Rasmus Steenberg Christiansen (KR)
Rasmus Steenberg Christiansen, leikmaður KR er leikmaður 10. umferðar í Pepsi-deild karla.
Hann átti virkilega góðan leik í 1-0 sigri KR á Leikni í Frostaskjólinu.
Hann átti virkilega góðan leik í 1-0 sigri KR á Leikni í Frostaskjólinu.
Leiknir með tíu menn fyrir aftan boltann
„Mér fannst við standa okkur vel varnarlega og Leiknismenn fengu fá færi í leiknum. Við náðum hinsvegar ekki að skapa jafn mikið sóknarlega eins og við vonuðumst eftir," sagði Rasmus aðspurður út í leikinn gegn Leikni.
„Leiknismenn voru skipulagðir og voru nánast alltaf með tíu leikmenn fyrir aftan boltann og þeir gerðu það vel. Við gerðum hinsvegar nóg til að vinna leikinn og ég er ánægður með það."
Rasmus var í hjarta varnarinnar ásamt Skúla Jóni. Þeir öttu kappi við hinn stóra og stæðilega framherja Leiknis, Kolbein Kárason í leiknum.
„Það gekk vel hjá mér og Skúla Jóni í vörninni. Við unnum vel saman og allt liðið varðist vel í leiknum. Það er erfitt að spila á móti Kolbeini, hann er stór og sterkur. Ég veit samt ekki hvort við Skúli, höfum verið fegnir þegar hann fór útaf," sagði Rasmus aðspurður út í þau ummæli í Pepsi-mörkunum í gær að þeir Skúli Jón hafi verið fegnir þegar Kolbeinn var tekinn útaf.
Vantar enn smá upp á
Rasmus gekk til liðs við KR í vetur eftir að hafa verið í Noregi. Hann sleit krossband og var að jafna sig á þeim meiðslum í vetur. Hann segist vera farinn að finna sitt gamla form betur og betur.
„Mér líður mjög vel í KR. Hér eru fullt af frábærum leikmönnum. Ég er ennþá að jafna mig af meiðslunum og ég er að nálgast þann stað sem ég var á áður. Það vantar ennþá smá upp á, í nokkrum hlutum en það kemur með fleiri spiluðum mínútum."
KR-ingar eru sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 20 stig, þremur stigum á eftir toppliði deildarinnar FH.
„Við byrjuðum móti erfiðlega og náðum ekki að vinna fyrstu leikina. En við höfum komið sterkir til baka og mér finnst við vera að bæta okkar leik með hverjum leiknum," sagði Rasmus sem er bjartsýnn á framhaldið hjá liðinu.
„Ég held að við getum haldið áfram á sömu braut. Það er nóg af leikjum eftir í deildinni og við erum staðráðnir í að standa okkur."
Rasmus er einn af þremur Dönum í KR-liðinu, hinir eru Jacob Schoop og Sören Frederiksen. Honum finnst jákvætt að hafa tvo Dani með sér í liðinu.
„Þeir báðir eru mjög góðir leikmenn og mikilvægir fyrir liðið. Við erum duglegir að gera eitthvað saman þá aðallega í hádeginu og á kvöldin. Það er þægilegt að vera með þeim þar sem við tölum sama tungumálið," sagði Daninn, Rasmus Steenberg Christiansen að lokum frá Írlandi þar sem KR er að fara að leika Evrópuleik.
Fyrri leikmenn umferðarinnar:
9. umferð: Ásgeir Marteinsson (ÍA)
8. umferð: Kristinn Jónsson (Breiðablik)
7. umferð: Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
6. umferð: Steven Lennon (FH)
5. umferð: Albert Brynjar Ingason (Fylkir)
4. umferð: Skúli Jón Friðgeirsson (KR)
3. umferð: Sigurður Egill Lárusson (Valur)
2. umferð: Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Athugasemdir