Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   fös 10. júní 2016 17:30
Ívan Guðjón Baldursson
EM-upphitun
EM-upphitun: E-riðill - Blómatíð Belgíu
Kevin De Bruyne gæti orðið stjarna mótsins.
Kevin De Bruyne gæti orðið stjarna mótsins.
Mynd: Getty Images
Gangi ykkur vel að skora hjá þessum.
Gangi ykkur vel að skora hjá þessum.
Mynd: Getty Images
Marco Verratti, einn af bestu miðjumönnum heims, missir af EM.
Marco Verratti, einn af bestu miðjumönnum heims, missir af EM.
Mynd: Getty Images
Shane Long mun leiða sóknarlínu Íra.
Shane Long mun leiða sóknarlínu Íra.
Mynd: Getty Images
ZLATAN!
ZLATAN!
Mynd: Getty Images
Mynd: UEFA
Belgar og Ítalir eru risarnir í E-riðli en ljóst að Svíar og Írar verða ekki auðveld bráð enda báðar þjóðir með mikla knattspyrnusögu.

EM-upphitanir:
A-riðill
B-riðill
C-riðill
D-riðill



BELGÍA
Blómaskeið Belga er nýlega hafið þar sem landsliðið skartar ótrúlega öflugum leikmönnum í nánast hverja stöðu á vellinum. Nokkrir af bestu leikmönnum heims eru í röðum Belga og fá þeir kjörið tækifæri til að sanna sig á stóra sviðinu í sumar.

Styrkleikar: Breiður leikmannahópur. Það eru hágæða leikmenn að keppast um nánast hverju einustu stöðu í belgíska liðinu. Gott dæmi um það er að leikmenn á borð við Moussa Dembele, Axel Witsel og Yannick Carrasco eru líklegir til að prýða varamannabekkinn.

Veikleikar: Bakverðirnir eru vandamál, sérstaklega í fjarveru Vincent Kompany og Nicolas Lombaerts. Markaskorunin var ekki til vandræða í undankeppninni en sóknarmennirnir Romelu Lukaku, Christian Benteke og Divock Origi gerðu ekki nema 2 af 24 mörkum liðsins.

Væntingar: Belgar bera miklar væntingar til landsliðsins sem býr yfir einum af bestu leikmannahópum mótsins. Þeir vilja sjá landsliðið komast alla leið í úrslitaleikinn.

Líklegt byrjunarlið 4-2-3-1: Courtois; Alderweireld, Denayer, Vermaelen, Vertonghen; Fellaini, Nainggolan; Mertens, De Bruyne, Hazard; Lukaku

Lykilmaðurinn - Kevin De Bruyne
Það efast enginn um gæði De Bruyne sem átti mjög gott tímabil með Manchester City og mætir á EM úthvíldari en flestir aðrir vegna meiðsla sem hann hlaut í vetur. De Bruyne skoraði fimm og lagði þrjú upp í undankeppninni.

Þjálfarinn - Marc Wilmots
Wilmots var meðal bestu leikmanna Belga um aldamótin og tók svo við þjálfun liðsins árið 2012, tíu árum eftir að hafa lagt landsliðsskóna á hilluna. Wilmots er undir mikilli pressu í heimalandinu þar sem fólkið vill sjá Belgíu ná sem lengst og helst alla leið í úrslit.

Ummæli - Marouane Fellaini
„Þetta er einstaklega mikilvægt mót því nú er besti tíminn fyrir okkur til að sanna hvað við getum gert. Við höfum bara tapað tveimur leikjum síðustu fjögur ár en við höfum aldrei unnið stórmót og það reynsluleysi gæti gert okkur erfitt fyrir."



Ítalía
Áhorfendur heima í stofu munu eflaust furða sig á því hversu fá nöfn þeir þekkja í ítalska landsliðinu þegar það mætir til leiks í sumar. Ítalía tapaði fyrir Spánverjum í úrslitaleik síðasta Evrópumóts en hópurinn í ár er gjörbreyttur frá því fyrir fjórum árum enda augljós kynslóðaskipti í gangi.

Styrkleikar: Varnarlína Ítala er heimsþekkt og hefur verið það í langan tíma þar sem Gianluigi Buffon stýrir miðvörðunum þremur eins og hershöfðingi.

Veikleikar: Það vantar gæði. Það er engin stjarna í ítalska liðinu og fara tveir af mikilvægustu leikmönnum liðsins, þeir Marco Verratti og Claudio Marchisio, ekki með til Frakklands vegna meiðsla.

Væntingar: Væntingarnar til ítalska landsliðsins hafa aldrei verið minni þar sem heimamenn búast ekki við að liðið komist mikið lengra en í 16-liða úrslit. Það yrði mikill sigur fyrir landsliðið að komast í undanúrslit með endurnýjaðan leikmannahóp, en hálfur leikmannahópurinn hefur ekki farið á stórmót áður.

Líklegt byrjunarlið 3-4-3: Buffon; Barzagli, Bonucci, Chiellini; Florenzi, De Rossi, Sturaro, Darmian; Candreva, Pelle, Insigne

Lykilmaðurinn - Gianluigi Buffon
Hefur verið meðal bestu markvarða heims í næstum því tvo áratugi og er ennþá í toppstandi þrátt fyrir að vera aðeins 18 mánuðum frá fertugsafmæli. Hann bætti 22 ára gamalt met í ítölsku deildinni þegar hann hélt hreinu í 973 mínútur í röð. Það hentar því vel að hafa samherjana úr Juventus fyrir framan sig í Frakklandi.

Þjálfarinn - Antonio Conte
Conte hefur fengið mikla umfjöllun undanfarna mánuði og er af mörgum talinn einn besti þjálfari sem Ítalía hefur alið af sér í gegnum tíðina, og þar er samkeppnin ansi hörð.

Ummæli - Alessandro Florenzi
„Það eru mörg sterk lið sem taka þátt en við höfum góða blöndu af reynsluboltum og ungum leikmönnum. Við munum gera andstæðingum okkar mjög erfitt fyrir."



Írland
Þetta var erfitt fyrir Íra en það hafðist naumlega að lokum. Þeir enduðu í þriðja sæti á eftir Þjóðverjum og Pólverjum í undankeppninni, lögðu Bosníu Hersegóvínu í umspilinu og lentu svo í einum af erfiðustu riðlum lokamótsins.

Styrkleikar: Liðsandi og baráttugleði er það sem keyrir Írana áfram.

Veikleikar: Það vantar gæði um allan völl. Sá sem kemst næst því að vera stjarna liðsins er Shane Long, sóknarmaður Southampton.

Væntingar: Írar vonast til að lauma sér upp úr riðlinum á kostnað Svía.

Líklegt byrjunarlið 4-4-1-1: Randolph; Coleman, O'Shea, Keogh, Brady; Walters, McCarthy, Whelan, Hendrick; Hoolahan; Long

Lykilmaðurinn - Shane Long
Það verður ekki auðvelt að taka við af Robbie Keane sem stjarnan í írska landsliðinu, en nú er Keane að verða 36 ára og að taka þátt í sínu síðasta stórmóti. Long hefur spilað helmingi færri landsleiki en Keane og skorað fjórum sinnum minna af mörkum.

Þjálfarinn - Martin O'Neill
Martin O'Neill er kunnugur þeim sem fylgjast með enska boltanum, enda hefur hann stýrt Leicester, Celtic, Aston Villa og Sunderland á síðustu 20 árum. O'Neill er rólegur og mjúkur en er með hinn grjótharða Roy Keane sem aðstoðarþjálfara og er sagt að þeir fullkomni hvorn annan.

Ummæli - Richard Keogh
„Það hafði enginn trú á okkur en þegar við unnum Þjóðverja í undankeppninni vissum við að þetta væri hægt. Þar sönnuðum við að við getum haldið hreinu og unnið gegn hvaða liði sem er."



Svíþjóð
Svíar lögðu nágrannana frá Danmörku til að komast á lokamót EM eftir ósannfærandi frammistöðu í undankeppninni.

Styrkleikar: Zlatan er búinn að skora 19 mörk í síðustu 22 keppnisleikjum með sænska landsliðinu.

Veikleikar: Zlatan. Ef Zlatan finnur ekki taktinn virkar sænska liðið stefnulaust.

Væntingar: Svíar vilja sigra Íra, komast upp úr riðlinum og kannski í 8-liða úrslit með smá heppni.

Líklegt byrjunarlið 4-4-2: Isaksson; Lustig, Granqvist, Antonsson, Olsson; Durmaz, Wernbloom, Källström, Forsberg; Berg, Ibrahimovic

Lykilmaðurinn - Zlatan Ibrahimovic
Það er ekkert flóknara en það að Zlatan er með þetta landslið algjörlega á herðum sér. Það snýst allt um Zlatan, enda lítið annað hægt þegar einn leikmaður liðsins er nokkrum gæðaflokkum fyrir ofan þá næstu.

Þjálfarinn - Erik Hamren
Hamren er búinn að stýra Svíum í sjö ár og hættir hann sem landsliðsþjálfari Svía eftir Evrópumótið. Hann hefur alla sína tíð stýrt félögum í Norðurlöndunum og var síðast við stjórnvölinn hjá Rosenborg frá 2008 til 2010.

Ummæli - Pontus Wernbloom
„Við viljum vinna riðilinn, við höfum allt sem þarf. Við höfum mikið af góðum leikmönnum, gott andrúmsloft og stórstjörnu. Þarf eitthvað annað? Þegar andstæðingarnir einbeita sér að Zlatan skapast meira pláss fyrir okkur hina, og við kunnum alveg fótbolta þó við séum ekki í heimsklassa."
Athugasemdir
banner
banner
banner