Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 16. júní 2015 14:30
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 8. umferð: Eigum töluvert inni
Kristinn Jónsson (Breiðablik)
Kristinn Jónsson er leikmaður 8. umferðar.
Kristinn Jónsson er leikmaður 8. umferðar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Þetta var ágætis leikur hjá mér og hjá liðinu," sagði Kristinn Jónsson vinstri bakvörður Blika sem er leikmaður 8. umferðar í Pepsi-deild karla.

Hann skoraði tvívegis og lagði upp eitt mark í 4-1 sigri á Víking á Kópavogsvelli á sunnudaginn.

Slakasta liðs frammistaðan
Kristinn var þó ekkert alltof ánægður með spilamennsku liðsins í leiknum sjálfum. Hann segir að það lýsi þó sjálfstraustinu og holningunni í liðinu, að hafa unnið svona stóran sigur þrátt fyrir það.

„Þetta var að mér finnst slakasta liðs frammistaðan hjá okkur í sumar. Mér fannst fullmikið svæði fyrir Víkinga að sækja í, þó þeir hafi ekki nýtt þá stöðu."

Víkingar voru alveg æfir út í Garðar Örn Hinriksson, dómara leiksins fyrir að hafa ekki dæmt Kristin brotlegan eftir baráttu við Andra Rúnar Bjarnason, framherja Víkings.

„Mér fannst Andri Rúnar fara full auðveldlega niður í leiknum sjálfum. Ég verð að viðurkenna það að þegar ég sá þetta í sjónvarpinu þá var þetta brot. Ég er samt viss um að þetta hafi þá átt að vera aukaspyrna en ekki vítaspyrna, því þetta var fyrir utan teig. En jú, ætli Víkingar hafi ekki haft eitthvað til síns máls, sagði Kristinn aðspurður út í atvikið.

Kópacabana verið frábærir
„Það hefur verið fínn stígandi frá fyrsta leik. Við eigum töluvert inni ennþá. Ég vona að við náum að sýna það í næstu umferðum og getum gert enn betur í næstu leikjum," sagði Kristinn. Það verður toppbaráttuslagur í næstu umferð þegar FH og Breiðablik mætast í Kaplakrika. Tvö efstu lið deildarinnar, Breiðablik í 2. sæti, taplausir enn sem komið er.

„Það verður flottur leikur. Við förum fullir sjálfstrausts í leikinn á sunnudaginn og stefnum á þrjá punkta þar eins og alltaf," sagði Kristinn sem er ánægður með stuðninginn sem liðið hefur fengið úr stúkunni í sumar og býst við mikilli stemningu í Kaplakrika í næsta leik.

„Kópa-cabana hafa verið frábærir það sem af er sumri og ég held að þeir verði dýrvitlausir í Hafnarfirðinum og gefi okkur þann aukakraft sem þarf, til að sigra leikinn."

Lifir í mómentinu
Kristinn Jónsson hefur heldur betur slegið í gegn í upphafi móts og hefur átt þátt í fjölmörgum mörkum Breiðabliks í sumar. Í síðustu viku var hann síðan í leikmannahóp íslenska landsliðsins gegn Tékkum.

„Mér líður hrikalega vel á vellinum og það gengur vel. Hvort ég sé í besta formi lífsins, er erfitt að segja, en ég er í góðu formi."

„Arnar Grétars. er alltaf að tala við okkur strákana í liðinu að lifa í momentinu og njóta þess sem allra best," sagði Kristinn sem segist lítið pæla í því, hvort það séu einhverjir njósnarar frá liðum í Evrópu að fylgjast með sér úr stúkunni. Hann segir þó að stefnan sé sett á að fara aftur út í atvinnumennsku.

„Ég er með mín markmið eins og hver annar knattspyrnumaður. Ég er lítið að pæla í því í dag, en ef það kemur eitthvað upp þá skoðar maður það í rólegheitunum og tekur síðan ákvörðun út frá því," sagði Kristinn.

Hann fær pizzu-veislu frá Domino´s fyrir að vera leikmaður umferðarinnar. Kristinn var ekki lengi að svara, þegar hann var aðspurður út í það, hvaða pizzu hann myndi fá sér. „Pepp og svepp," sagði vinstri bakvörðurinn úr Kópavoginum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
7. umferð: Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
6. umferð: Steven Lennon (FH)
5. umferð: Albert Brynjar Ingason (Fylkir)
4. umferð: Skúli Jón Friðgeirsson (KR)
3. umferð: Sigurður Egill Lárusson (Valur)
2. umferð: Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner