Fótbolti.net mun næstu dagana opinbera spá fyrir Pepsi-deild kvenna. Fótbolti.net gerði spá fyrir sumarið en liðin verða kynnt eitt af öðru fram að fyrsta leik á miðvikudag.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Selfoss
7. Fylkir
8. FH
9. KR
10. ÍA
6 .Selfoss
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í Pepsi-deild
Mikill uppgangur hefur verið á Selfossi undanfarin ár en liðið fór í fyrra í annað árið í röð í bikarúrslit. Enn eitt árið bætti Selfoss einnig sinn besta árangur í sögunni en 3. sætið varð niðurstaðan síðastliðið haust.
Þjálfarinn: Gunnar Borgþórsson hætti sem þjálfari síðastliðið haust eftir þriggja ára starf. Gunnar þjálfar nú karlalið Selfoss og er ennþá til staðar því hann er yfirmaður knattspyrnumála á Selfossi. Hin 27 ára gamla Valorie O´Brien tók við Selfossi af Gunnari en hún spilaði áður með liðinu árin 2012 og 2013.
Styrkleikar: Með bættu gengi undanfarin ár er stemningin í kringum liðið mikil á Selfossi og stuðningurinn góður. Guðmunda Brynja Óladóttir er áfram í stóru hlutverki í sókninni og hún ætti að koma öflug til leiks eftir að hafa verið á láni hjá Klepp í Noregi undanfarnar vikur. Ungir leikmenn í liðinu hafa fengið mikla reynslu eftir bikarævintýrið og gott gengi í deildinni og nú er undir þeim komið að stíga ennþá betur upp eftir brotthvarf lykilmanna.
Veikleikar: Dagný Brynjarsdóttir og Donna Henry eru farnar og þær skilja eftir sig gríðarlega stór skörð sem erfitt verður að fylla. Saman skoruðu þær til að mynda 19 mörk í fyrra. Gunnar Borgþórsson hefur bætt árangurinn skref fyrir skref undanfarin þrjú ár og spurning er hvernig þjálfaraskiptin koma út. Árangurinn í Lengjubikarnum var mjög dapur en Selfoss tapaði öllum sínum leikjum og skoraði einungis tvö mörk.
Lykilmenn: Guðmunda Brynja Óladóttir, Hrafnhildur Hauksdóttir og Chante Sandiford.
Gaman að fylgjast með: Magdalena Anna Reimus kom til Selfyssinga frá Hetti fyrir síðasta tímabil. Spilaði vel í fyrra og verður í ennþá stærra hlutverki í ár.
Komnar:
American Alyssa Telang
Katrín Ýr Friðgeirsdóttir snýr aftur eftir barnsburðarleyfi
Lauren Hughes
Farnar:
Bríet Mörk Ómarsdóttir
Dagný Brynjarsdóttir í Portland Thorns
Donna Henry í Stjörnuna
Katrín Rúnarsdóttir
María Rós Arngrímsdóttir
Sigrún Lárusdóttir
Summer Williams
Fyrstu leikir Selfoss:
11. maí ÍBV - Selfoss
18. maí Selfoss - Stjarnan
24. maí ÍA - Selfoss
Athugasemdir