Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   lau 04. maí 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 7. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjöunda sæti í þessari spá var Höttur sem fékk 140 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hött.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Höttur 140 stig
8. Reynir S. 101 stig
9. Dalvík/Reynir 75 stig
10. Ægir 71 stig
11. Sindri 69 stig
12. Hamar 39 stig

7. Höttur.
Lokastaða í fyrra: 11. sæti í 1. deild
Höttur komst upp úr annarri deildinni árið 2011 og lék í fyrstu deild í fyrra. Þar var liðið á ágætis skriði um mitt mót en eftir tap í síðustu þremur leikjunum varð liðið að bíta í það súra epli að falla niður í aðra deild á nýjan leik. Eysteinn Húni Hauksson er á sínu þriðja ári sem þjálfari Hattar en samkvæmt spá fyrirliða og þjálfara mun liðið enda talsvert neðar núna en þegar það lék síðast í annarri deildinni. Hetti var reyndar spáð svipuðu gengi þegar liðið fór upp og því láta menn á Egilsstöðum þessa spá væntanlega sem vind um eyru þjóta.

Höttur hefur misst lykilmenn í vetur. Miðjumaðurinn ungi og efnilegi Ragnar Pétursson gekk í raðir ÍBV og fyrirliðinn Óttar Steinn Magnússon fór í Víking R. Þessir tveir leikmenn voru báðir í lykilhlutverki hjá Hetti í fyrra og vandasamt verk verður að fylla skarð þeirra. Bjartmar Þorri Hafliðason og Þórarinn Máni Borgþórsson hafa lagt skóna á hilluna og miðjumaðurinn öflugi Stefán Þór Eyjólfsson hefur tekið sér frí vegna meiðsla. Enski markvörðurinn Ryan Allsop sló í gegn hjá Hetti fyrri hluta móts í fyrra en hann er nú á mála hjá Bournemouth. Veljko Bajkovic spilaði í markinu síðari hluta tímabilsins en hann er einnig horfinn á braut.

Scott Goodwin mun fá það verkefni að standa á milli stanganna hjá Hetti í sumar en hann er væntanlegur til landsins á morgun. Á sama tíma kemur enski varnarmaðurinn Joe Lamlough einnig til félagsins en þeir gætu átt eftir að styrkja leikmannahópinn. Enski miðjumaðurinn Jonathan Taylor gekk einnig til liðs við Hött á dögunum og þá hefur liðið líka fengið liðsstyrk frá nágrönnunum í Huginn. Hinn öflugi Elvar Þór Ægisson mun einnig leika áfram með Hetti í sumar sem er mikill styrkur. Elvar æfði með Selfyssingum í vetur en hann hefur ákveðið að taka slaginn í annarri deildinni með Hetti.

Gengi Hattar í Lengjubikarnum var upp og ofan en liðið endaði með sjö stig eftir fimm leiki í sínum riðli. Í þeim leikjum vantaði erlendu leikmennina sem Höttur verður með í sumar og því er erfitt að dæma liðið út frá þeim leikjum. Sama var uppi á teningnum í Síldarvinnslumótinu en þar fékk Höttur einungis tvö stig í fjórum leikjum. Úrslitin í vetrarleikjunum hjá Hetti hafa því ekki verið mjög sannfærandi á heildina litið.

Menn á Egilsstöðum ætla sér hins vegar stærri hluti í sumar. Þrátt fyrir að nokkrir fastamenn séu farnir síðan í fyrra þá eru ennþá leikmenn í liðinu sem spiluðu í fyrstu deildinni og Eysteinn Húni og lærisveinar hans setja markið hærra en sjöunda sætið.

Styrkleikar: Nokkrir leikmenn liðsins eru reynslunni ríkari eftir að hafa spilað í 1. deildinni í fyrra. Með metnaðarfullan og skipulagðan þjálfara. Með fína undirstöðu til að byggja á eftir uppgang undanfarin ár.

Veikleikar: Erlendu leikmennirnir eru að koma til landsins rétt fyrir mót og spurning er hvernig þeir aðlagast. Lykilmenn eru horfnir á braut frá því í fyrra. Liðinu hefur gengið illa að finna taktinn í vetur.

Lykilmenn: Birkir Pálsson, Elvar Þór Ægisson, Högni Helgason.


Þjálfarinn: Eysteinn Húni Hauksson
,,Ég hef ekkert verið að pæla í hvar okkur yrði spáð. En kannski veitir þetta á gott. Okkur var spáð svipuðum slóðum fyrir tveimur árum þegar við fórum upp. Það er ekkert leyndarmál að veturinn hefur verið okkur erfiður ef horft er á úrslitin. Við höfum misst góða félaga og reynslumenn, fleiri en ég held að fólk átti sig á. Við erum að púsla saman nýju liði. Mér lýst afskaplega vel á deildina og skemmtilegt hve mörg stór nöfn eru komin í hana; menn eins og Atli Eðvalds, Sinisa Kekic, Óli Stefán, Paul McShane, Gummi Steinars og svona gæti ég haldið áfram."

Komnir:
Joe Lamlough frá Englandi
Jonathan Taylor frá Englandi
Jörgen Sveinn Þorvarðarson frá Huginn
Marteinn Gauti Kárason frá Huginn
Scott Goodwin frá Bandaríkjunum
Tómas Arnar Emilsson frá Huginn
Vilhjálmur Rúnarsson frá Val

Farnir:
Anton Ástvaldsson í Gróttu
Bjartmar Þorri Hafliðason hættur
Davíð Einarsson í KR
Óttar Guðlaugsson til Danmerkur
Óttar Steinn Magnússon í Víking R.
Ragnar Pétursson í ÍBV
Stefán Þór Eyjólfsson í fríi frá fótbolta
Veljko Bajkovic til Serbíu
Þórarinn Máni Borgþórsson hættur


Þrír fyrstu leikir Hattar:
11. maí: Ægir (H)
18. maí: Afturelding (Ú)
25. maí: Njarðvík (H)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner