Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 21. júlí 2015 22:34
Elvar Geir Magnússon
Rúnar Páll: Skotarnir verða pirraðir á skraufaþurru grasinu
Rúnar Páll á fréttamannafundinum.
Rúnar Páll á fréttamannafundinum.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Rúnar sat fyrir svörum líkt og Michael Præst fyrirliði.
Rúnar sat fyrir svörum líkt og Michael Præst fyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Á morgun, miðvikudagskvöld, leikur Stjarnan seinni leik sinn gegn skoska stórliðinu Celtic í undankeppni Meistaradeildarinnar. Það er á brattann að sækja fyrir Garðbæinga eftir 2-0 sigur Celtic í fyrri leiknum.

Á fréttamannafundi í dag sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, að öðruvísi aðstæður gætu haft áhrif á hugarfar leikmanna skoska liðsins.

„Ég held að það sjokkeri þá að koma hingað og sjá aðstæðurnar hérna miðað við aðstæðurnar hjá þeim, sjá þennan litla völl. Það er himinn og haf milli þessara leikvanga eins og þið vitið sjálfir. Þeir eru að sjálfsögðu drullufúlir yfir þessum aðstæðum," sagði Rúnar.

Fjölmargir breskir blaðamenn eru mættir til landsins til að fjalla um leikinn og var undirlag heimavallar Stjörnunnar, gervigrasið, það helsta sem spurt var út í. Rúnar telur að gervigrasið gæti farið í taugarnar á leikmönnum Celtic.

„Þeir verða pirraðir yfir skraufaþurru gervigrasinu," sagði Rúnar og sló á létta strengi þegar hann var spurður að því hvort hann myndi sjá til þess að völlurinn yrði ekki vökvaður?

„Það verður bara vatnslaust í Garðabænum á morgun. Það fór æð hérna upp frá," sagði Rúnar og var hlegið í salnum. „Nei nei, það er samkomulag milli þessara félaga sem verður leyst á fundi. Ég skipti mér ekki af því."

„Við spiluðum hér gegn Lech Poznan og fengum góð úrslit í þeim leik. Við teljum okkur geta strítt Celtic á morgun þó gengi okkar í deildinni hafi ekki verið upp á marga fiska. Þetta er bara allt önnur ella. Ég held að við getum átt mjög góðan leik á morgun," sagði Rúnar sem telur að Stjarnan eigi möguleika á að koma á óvart.

„Það verður erfitt að ná marki á þá en við sjáum það að í fyrri leiknum fengum við tvö mjög góð færi til að skora á útivelli. Það eru mikil gæði í Celtic og því verðum við að vera fókuseraðir. Þeir vilja fara í gegnum miðjuna og við verðum að stöðva það. Þeir vilja spila með einni snertingu og eru flinkir í því."

Leikur Stjörnunnar og Celtic á morgun hefst 19:15 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner