Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 07. maí 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 4. sæti
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Björn Ingvarsson
Arnar Þór Valsson þjálfari ÍR í leik með liðinu fyrir nokkrum árum.
Arnar Þór Valsson þjálfari ÍR í leik með liðinu fyrir nokkrum árum.
Mynd: Fótbolti.net - Hjalti Þór Hreinsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Aðsend
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fjórða sæti í þessari spá var ÍR sem fékk 160 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um ÍR.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ÍR 160 stig
5. Grótta 155 stig
6. Njarðvík 142 stig
7. Höttur 140 stig
8. Reynir S. 101 stig
9. Dalvík/Reynir 75 stig
10. Ægir 71 stig
11. Sindri 69 stig
12. Hamar 39 stig

4. ÍR
Lokastaða í fyrra: 12. sæti í 1. deild
Óhætt er að segja að miklar breytingar hafa orðið í Neðra-Breiðholtinu frá því að flautað var til leiksloka á síðasta tímabili. Eftir erfitt tímabil þar sem botnsætið í 1. deildinni varð niðurstaðan ákváðu ÍR-ingar að ráða Arnar Þór Valsson sem þjálfara. Arnar er öllum hnútum kunnugur hjá ÍR en hann lék með liðinu um árabil á sínum tíma. Gífurlegar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum frá því í fyrra og ÍR mætir með nýtt lið til leiks í sumar.

Meira en heilt byrjunarlið hefur horfið á braut og þar á meðal eru margir lykilmenn farnir. Þar má nefna varnarmanninn Halldór Arnarsson sem fór í Fram og reynsluboltann Nigel Quashie sem fór í BÍ/Bolungarvík. Fyrirliðinn Guðjón Gunnarsson er einnig farinn sem og Elvar Páll Sigurðsson sem var markahæstur hjá ÍR í fyrra.

Sóknarmaðurinn efnilegi Jón Gísli Ström gekk einnig í raðir ÍBV en útlit er fyrir að hann sé á leið aftur til ÍR. Það er góður liðsstyrkur fyrir liðið rétt fyrir mót. ÍR-ingar hafa að öðru leyti aðallega styrkt sig með leikmönnum úr varaliði félagsins, Létti. Þar er um að ræða unga og efnilega leikmenn sem hafa ekki mikla reynslu í meistaraflokki. Markvörðurinn Magnús Þór Magnússon er einnig kominn til félagsins sem og framherjarnir Arnór Björnsson, Marteinn Urbancic og Viktor Smári Segatta.

Eftir erfiða byrjun í Reykjavíkurmótinu hefur leikur ÍR farið vaxandi á undirbúningstímabilinu. Liðið fór í undanúrslit í B-deild Lengjubikarsins en tapaði þar í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum gegn HK sem vann síðan mótið. ÍR-ingar sýndu í Lengjubikarnum að þrátt fyrir miklar breytingar í vetur þá hefur Arnar Þór búið til öflugan hóp sem spennandi verður að fylgjast með í sumar.

Fyrirliðar og þjálfarar í 2. deildinni spá því að ÍR endi í 4. sæti í 2.deildinni í sumar en liðið stefnir á að endurheimta sæti sitt í fyrstu deildinni. Ljóst er að með sömu spilamennsku og undanfarið er liðinu allir vegir færir en spurning er hvort að reynsluleysi geti orðið ÍR-ingum að falli. Meðalaldur leikmannahópsins er einungis 21 ár og margir af leikmönnunum hafa litla reynslu af því að spila í meistaraflokki. Uppbyggingarstarfið er hins vegar í góðum farvegi hjá ÍR og ef liðið fer ekki upp í ár er ljóst að það mun gera tilkall til þess fyrr en síðar.

Styrkleikar: Sterkari kjarni af heimamönnum en áður. Með öflugan markvörð sem gæti skilað stigum. Meiri leikgleði en var í liðinu í fyrra.

Veikleikar: Mjög ungt og óreynt lið. Gífurlegar mannabreytingar frá síðasta tímabili. Ekki búnir að finna sitt sterkasta byrjunarlið.

Lykilmenn: Jóhann Arnar Sigurþórsson, Magnús Þór Magnússon, Reynir Magnússon.


Þjálfarinn: Arnar Þór Valsson
,,Nei nei, þetta kemur ekkert á óvart. Það mátti alveg búast við því að okkur yrði spáð þarna. Stóra markmiðið hjá okkur er auðvitað að komast upp hvort sem það er raunhæft eða ekki. Veturinn hefur verið fínn, meðalaldur leikmannahópsins er 21 ár en menn hafa æft vel og verið duglegir. Þeir hafa höndlað þetta vel til þessa og verið flottir gegn sterkum liðum á undirbúningstímabilinu, ég sé ekki af hverju það ætti að breytast núna. Þessi deild verður jöfn, enginn mun stinga af og mér sýnist að allir geti unnið alla."

Komnir:
Arnar Már Runólfsson frá Létti
Arnór Björnsson frá Haukum
Arthur Kristján Staub frá Létti
Atli Þór Jóhannsson frá Létti
Halldór Hrannar Halldórsson frá Létti
Hrannar Darri Gunnarsson frá Skínanda
Joshua Daniel G Guðsteinsson frá Létti
Kristján Ari Halldórsson frá Létti
Magnús Þór Magnússon frá Noregi
Marteinn Pétur Urbancic frá Haukum
Sigurður Heiðar Höskuldsson frá Létti
Sigurður Þór Arnarson frá Létti
Viktor Smári Segatta frá FH

Farnir:
Andri Björn Sigurðsson
Axel Kári Vignisson í Víking R.
Darri Steinn Konráðsson í Stjörnuna
Elvar Páll Sigurðsson í Breiðablik
Guðjón Gunnarsson
Halldór Arnarsson í Fram
Kristinn Jens Bjartmarsson í Víking R.
Nigel Quashie í BÍ/Bolungarvík
Marteinn Gauti Andrason í Ægi
Trausti Sigurbjörnsson í Þrótt
Viggó Kristjánsson í Breiðablik
Þórir Guðnason


Þrír fyrstu leikir ÍR
10. maí: Grótta (H)
17. maí: HK (Ú)
23. maí: Ægir (H)
Athugasemdir
banner
banner