Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mið 29. júlí 2015 15:30
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Bestur í 13. umferð: Enginn mýrarbolti fyrir mig
Emil Pálsson (FH)
Emil Pálsson fagnar marki sínu í Keflavík.
Emil Pálsson fagnar marki sínu í Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil ætlar að festa sig í sessi á miðri miðjunni.
Emil ætlar að festa sig í sessi á miðri miðjunni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Emil Pálsson hefur átt frábært tímabil í Pepsi-deildinni, fyrst á lánssamningi hjá Fjölni en svo var hann kallaður aftur í FH. Í gær lék hann í sinni uppáhalds stöðu á miðri miðjunni og skoraði fyrra mark síns liðs í 2-1 sigri gegn Keflavík.

Afar mikilvægur sigur fyrir FH-inga sem tróna á toppi deildarinnar. Emil er leikmaður 13. umferðar deildarinnar.

„Það er afar gott að geta farið inn í verslunarmannahelgina á toppnum. Það hefur verið smá hikst á liðinu í deildinni að undanförnu. En við erum á toppnum þrátt fyrir hikstið svo það hlýtur að vera eitthvað jákvætt sem við erum að gera," segir Emil sem vill ekki meina að það hafi verið nein þreyta í liðinu eftir langt ferðalag til Aserbaidsjan í Evrópukeppninni.

„Við fengum ansi ódýrt mark á okkur í gær en mér fannst við eiga þennan leik frá A-Ö. Það var jákvætt að ná að klára hann. Ferðalagið hafði engin áhrif, við komum heim á laugardag og fengum alveg fínan tíma til að undirbúa okkur fyrir þennan leik."

Ætla að festa mig í sessi í þessari stöðu hjá FH
Emil hefur mest verið notaður á kantinum síðan hann var kallaður aftur til FH en hann lék afar vel í sinni uppáhalds stöðu í gær.

„Ég var að spila sömu stöðu og ég gerði hjá Fjölni. Þetta er staðan sem ég vil vera í. Ég tel mig alveg vera fullfæran um að spila hana hjá FH. Ég er mjög ánægður með að vera að spila hana núna og vonandi fæ ég að halda sætinu þangað til tímabilið klárast. Það er 100% mitt markmið að festa mig í sessi hjá FH í þessari stöðu," segir Emil.

Alltaf búist við sambabolta
Það er gömul saga og ný að það er alltaf pressa á liði FH. Það hefur oft verið neikvæð umræða um liðið á tímabilinu en þrátt fyrir allt trónir það á toppnum.

„Ég hef verið í FH í fjögur ár og maður þekkir þessa pressu, bæði frá klúbbnum og fótboltaáhugafólki í landinu. Það búast allir við því að FH spili sambabolta í hverjum einasta leik. Maður er ekki að kippa sér upp við það þó fólk gagnrýni okkur. Við vitum sjálfur hver okkar markmið eru og erum bara ánægðir með að vera í fyrsta sæti."

Verðum að vera skynsamir
Emil er Ísfirðingur en veit þó ekki hvort hann haldi vestur um verslunarmannahelgina. Ljóst sé þó að hann mun ekki taka þátt í Mýrarboltanum sem haldinn er í heimahögum hans um helgina.

„Maður er enn að skoða það hvað maður ætlar að gera. Það verður eitthvað skemmtilegt gert þar sem við höfum ekki fengið mikið frí í sumar. Nú fær maður eitthvað að skemmta sér. Það verður allavega enginn mýrarbolti fyrir mig í ár, hefur heldur aldrei verið. Það er ákveðin meiðslahætta þar," segir Emil léttur.

„Við verðum að vera skynsamir því það er náttúrulega stór leikur gegn Val strax á miðvikudaginn. Við verðum klárir þegar kemur að því verkefni. Það er spenna á toppnum og ekkert lið hefur stungið af, það er spennandi fyrir fótboltaáhugafólk. Vonandi munum við standa með titilinn þegar flautað verður af."

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
12. umferð: Vladimir Tufegdzic (Víkingur)
11. umferð: Bjarni Ólafur Eiríksson (Valur)
10. umferð: Rasmus Christiansen (KR)
9. umferð: Ásgeir Marteinsson (ÍA)
8. umferð: Kristinn Jónsson (Breiðablik)
7. umferð: Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
6. umferð: Steven Lennon (FH)
5. umferð: Albert Brynjar Ingason (Fylkir)
4. umferð: Skúli Jón Friðgeirsson (KR)
3. umferð: Sigurður Egill Lárusson (Valur)
2. umferð: Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)

Athugasemdir
banner
banner
banner