Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 16. maí 2014 17:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara í 3. deild karla: 1-5. sæti
Leiknir Fáskrúðsfirði mun vinna 3. deildina samkvæmt spá þjálfara.
Leiknir Fáskrúðsfirði mun vinna 3. deildina samkvæmt spá þjálfara.
Mynd: Leiknir Fáskrúðsfirði
Berserkjum er spáð 2. sæti.
Berserkjum er spáð 2. sæti.
Mynd: Berserkir
Víðir Garði endar í 3. sæti samkvæmt spánni.
Víðir Garði endar í 3. sæti samkvæmt spánni.
Mynd: Sveinbjörn Geir Hlöðversson
Högni Helgason er lykilmaður hjá Hetti.
Högni Helgason er lykilmaður hjá Hetti.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ingó er spilandi þjálfari hjá Hamri.
Ingó er spilandi þjálfari hjá Hamri.
Mynd: Hamar
Keppni í 3. deild karla hefst um helgina en líkt og í fyrra er um að ræða 10 liða deild.

Fótbolti.net fékk þjálfarana í deildinni til að spá fyrir um lokastöðuna. Hér að neðan má sjá spána fyrir liðin í 1-5. sæti en fyrri hlutinn birtist í gær.

Spá fyrir 6-10. sæti

1. Leiknir F. 81 stig
Þjálfarar í 3. deildinni hafa gríðarlega mikla trú á Fáskrúðsfirðingum en þeir fá fullt hús stiga í spánni. Spænsku leikmennirnir Hector Pena Bustamante og Juan Miguel Munoz Rodriguez komu til félagsins í vetur og í vikunni bættist Carlos Monleon í hópinn. Fyrir er fínn kjarni leikmanna sem hafa verið í lykilhlutverki hjá Fáskrúðsfirðingum undanfarin ár. Í fyrra byrjaði liðið 3. deildina af ógnarkrafti en gaf síðan eftir þegar á leið. Leikmannahópurinn ætti hins vegar að vera betur í stakk búinn fyrir baráttuna í sumar og liðsstyrkurinn frá Spáni á eftir að verða dýrmætur. Í undanúrslitum í B-deild Lengjubikarsins burstaði Leiknir til að mynda 2. deildarlið Völsungs 6-1 og það sýnir hversu sterku liði Fáskrúðsfirðingar hafa yfir að ráða í dag.
Lykilmenn: Hector Pena Bustamante, Hilmar Freyr Bjartþórsson, Juan Miguel Munoz Rodriguez.
Þjálfari: Viðar Jónsson

2. Berserkir 53 stig
Berserkir enduðu í 2. sæti í 4. deildinni í fyrra og komust upp um deild í fyrsta skipti. Fossvogspiltar voru í miklu stuði á undirbúningstímabilinu þar sem þeir rúlluðu upp C-deild Lengjubikarsins. Berserkir unnu alla sjö leiki sína í Lengjubikarnum með markatöluna 48-2! Í úrslitaleiknum burstaði liðið Víði Garði 6-0 og ljóst er að Berserkir mæta sterkir til leiks í sumar. Sem fyrr er kjarninn í liðinu gamlir Víkingar og ljóst er að sóknarleikurinn verður í aðalhlutverki í Berserkjahrauni í sumar. Liðið getur alltaf skorað mörk en stærsta spurningin er hvernig liðinu mun ganga í útileikjunum úti á landi.
Lykilmenn: Karel Sigurðsson, Marteinn Briem, Ólafur Guðmundsson.
Þjálfari: Pétur Mikael Guðmundsson

3. Víðir Garði 51 stig
Víðir Garði sigldi lygnan sjó í 3. deildinni í fyrra og endaði í fjórða sæti deildarinnar. Síðastliðið haust tóku Árni Þór Ármannsson og Rafn Markús Vilbergsson fyrrum leikmenn Njarðvíkur við liðinu. Þeir hafa tekið með sér fjölda leikmanna úr Njarðvík en alls hafa tólf leikmenn fengið félagaskipti úr Njarðvík yfir í Víði í vetur. Árni og Rafn Markús spila einnig með liðinu og þeir munu vera í stóru hlutverki í sumar. Sóknarmaðurinn Ísak Örn Þórðarson kom frá Njarðvík en hann og Tómas Pálmason gætu verið hættulegir saman í fremstu víglínu. Víðismenn komust í úrslitaleikinn í C-deild Lengjubikarsins en steinlágu þar. Með því að halda ákveðnum kjarna frá því í fyrra og fá góðan liðsstyrk frá Njarðvík þá ætti liðið hins vegar að hafa alla burði til að blánda sér í toppbaráttuna í sumar.
Lykilmenn: Ísak Örn Þórðarson, Rafn Markús Vilbergsson, Tómas Pálmason.
Þjálfarar: Árni Þór Ármannsson, Rafn Markús Vilbergsson.

4. Höttur 48 stig
Höttur féll annað árið í röð í fyrra og leikur í 3. deildinni í ár eftir að hafa verið í 1. deildinni sumarið 2012. Sumarið var erfitt á Egilsstöðum í fyrra en Höttur vann ekki leik fyrr en í 17. umferð. Þrír aðrir sigurleikir fylgdu í kjölfarið en þeir komu of seint. Liðið í ár er byggt upp á heimamönnum en Gjoko Ilijovski tók við þjálfun þess í vetur. Gengi Hattar í Lengjubikarnum var ekkert sérstakt og betur má ef duga skal í sumar. Jötnarnir Anton Ástvaldsson og Högni Helgason verða í stóru hlutverki og ef þeir ná að binda vörn Hattar saman gæti liðið náð langt.
Lykilmenn: Anton Ástvaldsson. Garðar Már Grétarsson, Högni Helgason.
Þjálfari: Gjoko Ilijovski

5. Hamar 46 stig
Hamarsmenn féllu úr 2. deildinni í fyrra eftir sex ára dvöl samfleytt. Gífurlegar breytingar hafa orðið á leikmananhópi Hvergerðinga í vetur. Ingólfur Þórarinsson, Ingó Veðurguð, hefur tekið við sem þjálfari en hann mun einnig spila á miðjunni hjá liðinu. Ingó hefur fengið liðsstyrk úr ýmsum áttum í vetur en 21 leikmaður hefur fengið félagaskipti til félagsins. Liðsstyrkurinn hefur meðal annars komið af Suðurlandi og úr HK auk þess sem erlendu leikmennirnir Chistopher Harrington og Mark Alan Lavery voru að bætast í hópinn. Hópurinn er nokkuð ungur og stemningin er góð hjá Hamarsmönnum fyrir sumarið en fá lið geta bókað stig þegar þau kíkja í heimsókn á Grýluvöll.
Lykilmenn: Ingólfur Þórarinsson, Ingþór Björgvinsson, Samúel Arnar Kjartansson
Þjálfari: Ingólfur Þórarinsson.

Spá þjálfara í 3. deild
Leiknir F 81 stig
Bersrekir 53 stig
Víðir 51 stig
Höttur 48 stig
Hamar 46 stig
Einherji 42 stig
KFR 41 stig
Magni 38 stig
Grundarfjörður 30 stig
ÍH 20 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner