Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   sun 05. maí 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 6. sæti
Mynd: UMFN.is - Leifur Gunnlaugsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Halldór Rósmundur Guðjónsson
Mynd: Jón Örvar Arason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Davíð Örn Óskarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sæti í þessari spá var Njarðvík sem fékk 142 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Njarðvík.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Njarðvík 142 stig
7. Höttur 140 stig
8. Reynir S. 101 stig
9. Dalvík/Reynir 75 stig
10. Ægir 71 stig
11. Sindri 69 stig
12. Hamar 39 stig

6. Njarðvík
Lokastaða í fyrra: 8. sæti í 2. deild
Eftir að hafa verið hársbreidd frá því að komast upp úr 2. deildinni árið 2011 var Njarðvíkingum spáð efsta sæti í deildinni fyrir mót í fyrra. Mikil meiðsli hjá lykilmönnum settu strik í reikninginn og Njarðvíkingar náðu aldrei að blanda sér af alvöru í toppbaráttuna. Að lokum varð niðurstaðan áttunda sæti en fyrirliðar og þjálfarar telja að Njarðvíkingar verði aðeins ofar í ár.

Gunnar Magnús Jónsson er að þjálfa Njarðvíkinga þriðja árið í röð en talsverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum í vetur. Guðmundur Steinarsson, leikja og markahæsti leikmaður Keflvíkinga frá upphafi, er orðinn spilandi aðstoðarþjálfari hjá Njarðvík og hann er mikill fengur fyrir félagið. Rafn Markús Vilbergsson er einnig kominn aftur í vörnina eftir að hafa klárað tímabilið í fyrra með Keflavík auk þess sem nokkrir ungir og efnilegir leikmenn hafa komið frá Keflavík.

Mikið mun mæða á þessum ungum leikmönnum í sumar því Njarðvíkingar hafa misst marga fastamenn síðan í fyrra. Andri Fannar Freysson fór á kostum með Njarðvíkingum árið 2011 en hann spilaði ekkert í fyrra vegna meiðsla og það veikti liðið mikið. Í vetur ákvað Andri síðan að ganga til liðs við nágrannana í Keflavík og það er blóðtaka fyrir Njarðvík. Einar Marteinsson var valinn bestur hjá Njarðvík í fyrra en hann gekk til liðs við Aftureldingu í vetur. Fleiri leikmenn hafa horfið á braut og miklar breytingar eru á hópnum. Vignir Jóhannesson verður þó áfram á láni frá Breiðablik en hann átti fínt tímabil í markinu í fyrra.

Njarðvíkingar unnu þrjá af fimm leikjum sínum í Lengjubikarnum í vor. Liðið tapaði gegn HK og Hamar en sigraði Aftureldingu, Sindra og Víði. Stöðugleika vantaði í leik liðsins þar og það er kannski ekki furða eftir þessar miklu breytingar sem hafa orðið á liðinu í vetur.

Njarðvíkingar eru með marga unga og óreynda leikmenn innanborðs sem fá tækifæri til að sanna sig í sumar. Félagið er komið í meira samstarf við Keflavík en þessi lið stilla til að mynda upp sameiginlegum öðrum flokki í sumar. Efnilegir leikmenn hjá Keflavík fá síðan tækifæri til að sanna sig í 2. deildinni í bland við aðra leikmenn hjá Njarðvík. Ljóst er að liðið getur strítt öllum liðum í deildinni á góðum degi og markmiðið er að enda ofar en spáin segir til um.

Styrkleikar: Guðmundur Steinarsson gæti átt eftir að reynast liðinu mjög mikilvægur. Með hraða leikmenn framarlega á vellinum. Metnaðarfullt félag sem þekkir það að leika ofar.

Veikleikar: Ungt og óreynt lið. Miklar breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra. Vantar meiri stöðugleika.

Lykilmenn: Guðmundur Steinarsson, Rafn Markús Vilbergsson, Vignir Jóhannesson.


Þjálfarinn: Gunnar Magnús Jónsson
,,Að sjálfsögðu stefnum við hærra en þetta. Veturinn hefur verið ágætur, við erum með ungt lið og spurningamerki hvernig þetta verður. En við erum bjartsýnir og höfum trú á að við getum gert góða hluti. Guðmundur Steinarsson hefur komið fínt inn í þetta, ekki síður sem þjálfari en leikmaður. Deildin er að styrkjast ár frá ári og mörg lið sem ætla sér upp. Með fjölgun deilda verður deildin enn sterkari og ég hef ekki trú á öðru en að hún verði jöfn og skemmtileg."

Komnir:
Atli Már Jónsson frá Stokkseyri
Daníel Gylfason frá Keflavík
Eyþór Ingi Einarsson frá Keflavík
Eyþór Ingi Júlíusson frá Keflavík
Guðmundur Steinarsson frá Keflavík
Gunnar Oddgeir Birgisson frá Fram
Gylfi Örn Á Öfjörð frá Grindavík
Kristinn Justiniano Snjólfsson frá Drangey
Lukasz Malesa frá Keflavík
Rafn Markús Vilbergsson frá Keflavík

Farnir:
Andri Fannar Freysson í Keflavík
Austin Mcintosh til Englands
Colin English Thompson í Þrótt Vogum
Einar Marteinsson í Aftureldingu
Guðmundur Egill Bergsteinsson í Grindavík
Ísak Örn Einarsson í ÍH
Ísak Örn Þórðarson í Keflavík
Margeir Felix Gústavsson í Reyni Sandgerði
Marteinn Sindri Svavarsson í Vatnaliljurnar
Sigþór Snorrason í Ægi
Sindri Örn Steinarsson í ÍH
Viktor Bergmann Brynjarsson í Grindavík


Þrír fyrstu leikir Njarðvíkur
10. maí: Afturelding (Ú)
18. maí: Dalvík/Reynir (H)
25. maí: Höttur (Ú)
Athugasemdir
banner
banner
banner