City vill Guehi - Rashford orðaður við Atletico og Arabíu - Real Madrid hyggst funda með Trent í janúar
   lau 11. júní 2016 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
EM-upphitun
EM-upphitun: F-riðill - Strákarnir mæta til leiks
Icelandair
Cristiano Ronaldo er stórhættulegur.
Cristiano Ronaldo er stórhættulegur.
Mynd: Getty Images
Heimir Hallgríms tekur við íslenska landsliðinu eftir EM.
Heimir Hallgríms tekur við íslenska landsliðinu eftir EM.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Harðjaxlinn á miðjunni gæti verið okkar mikilvægasti maður á EM.
Harðjaxlinn á miðjunni gæti verið okkar mikilvægasti maður á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er hægara sagt en gert að vinna Aleksandar Dragovic í loftinu.
Það er hægara sagt en gert að vinna Aleksandar Dragovic í loftinu.
Mynd: Getty Images
Hinn 37 ára gamli Zoltan Gera stýrir miðju Ungverja.
Hinn 37 ára gamli Zoltan Gera stýrir miðju Ungverja.
Mynd: Getty Images
Mynd: UEFA
Síðasti riðillinn til að vera kynntur til sögu í upphituninni fyrir EM er íslenski riðillinn þar sem strákarnir okkar geta haldið áfram að koma knattspyrnuheiminum á óvart.


EM-upphitanir:
A-riðill
B-riðill
C-riðill
D-riðill
E-riðill

PORTÚGAL
Portúgalska landsliðið lítur afar vel út rétt fyrir Evrópumótið og rúllaði upp undanriðlinum sínum að undanskildu einu tapi gegn Albaníu. Ungir og öflugir miðjumenn eru komnir í aðalliðið og mun þriggja manna miðja liðsins reynast afar erfið viðureignar.

Styrkleikar: Skipulagið undir stjórn Fernando Santos. Santos framkvæmdi minniháttar kraftaverk að margra mati þegar hann kom Grikkjum upp úr riðli á EM 2012 og HM 2014 og er þjálfarinn að nota sömu aðferðarfræði hjá Portúgal, sem fékk aðeins fimm mörk á sig í undankeppninni.

Veikleikar: Vörnin og sóknin. Ricardo Carvalho er gamall og hægur og geta snöggir sóknarmenn gert sér mat úr honum í hjarta varnarinnar. Eder verður notaður sem fremsti maður Portúgal ef Cristiano Ronaldo verður notaður sem vinstri kantur. Eder er stór og sterkur en hann hefur gert 3 mörk í 26 landsleikjum og var skelfilegur í liði Swansea á síðasta tímabili þar sem hann kom við sögu í 13 deildarleikjum án þess að skora.

Væntingar: Ronaldo á aðeins eftir að vinna stórmót með landsliðinu og vonast til að þetta sé hans ár. Ungir og öflugir miðjumenn eru að stíga upp og gæti þetta verið kjörið tækifæri fyrir landsliðið til að vinna sitt fyrsta stórmót.

Líklegt byrjunarlið 4-3-3: Patricio; Vieirinha, Carvalho, Pepe, Eliseu; Carvalho, Pereira, Moutinho; Nani, Eder, Ronaldo

Lykilmaðurinn - Cristiano Ronaldo
Ronaldo er fyrirliðinn. Hann er jafnframt markahæstur og er nokkrum leikjum frá því að verða leikjahæstur frá upphafi. Ronaldo þarfnast varla frekari lýsingar, enda almennt talinn einn af bestu leikmönnum allra tíma.

Þjálfarinn - Fernando Santos
Santos á afar farsælan feril að baki sem þjálfari. Hann hefur stýrt öllum stærstu liðum portúgalska boltans og gerði frábæra hluti með gríska landsliðinu þar sem hann tapaði aðeins 6 af 49 landsleikjum.

Ummæli - Jose Fonte
„Við erum með besta leikmann í heimi innanborðs og því viljum við helst vinna þetta mót. Við erum með sterkt lið og stórkostlegan þjálfara, við erum með mjög góða liðsheild og eigum margir í nánum vinasamböndum."



ÍSLAND
Smæsta þjóðin til að komast á EM og mikill draumur fyrir alla landsmenn að sjá landsliðið spila á stórmóti, eitthvað sem margir töldu ómögulegt fyrir nokkrum árum.

Styrkleikar: Varnarleikurinn. Ísland hélt hreinu í sex leikjum í undankeppninni, tvisvar gegn sóknarsinnuðum Hollendingum.

Veikleikar: Það vantar gæði í varamennina. Það er erfitt að leysa leikmenn á borð við Kolbein, Jóhann Berg eða Gylfa af hólmi skildu þeir meiðast.

Væntingar: Landsmenn vonast eftir sigri gegn Ungverjum til að ná dýrmætu þriðja sæti sem getur gefið þátttökurétt í útsláttarkeppninni. Að komast upp úr riðli væri nóg til að gleðja íslensku þjóðina.

Líklegt byrjunarlið 4-4-1-1: Hannes; Birkir Már, Ragnar, Kári, Ari Freyr; Jóhann Berg, Gylfi, Aron, Birkir Bjarna; Jón Daði; Kolbeinn

Lykilmaðurinn - Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar er kannski ekki hæfileikaríkasti leikmaður landsliðsins en hann er hjartað og sálin. Fyrirliðinn berst fyrir öllum boltum og er harður í horn að taka. Aron mun gegna lykilhlutverki fyrir framan íslensku vörnina.

Þjálfarinn - Lalli og Heimir
Lars Lagerback er svo vinsæll hér á landi að menn vilja sjá hann setjast að á Bessastöðum. Heimir tekur við liðinu eftir Evrópumótið og telja margir að bjartir tímar séu framundan undir hans stjórn.

Ummæli - Gylfi Þór Sigurðsson
„Þetta er stórkostlegt afrek, við erum orðnir að einskonar þjóðarhetjum, sérstaklega í augum yngstu kynslóðarinnar. Áhuginn í kringum landsliðið hefur aukist til muna. Áður fyrr unnum við kannski sjöunda hvern leik og það var erfitt að fá fólk til að koma á heimaleiki en núna selst upp á alla heimaleiki á 20-30 mínútum."



AUSTURRÍKI
Þetta er í fyrsta sinn sem Austurríki kemst á Evrópumótið en liðið fór auðveldlega í gegnum undanriðilinn og vann níu af tíu leikjum eftir jafntefli gegn Svíum í fyrstu umferð.

Styrkleikar: Liðið er gífurlega fljótt að snúa vörn í sókn og þarf yfirleitt ekki nema tvær eða þrjár sendingar til að komast upp allan völlinn.

Veikleikar: Það vantar sóknarmann til að fylla í skarð Marc Janko skildi hann meiðast. Þá eru Austurríkismenn ekki sérlega hættulegir í hornspyrnum þó aukaspyrnurnar frá David Alaba og Zlatko Junuzovic geti reynst hættulegar.

Væntingar: Búast við að komast upp úr því sem þeir telja vera auðveldan riðil.

Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Almer; Klein, Dragovic, Hinteregger, Fuchs; Alaba, Baumgartlinger; Harnik, Junuzovic, Arnautovic; Janko

Lykilmaðurinn - Aleksandar Dragovic
Miðvörðurinn var mikilvægasti maður Austurríkis í undankeppninni ásamt David Alaba. Dragovic er klettur í vörninni og stjórnar öllum í kringum sig af miklu öryggi. Hann er ástæðan fyrir því að Austurríki hafði betur gegn Rússlandi á heima- og útivelli í fjarveru Alaba.

Þjálfarinn - Marcel Koller
Það voru ekki margir sem höfðu trú á hinum svissneska Marcel Koller þegar hann tók við landsliðinu fyrir fimm árum. Koller hafði verið atvinnulaus í tvö ár eftir tvö tímabil við stjórnvölinn hjá Bochum í Þýskalandi. Nú hefur gagnrýnendum hans heldur betur snúist hugur og hefur Koller fengið mikið lof fyrir magnaðan árangur landsliðsins.

Ummæli - Christian Fuchs
„Við erum að skrifa söguna. Það var frábært að komast á EM eftir 4-1 sigur í Svíþjóð. Við bjuggumst við að berjast um 2. sætið í undanriðlinum en svo rúlluðum við þessu upp og erum fullir sjálfstrausts fyrir Frakkland."



UNGVERJALAND
Ungverjar eru af mörgum taldir vera með lakasta liðið til að komast á EM í ár. Þeir lögðu Noreg að velli í umspilinu eftir að hafa endað í 3. sæti undanriðilsins á eftir Norður-Írum og Rúmenum.

Styrkleikar: Liðsheildin er helsti styrkleiki Ungverja sem hafa ekki verið sannfærandi.

Veikleikar: Bestu leikmenn liðsins eru margir orðnir frekar gamlir, til dæmis er hinn 37 ára gamli Zoltan Gera með fast byrjunarliðssæti.

Væntingar: Ungverjar vonast til að ná í stig gegn Íslandi og Austurríki og komast þannig í 16-liða úrslit, en landsmenn átta sig á gæðaleysinu og búast ekki við neinu af landsliðinu í ár.

Líklegt byrjunarlið 4-3-3: Kiraly; Fiola, Guzmics, Langa, Kadar; Gera, Elek, Nagy; Nemeth, Priskin, Dzsudzsak

Lykilmaðurinn - Zoltan Gera
Gera er ekki lengur sami maður og var í lykilhlutverki hjá Fulham spilandi framarlega á miðjunni. Núna er hann orðinn að djúpum miðjumanni og nýtur afar mikillar virðingar frá liðsfélögunum og ungversku þjóðinni.

Þjálfarinn - Bernd Storck
Storck er þýskur og var þjálfari U20 ára landsliðs Ungverja þegar hinn gríðarlega vinsæli Pal Dardai sagði af sér til að taka við Hertha Berlin í þýska boltanum.

Ummæli - Gabor Kiraly
„Það er frábært að þessi stolta knattspyrnuþjóð geti loksins stutt landslið sitt á EM eftir 30 ára bið."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner