Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
banner
   mán 26. febrúar 2018 15:36
Magnús Már Einarsson
Óvíst hvort nýi varnarmaðurinn spili með FH
FH fagnar marki.
FH fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Gomes í leik á Ólympíuleikunum 2016.
Gomes í leik á Ólympíuleikunum 2016.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn Edigerson Gomes Almeida kom í dag til FH á láni frá Henan Jianye í Kína. Samkvæmt frétt Vísis er þó alls óvíst að Edigerson eigi eftir að spila með FH í Pepsi-deildinni í sumar.

Gomes er meiddur og alls óvíst hvort hann verður búinn að jafna sig af meiðslunum fyrir sumarið. FH ákvað að gera tímabundinn samning við leikmanninn.

Ef hann jafnar sig fyrir maí og nær að sýna að hann sé nógu góður þá mun hann fá lengri samning samkvæmt heimildum Vísis. Sé hann aftur á móti enn meiddur í maí þá mun hann þurfa að leita á önnur mið.

Félagaskiptin hafa vakið athygli í Danmörku en Tipsbladet talaði um óvænt skipti í frétt sinni í dag. Þeir sem þekkja til í danska boltanum eru hissa á skiptunum og segja merkilegt að FH hafi náð í svona öflugan leikmann í Pepsi-deildina.

Gomes er 29 ára gamall hávaxinn miðvörður en ef hann nær sér á strik gæti hann hjálpað til við að fylla skarð Kassim Doumbia og Bergsveins Ólafssonar sem eru báðir farnir frá FH.

Gomes er frá Gínea-Bissau en hann er með portúgalskt og danskt vegabréf. Frá sex til ellefu ára bjó hann í Portúgal með möður sinni en hann flutti síðan til föður síns í Danmörku þar sem hann lék í yngri flokkunum.

Gomes hóf meistaraflokksferil sinn með Herlev en hann lék síðan með Köge og Esbjerg áður en hann fór til Henan Jianye í úrvalsdeildinni í Kína árið 2015. Á síðasta tímabili spilaði hann 22 leiki í úrvalsdeildinni í Kína.

Árið 2016 lék Gomes sem eldri leikur með landsliði Dana á Ólympíuleikunum. Í fyrra ákvað hann hins vegar að hefja landsliðsferil sinn með Gínea-Bissau en hann skoraði í fyrsta leik gegn Namibíu í júní í fyrra.

FH er í æfinga og keppnisferð á Marbella á Spáni en þar er kantmaðurinn Zeiko Lewis á reynslu hjá félaginu. Lewis er landsliðsmaður Bermúda.

Athugasemdir
banner
banner
banner