Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 24. júní 2018 13:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í Inkasso: Efast ekki um að ég hafi gæði til þess
Viktor Jónsson (Þróttur R.)
Viktor Jónsson átti magnaðan leik gegn Haukum.
Viktor Jónsson átti magnaðan leik gegn Haukum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gregg Ryder hætti með Þrótt stuttu fyrir mót.
Gregg Ryder hætti með Þrótt stuttu fyrir mót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Jónsson, leikmaður Þróttar R., er leikmaður áttundu umferðar Inkasso-deildarinnar hjá Fótbolta.net. Viktor átti magnaðan leik gegn Haukum í 5-2 sigri á Ásvöllum. Viktor skoraði þrennu og lagði upp tvö, átti þátt í öllum mörkunum.

„Tilfinningin var geggjuð. Sem framherji vill maður náttúrulega skora og eiga þátt í sem flestum mörkum og að skora þrjú og leggja upp tvö er æðislegt," segir Viktor sáttur.

„Haukarnir voru ekki slakir, þeir hafa átt betri leiki en mér fannst við bara nýta okkar tækifæri vel og ná upp góðum spilköflum. Haukar byrja seinni halfleikinn betur og voru á góðri leið með að vinna sig inn í leikinn þegar þeir ná inn þessu marki og minnka muninn í 2-1 en sem betur fer náðum við að slökkva í þeim neista strax."

Þróttur er í fimmta sæti með 13 stig eftir átta leiki, fimm stigum frá HK sem er í öðru sæti deildarinnar. „Þetta hefur verið ágætt hjá okkur hingað til. Það gæti að sjálfsögðu verið betra en við gerum okkur grein fyrir því að Gulli Jóns kemur inn og tekur við liðinu stuttu fyrir mót og hafði ekki mikinn tíma til að koma sínum áherslum inn í hópinn. Svo fyrstu umferðirnar hafa svolítið farið í það að spila okkur saman og finna taktinn."

„Það er búinn að vera stígandi hjá okkur og við höfum allir trú á því að við verðum bara sterkari eftir því sem líður á. Eins og staðan er núna eru HK og ÍA mjög sannfærandi en annars er enn mjög stutt á milli næstu liða og nóg eftir af mótinu."

Getur Þróttur komist upp í Pepsi-deildina?

„Ég tel það, þótt að við höfum ekki sett okkur markmið um það. Við einbeitum okkur að því að byggja upp liðið en við höfum klárlega leikmannagæðin til þess að fara upp. Það þarf samt ansi margt að ganga upp ef við ætlum upp um deild. Við reynum auðvitað að vinna hvern einasta leik og við getum unnið öll liðin í þessari deild. Það er nóg eftir af mótinu og við sjáum bara hvernig þetta spilast."

„Eins og þruma úr heiðskýru lofti"
Það kom mjög á óvart þegar Gregg Ryder hætti með Þrótt stuttu fyrir mót, rétt tæpum mánuði. Gregg tók við Þrótti eftir tímabilið 2013 eftir að hafa þjálfað yngri flokka ÍBV. Englendingurinn náði mjög flottum árangri með Þrótt en ákvað að hætta að sökum „faglegs ágreinings".

„Þetta kom eins og þruma úr heiðskýru lofti," segir Viktor. „Allavega frá okkur leikmönnunum séð því Gregg hafði gert marga góða hluti með liðið og hafði mjög góð tengsl við leikmannahópinn."

Gunnlaugur Jónsson tók við Þrótti. „ Ég held að enginn hefði getað komið inn í þetta jafn vel og Gulli. Það er ekki auðvelt að taka við liði svona stuttu fyrir mót en hann er góður og metnaðarfullur þjálfari sem var fljótur að koma sér inn í hlutina."

„Auðvitað er markmiðið að spila á hærra stigi"
Viktor hefur raðað inn mörkum með Þrótti í Inkasso-deildinni síðustu ár. Í fyrra skoraði hann 13 mörk í 18 leikjum og árið 2015 skoraði hann 19 í 22 leikjum. Hann reyndi fyrir sér í Pepsi-deildinni með Víkingi en náði sér ekki á strik. Viktor stefnir á það að spila aftur á hærra stigi en Inkasso-deildinni fyrr eða síðar.

„Auðvitað er markmiðið að spila á hærra stigi og ég efast ekki um að ég hafi gæði til þess."

„Markmiðið í sumar er svo sem ekkert sérstakt, bara spila vel og reyna að skora og búa til mörk í hverjum einasta leik. Einnig hef ég sett mér það markmið að halda mér meiðslalausum því ég hef verið óheppinn með meiðsli. Ég kviðslitnaði í vetur og gekkst undir aðgerð sex vikum fyrir mót svo formið hefur verið að byggjast upp hægt og rólega núna. Ég þarf að hugsa vel um líkamann á meðan. En annars tek ég bara einn leik í einu og set mér markmið út frá því," sagði þessi 24 ára gamli leikmaður að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar
7. umferð - Tiago Fernandes (Fram)
6. umferð - Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.)
5. umferð - Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfoss)
4. umferð - Alvaro Montejo Calleja (Þór)
3. umferð - Steinar Þorsteinsson (ÍA)
2. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner