Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 14. júní 2018 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í Inkasso: Íslenskir leikmenn eru mjög sterkir
Leikmaður 7. umferðar - Tiago Fernandes (Fram)
Tiago í leik með Fram.
Tiago í leik með Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tiago ásamt Pedro Hipolito, þjálfara Fram.
Tiago ásamt Pedro Hipolito, þjálfara Fram.
Mynd: Fram
„Við spiluðum mjög góðan leik, við spiluðum góðan fótbolta og fengum þrjú stig en að því erum við að vinna að því á hverjum degi. Ég átti góðan leik, já, en með hjálp liðsfélaga minna," sagði hinn portúgalski Tiago Fernandes hógvær er Fótbolti.net heyrði í honum orðið í hádeginu.

Tiago er leikmaður sjöundu umferðar Inkasso-deildarinnar en hann fór fyrir Frömurum sem sigruðu Hauka á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöld. Tiago skoraði tvö mörk í leiknum.

Búinn að koma sér vel fyrir
Tiago spilar á miðjunni en hann skrifaði undir tveggja ára samning við Fram í febrúar.

Tiago er uppalinn í knattspyrnuskóla Sporting í Lissabon en hann lék í þrjú tímabil í portúgölsku 3. deildinni áður en hann kom til Fram. Þar lék hann 82 leiki, skoraði 4 mörk og skilaði 35 stoðsendingum.

Það getur verið erfitt að koma frá landi eins og Portúgal til Íslands en Tiago kveðst mjög ánægður. „Ég er mjög ánægður að vera hér, ég er búinn að koma mér vel fyrir, þetta hefur verið góð reynsla hingað til," segir Tiago, sem er aðeins 23 ára.

„Fólkið í Fram og liðsfélagarnir hafa tekið vel á móti mér og þegar ég þarf einhverja hjálp þá er alltaf einhver til staðar. Það hefur hjálpað mér mjög mikið."

„Ég vildi koma til Íslands til að fá tækifæri til að sýna hvað ég get í fótbolta. Veðrið á Ísland er allt öðruvísi en í Portúgal, hér er meiri kuldi, en það er ekki bara veðrið sem er öðruvísi. Fótboltinn er líka öðruvísi."

„Fótboltinn á Íslandi er beinskeyttur og hann byggist meira á líkamlegum styrk. Íslenskir leikmenn eru mjög sterkir," en aðspurður segist Tiago hrifnari af því að spila boltanum á jörðinni og því sé hann ánægður að vera hjá Fram.

Ætlar að reyna að verða betri en þegar hann kom
Í leiknum gegn Haukum, sem Fram vann 3-1, skoraði Tiago tvö mörk og var virkilega öflugur. Hann er mjög hógvær er hann spurður út í leikinn og þakkar liðsfélögunum fyrir mörkin tvö sem hann skoraði á Laugardalsvelli. Fyrra markið var stórglæsilegt.

Fram er með 11 stig eftir sigurinn, fjórum stigum á eftir liðinu í öðru sæti, HK. Getur Fram barist um að fara upp?

„Já, það er möguleiki. En við verðum að taka leik fyrir leik og reyna að vinna eins marga leiki og mögulegt er."

Það vakti mikla athygli þegar Pedro Hipolito kom hingað til lands og tók við Fram. Tiago er mjög hrifinn af landa sínum. „Ég kann vel við það hvernig Pedro vinnur, hvernig hann hvetur okkur áfram, sjálfstraustið sem hann gefur okkur og hvernig hann vill að við spilum fótbolta. Hann vill að við spilum góðan fótbolta og það er gott fyrir þróun okkar sem liðs."

„Hann var mjög mikilvægur fyrir mig og er það enn vegna þess að ég er ekki sérstakur í ensku. Hann hefur líka hjálpað mér mikið að bæta mig sem fótboltamaður."

Að lokum segir Tiago: „Markmið mitt er að verða betri en þegar ég kom. Ég vil hjálpa Fram að ná markmiðum sínum og vonandi get ég skorað fleiri mörk fyrir félagið."

Fyrri leikmenn umferðarinnar
6. umferð - Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.)
5. umferð - Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfoss)
4. umferð - Alvaro Montejo Calleja (Þór)
3. umferð - Steinar Þorsteinsson (ÍA)
2. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner