Albert Brynjar Ingason (Fylkir)
„Heiðurinn er nóg, en ég þigg góðar pizzur," segir Albert Brynjar Ingason leikmaður Fylkis sem er leikmaður fimmtu umferðar í Pepsi-deildarinnar og fær því pizzuveislu frá Domino´s.
Albert skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-1 útisgri Fylkis á Keflavík. Eftir markalausan fyrri hálfleik opnuðust flóðgáttir í seinni hálfleik og fjögur mörk litu dagsins ljós.
Albert skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-1 útisgri Fylkis á Keflavík. Eftir markalausan fyrri hálfleik opnuðust flóðgáttir í seinni hálfleik og fjögur mörk litu dagsins ljós.
Voru pirraðir í hálfleik
„Ég er gríðarlega sáttur með leikinn. Mér fannst við vera með gífurlega yfirburði, bæði með vindinn í bakið og á móti honum. Það kom smá bakslag þegar þeir minnka muninn en við unnum okkur úr því og keyrðum þetta samfærandi heim."
„Við vorum smá pirraðir á því að hafa ekki skorað í fyrri hálfleik. Samt sem áður notuðum við það til að pústa okkur og klára seinni hálfleikinn. Við fundum það allir hversu mikið við réðum þessum leik," segir Albert sem segir það hafa verið jákvætt fyrir liðið að vinna leikinn eftir slæmt tap gegn KR í umferðinni á undan.
„Mér fannst við spila ágætlega gegn KR þrátt fyrir tap. Það er þreytt að hittast eftir leik og tala um hvað við spiluðum vel en fá ekkert úr því. Við bættum úr því með því að fá öll stigin í Keflavík. Það var fínt að svara KR leiknum þannig. Við stefnum á að halda því áfram og sýna smá stöðugleika."
Slakasti leikurinn gegn Fjölni
Fylkisliðið er með átta stig að loknum fimm umferðum. Liðið byrjaði á tveimur jafnteflum í fyrstu tveimur umferðunum. Í fyrsta leiknum klikkaði Albert Brynjar vítaspyrnu.
„Maður veit aldrei hvernig leikurinn hefði endað á móti Breiðablik hefði ég skorað úr vítinu. Þá hefðum við hugsanlega getað verið með tíu stig. Svo kemur leikur þar á eftir gegn Fjölni sem er okkar slakasti leikur. Þar getum við verið sáttir með að hafa náð einu stigi."
„Það eru öll lið í möguleika að ná sínum markmiðum. Við þurfum að sýna smá stöðugleika þá náum við okkar markmiðum. Ég held að við getum verið þokkalegir sáttir með byrjunina."
„Það hefur sýnt sig í þessum leikjum að það geta öll lið tekið stig af hvor öðrum. Svo er spurning hvernig þetta þróast. Miðað við byrjunina er ekki að sjá, að einhver tvö lið stingi af. Ég get alveg trúað því að það verði nokkur lið að berjast um Evrópusætin í ár."
Pamela verður ánægð
Fylkir mætir Val í næstu umferð. Valsliðið verðist óútreiknanlegt miðað við úrslit þeirra í sumar.
„Það er erfitt að lesa í Valsliðið. Þeir eiga frábæran leik gegn FH þar sem þeir sýna hversu megnugir þeir geta verið á góðum degi. Maður veit aldrei hvaða Valsliði maður mætir. Við eigum heldur ekkert að vera pæla í því, við eigum bara að vera spá í okkar leik. Ef við gerum það þá hef ég bullandi trú á að leikurinn á sunnudaginn fari vel."
Pamela, hundur Alberts vakti athygli fyrir spádómshæfileika í Messunni á Stöð 2 Sport á sínum tíma. Minna hefur farið fyrir Pamelu undanfarið.
„Pamela hefur bætt aðeins á sig. Hún hefur það annars mjög gott og hún verður sátt með pítsuveisluna. Hún fær eitthvað af því. Hún er algjör drottning. Hún er til fyrirmyndar þessi tík og heldur heimilinu hreinu," sagði markahrókurinn, Albert Brynjar að lokum.
Fyrri leikmenn umferðarinnar:
4. umferð: Skúli Jón Friðgeirsson (KR)
3. umferð: Sigurður Egill Lárusson (Valur)
2. umferð: Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Athugasemdir