Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 12. febrúar 2018 11:30
Magnús Már Einarsson
Bjarni Jó vill að aðrir en KSÍ sjái um Lengjubikarinn
Bjarni Jóhannsson þjálfari Vestra.
Bjarni Jóhannsson þjálfari Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Orri Rafn Sigurðarson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Talsverð umræða hefur verið um Lengjubikarinn undanfarna daga. Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, ræddi málið á Twitter í síðustu viku þar sem hann furðaði sig á því að riðlakeppni Lengjubikarsins ljúki sex vikum fyrir Íslandsmótið.

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra, kom með annan punkt í umræðunni um Lengjubikarinn í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu á laugardag.

Bjarni vill að KSÍ hætti að sjá um Lengjubikarinn til að hægt verði að leyfa félögum að hafa menn á reynslu í því móti. Í Fótbolta.net mótinu er leyfilegt að nota leikmenn sem eru ekki búnir að fá félagaskipti. KSÍ þarf að fara eftir alþjóðlegum reglum FIFA og því þurfa leikmenn að vera skráðir í viðkomandi félag til að mega spila í Lengjubikarnum.

„Ég vill að þessi æfingamót og sérstaklega Lengjubikarinn, séu tekin til endurskoðunar," sagði Bjarni í þættinum.

„Í fótboltaheiminum tala menn um að Fótbolta.net mótið og Kjarnafæðismótið séu best heppnuðu mót sem til eru. Sérstaklega þegar þú ert í þessari stöðu, úti á landi, að þú ert að hamast við að fá Íslendinga til að koma og það gengur misvel. Þá þarftu að kíkja á einhverja erlenda leikmenn. Það er janúar mánuður sem dugar til þess en annars þurfa menn að vera löglegir."

„Ég velti því fyrir mér hvort það er ekki hægt að taka þetta af KSÍ og framkvæmdaraðilar séu Lengjan, Sjóvá eða einhverjir aðrir, bara eins og Fótbolti.net sér um sitt mót. Það mætti vinna þetta í samvinnu við sambandið til að þurfa ekki að skipta hverjum einasta leikmanni sem maður vill kíkja á."


Bjarni er ánægður með framkvæmd KSÍ á Lengjubikarnum en hann vill breytingar til að félög geti skoðað leikmenn á reynslu í mótinu.

„Framkvæmdin á Lengjubikarnum er frábær. Það verður ekki hallað á einn né neinn í sambandi við það. Það mót er vel skipulagt og vel mannað af dómurum. Fyrir félögin sem eru að byggja upp lið og fá til sín leikmenn þá tel ég hins vegar vera kominn tími á að taka þessa umræðu af krafti,"

Bjarni vill sjá félög nýta tækifærið eftir Lengjubikarinn með því að hafa stutt æfingamót í apríl.

„Apríl mánuður verður kannski leikmánuður í íslenskum fótbolta innan tíu ára. Það eru allir að byggja í kringum vellina sína og fara á gervigras. Fram að því gæti ég séð fyrir mér að hafa pínulítil æfingamót í apríl. Fjögurra liða mót þar sem spilað á fimmtudegi og sunnudegi og eitthvað slíkt. Síðan eigum við að reyna að stækka leikinn meistarar meistaranna og gera hann að öflugu starti í mótinu," sagði Bjarni.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Bjarna (38:20)
Athugasemdir
banner
banner