Nóg af Amorim tengdu slúðri - Arsenal horfir til Bayern - Chelsea horfir til Lecce - Gerrard ætlar að berjast
   þri 14. júlí 2015 12:35
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 11. umferð: Christensen happafengur
Bjarni Ólafur Eiríksson (Valur)
Bjarni Ólafur er leikmaður 11. umferðar í Pepsi-deild karla.
Bjarni Ólafur er leikmaður 11. umferðar í Pepsi-deild karla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður Vals er leikmaður 11. umferðar í Pepsi-deild karla.

Hann átti stórfínan leik í vinstri bakverðinum hjá Val í 2-1 sigri liðsins á Stjörnunni í Garðabænum.

Höldum okkur niður á jörðinni
„Við byrjuðum leikinn hræðilega og vorum ekki með fyrstu 20-25 mínúturnar. Eftir að við lentum undir þá komumst við betur inn í leikinn og náðum að láta boltann ganga. Það var gott að ná að jafna fyrir hálfleik og fara með jafna stöðu inn í hálfleikinn."

„Það veitti okkur aukið sjálfstraust til að klára leikinn. Seinni hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu og ekki af mikið færum, þó að við höfum fengið töluvert fleiri færi en þeir. Mér fannst þetta því vera sanngjarn sigur," sagði Bjarni Ólafur sem er ánægður með stöðu mála hjá Valsliðinu eftir fyrri umferðina.

„ Það hefur gengið vel, jafnframt gerum við okkur grein fyrir því að mótið er rétt svo hálfnað og við megum ekki missa okkur eitthvað. Við höfum hingað til verið lið sem getur unnið öll lið en einnig tapað fyrir öllum. Við þurfum að halda okkur niður á jörðinni."

Samsetning hópsins betri í ár
Valsliðið hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár. Háleit markmið hafa aldrei staðið undir sér en það er bjartara yfir Hlíðarenda þessa stundina. Bjarni hefur sína skoðun á því, hvað hefur breyst.

„Það hefur oft verið fullt af frábærum leikmönnum í Val en samsetningin hópsins er betri en síðustu ár. Liðsheildin vinnur oft leiki þó svo að liðið sé ekki að spila vel í leikjunum og ég held að það hafi samheldnin í hópnum hafi skilað okkur nokkrum sigrum í sumar."

Bjarni Ólafur er eini maðurinn í vörn Vals í ár sem spilaði í varnarlínunni allt síðasta tímabil. Einnig er nýr markmaður í rammanum. Hann er ánægður með hvernig til hefur tekist að púsla þessu öllu saman.

„Þetta er glæ ný vörn. Við fengum mjög góða leikmenn. Ég er alveg sammála sérfræðingunum að Thomas Guldborg Christensen var happafengur fyrir okkur. Hann er frábær leikmaður og frábær karakter sem gerir leikmennina í kringum sig mikið betri. Það er frábært að hafa svoleiðis leikmenn í liðinu," sagði Bjarni Ólafur sem er einnig ánægður með spilamennsku hins unga, Orra Sigurðar sem kom til liðs við Val frá AGF í vetur.

„Ég vissi það um leið og Orri byrjaði að æfa með okkur að hann væri frábær miðvörður. Hann þurfti kannski reynslumeiri leikmann með sér. Orri hefur spilað að mínu mati frábærlega í sumar."

Er Óla gríðarlega þakklátur
Það er ekki bara ný aftasta línan hjá Val, því það eru nýir menn við stjórnvölin hjá Val. Þeir Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson tóku við Valsliðinu fyrir tímabilið. Bjarni Ólafur þekkir þá báða mjög vel frá fyrri tíð.

„Óli var sá þjálfari sem gaf mér fyrst tækifæri með landsliðinu. Ég er honum gríðarlega þakklátur fyrir það. Ég kann mjög vel við Óla. Síðan þekkti ég, Bjössa Hreiðars. frá því að við spiluðum saman. Ég er mjög ánægður með að hafa fengið þá báða til félagsins og þeir hafa staðið sig mjög vel."

Valur er sem stendur í 4. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði FH. Valsmenn eru einnig í undanúrslitum Borgunarbikarsins, þar sem þeir mæta 1. deildarliði KA.

„Ef við náum að halda öllum leikmönnum heilum og sleppum við mikið af leikbönnum þá eigum við að geta hangið í efstu liðunum. Til þess þurfum við að mæta ákveðnir og með rétt hugarfar í alla leikina sem eftir eru. Þetta er bara hálfnað."

„Það er frábært að vera áfram í bikarnum. Við gerum allt til að komast eins langt og við getum í þeirri keppni. Þetta er stysta leiðin í Evrópukeppnina," sagði Bjarni Ólafur Eiríksson, vinstri bakvörður Vals að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
10. umferð: Rasmus Christiansen (KR)
9. umferð: Ásgeir Marteinsson (ÍA)
8. umferð: Kristinn Jónsson (Breiðablik)
7. umferð: Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
6. umferð: Steven Lennon (FH)
5. umferð: Albert Brynjar Ingason (Fylkir)
4. umferð: Skúli Jón Friðgeirsson (KR)
3. umferð: Sigurður Egill Lárusson (Valur)
2. umferð: Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Athugasemdir
banner
banner
banner