluðust mikilvæga reynslu í efstu deild sem á eftir að nýtast í komandi framtíð. Bjarni stýrði liði í efstu deild í fyrsta skipti sem þjálfari og lærði eflaust heilmikið af því. Allir leikmenn liðsins höfðu og hafa óbilandi trú á Bjarna sem þjálfara og verður það ekki dregið í efa að maður með hans þekkingu á fótbolta muni verða einn besti þjálfari landsins innan örfárra ára.

Heilt yfir verður að viðurkennast að tímabilið olli Frömurum nær og fjær nokkrum vonbrigðum. Það breytir því hins vegar ekki að við Framarar lítum jákvæðum augum til framtíðar og tökum næsta verkefni af æðruleysi og setjum stefnuna á gott tímabil í 1. deild að ári. Stefna félagsins er spennandi og mun bera ávöxt fyrr en síðar. Ef uppbygging FRAM í Grafarholtinu heldur áfram koma fleiri ungir upprennandi leikmenn upp úr unglingastarfinu sem mun styrkja bæði meistaraflokk og innviði félagsins til lengri tíma. Næsta skref félagsins ætti klárlega að vera í átt að betri aðstöðu í Grafarholtinu og nýjum heimavelli félagsins þar sem okkar bestu Geiramenn getu blómstrað.

Ósvald Jarl Traustason, fjölmiðlafulltrúi
Athugasemdir
banner
banner