Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 17. júlí 2012 10:27
Fótbolti.net
Umfjöllun: KV hafði betur í nágrannaslagnum
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
KV 2 - 1 Grótta
1-0 Halldór Bogason ('34)
2-0 Aron Steinþórsson ('53)
2-1 Magnús Bernhard Gíslason ('59)

Það gengur alltaf mikið á þegar nágrannarnir í KV og Gróttu mætast og var gærkvöldið engin undantekning. Sól og blíða var á KV Park í Vesturbænum og lögðu vel á fimmta hundrað gesta leið sína á völlinn, enda um mikilvægan leik hjá báðum liðum að ræða. Með sigri gat KV komist í 2. sæti og Grótta þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að lyfta sér upp úr neðri hluta deildarinnar.

Fyrri hálfleikur var fjörugur og áttu bæði lið sín færi. Gestirnir voru hættulegir þegar Sölvi Davíðsson bjó sér til pláss á miðjunni og tók á rás, en Atli Jónasson í marki KV sá við Magnúsi Bernhard Gíslasyni þegar hinn síðarnefndi slapp í gegn snemma leiks eftir sendingu frá Sölva. Tröllið Halldór Bogason fékk auk þess ákjósanlegt færi fyrir Vesturbæinga en hitti boltann illa sem fór langt framhjá.

Eftir ríflega hálftíma leik komust heimamenn yfir. Jón Kári Eldon tók þá fasta aukaspyrnu utan af velli sem áðurnefndur Halldór Bogason skallaði í netið.

Í hálfleik var staðan 1-0 fyrir heimamenn og leikurinn hin besta skemmtun fyrir áhorfendur.

Síðari hálfleikur fór álíka fjörlega af stað og þegar 10 mínútur voru liðnar jók fyrirliðinn Aron Steinþórsson forystu KV í tvö mörk með huggulegri bakfallsspyrnu. Seltirningar voru þá komnir með bakið upp að vegg, færðu liðið ofar á völlinn og voru fljótir að minnka muninn. Boltinn barst þá á Sölva Davíðsson sem skeiðaði í átt að vítateig heimamanna. Hann lagði boltann yfir á Magnús Bernhard sem skoraði með fínu skoti í fjærhornið.

Gróttumenn sóttu meira það sem eftir lifði leiks án þess þó að skapa sér mjög hættuleg færi. Næst komst Auðunn Örn Gylfason því að koma KV í 3-1 þegar skalli hans hafnaði í hliðarnetinu en Atli Jónasson kom í veg fyrir jöfnunarmark Gróttu með góðri markvörslu eftir aukaspyrnu af stuttu færi.

Heimamenn héldu út til loka og fögnuðu ógurlega þegar Valdimar Pálsson flautaði til leiksloka, en með sigrinum er KV nú komið í 2. sæti deildarinnar en Grótta situr í því 9.

Í liði Gróttu bar Sölvi Davíðsson af og átti mjög góðan leik á meðan þeir Eggert Rafn Einarsson og Halldór Bogason stóðu upp úr í annars jöfnu liði KV.
Athugasemdir
banner
banner