Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   mán 24. ágúst 2015 15:30
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Jóhann Berg: Veit ekki alveg hvað ég var að gera þarna
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Getty Images
„Þetta var sérstaklega sætt af því að þetta var á 98. mínútu á móti liði sem er eitt það sterkasta í þessari deild," sagði Jóhann Berg Guðmundsson við Fótbolta.net í dag en hann tryggði Charlton 2-1 sigur á Hull í Championship deildinni um helgina.

Jóhann skallaði boltann í netið úr teignum eftir skallasendingu frá danska framherjanum Simon Makienok. Jóhann var ansi framarlega á vellinum þegar boltinn datt fyrir hann.

„Ég veit ekki alveg hvað ég var að gera þarna. Ég var þreyttur af því að leikurinn var að verða búinn. Ég held að þetta hafi verið mitt besta skallamark á ferlinum og það var skemmtilegt að það kom á þessum tíma."

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út á The Valley þegar Jóhann skoraði og Guy Luzon stjóri liðsins kom hlaupandi eftir hliðarlínunni til að vera með í fögnuðinum eins og sjá má í myndbandinu neðst í fréttinni.

„Hann missti sig aðeins kallinn. Hann lifir sig mikið inn í þessa leiki og það var gaman að sjá hann fagna þessu svona svakalega. Hann er alvöru karakter."

Charlton er í þriðja sæti í Championship deildinni með átta stig eftir fjóra leiki.

„Við höfum unnið QPR og Hull og gert jafntefli við Derby úti. Við höfum sýnt á móti þessum stóru liðum að við getum gert góða hluti og það er undir okkur komið að ná í fleiri stig á móti þessum slakari liðum. Þessi deild er erfið og maður veit aldrei hvað gerist í þessu. Við þurfum að reyna að vinna hvern leik og sjá hvert það kemur okkur."

Jóhann Berg er í fínu formi fyrir komandi landsleiki gegn Hollandi og Kasakstan í byrjun september.

„Ég er í mjög góðu standi og er að spila 90 mínútur í öllum leikjum hér. Þetta gæti ekki verið mikið betra," sagði Jóhann sem er spenntur fyrir komandi leikjum. „Þegar við erum í svona séns er ekki annað hægt en að vera spenntur fyrir komandi leikjum."

Hér að neðan má sjá markið hjá Jóhanni og fagnaðarlætin.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner