Guðmundur Magnússon (Fram)
„Leikurinn var flottur af okkar hálfu. Fyrri hálfleikurinn var góður þar sem við náðum að skora tvö mjög góð mörk," segir Guðmundur Magnússon, framherji Fram, en hann er leikmaður 2. umferðar í Inkasso deildinni.
Guðmundur skoraði tvívegis í 3-1 útisigri Fram gegn Þrótti á föstudagskvöld.
„Í byrjun seinni hálfleik fannst mér við falla of mikið til baka og hleypa þeim inn í leikinn, það var hins vegar viðbúið að Þróttararnir kæmu ákveðnir út í seinni hálfleikinn. Um leið og við náum inn þriðja markinu þá fannst mér leikurinn fjara hægt og rólega út þangað til að við gefum þeim mark á silfurfati. En heilt yfir fannst mér við vera sterkari aðilinn fyrir utan fyrstu 20 mín í seinni."
Guðmundur skoraði einnig gegn Selfyssingum í fyrstu umferð og er því kominn með þrjú mörk í fyrstu tveimur umferðunum. Hvað er markmiðið í markaskorun í sumar?
„Ég hef svo sem ekkert sett mér ákveðið markmið. Ég veit hins vegar að ég mun fá fullt af færum í hverjum einasta leik og það er bara mitt að nýta mér það. Ætla að fara klassísku leiðina og segja að ég ætli mér að gera betur en á síðasta tímabili," sagði Guðmundur en hann skoraði sjö mörk í Inkasso deildinni í fyrra.
Portúgalski þjálfarinn Pedro Hipolito tók við Fram fyrir tæpu ári síðan. Hverju hefur hann breytt hjá félaginu? „Pedro hefur breytt ýmsu. Liðið er orðið skipulagt, allir vita sín hlutverk í liðinu. Æfingarnar eru markvissar, ákefðin er mikil. Það sem hann hefur hins vegar breytt hvað mest er hugafar leikmanna bæði í leik/æfingu og líka utan vallar," sagði Gummi sem er ánægður með uppbygginguna hjá Fram.
„Það sem á sér stað hjá Fram í dag er spennandi. Liðið er komið á betri stað heldur en það hefur verið á síðustu ár. Stefnan er að halda áfram að gera vel og ef það á að gerast þarf að sýna þolinmæði. Ef á móti blæs þarf að standa í lappirnar og standa með því sem lagt var upp með í byrjun. Það hefur loðað við Fram síðustu ár að um leið og liðinu fer að ganga illa að þá er farið í stórtækar breytingar. Til að sú uppbygging sem á sér stað núna skili góðu búi næstu árin þurfa allir að standa saman og róa í sömu átt," sagði Gummi en hann er bjartsýnn fyrir sumarið.
„Við munum klárlega gera betur en í fyrra, hef enga trú á öðru. Það þarf flest allt að ganga upp ef lið ætla sér einhverju baráttu um að komast upp í Pepsi deildina. Inkasso deildin er það erfið og snúin. Persónulega finnst mér við eiga góðan séns á að gera vel. Við förum í hvern einasta leik til þess að vinna og við skulum sjá hverju það mun skila okkur í lok tímabils," sagði Guðmundur brosandi að lokum.
Fyrri leikmenn umferðarinnar
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)
Athugasemdir