Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2.deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-7 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. Augnablik, 89 stig
2. Álftanes, 75 stig
3. Grótta, 71 stig
4. Völsungur, 67 stig
5. Tindastóll, 65 stig
6. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, 34 stig
7. Einherji, 28 stig
8. Hvíti Riddarinn, 17 stig
1. Augnablik
Lokastaða í fyrra: 4. sæti í 2. deild
Þjálfarinn: Það kom mörgum á óvart þegar hinn margreyndi Ásmundur Arnarsson tók við Augnabliki síðastliðið haust. Ási hefur þjálfað meistaraflokk karla undanfarin 15 ár, hjá Völsungi, Fjölni, Fylki, ÍBV og Fram. Það verður gaman að sjá hvernig honum tekst til með efnilegt lið Augnabliks en það er mikið heillaskref fyrir deildina að fá svona reynslubolta til leiks. Meðþjálfari Ása er Blikinn Guðjón Gunnarsson sem þjálfaði liðið einnig í fyrra.
Augnablik náði ekki að blanda sér af fullum krafti í toppbaráttu 2. deildar síðastliðið sumar og endaði í 4. sæti. Liðinu er engu síður spáð sigri í deildinni í sumar. Það fer ekki á milli mála að innanborðs á liðið nokkrar af efnilegustu knattspyrnukonum landsins. Það var svo sterkt fyrir Augnablik að fá fyrrverandi landsliðskonurnar Kristínu Ýr Bjarnadóttur og Ástu Árnadóttur til að hækka meðalaldurinn og leggja inn í reynslubanka hópsins. Leikmannahópurinn og reyndasta þjálfarateymi deildarinnar myndar spennandi hóp sem er til alls líklegur í sumar. Það má þó ekki gleyma því að liðið er mikið breytt frá síðasta tímabili og margir öflugir leikmenn sem hafa söðlað um og spila í efri deildum í sumar.
Lykilmenn: Hildur Þóra Hákonardóttir, Hugrún Helgadóttir, Tinna Harðardóttir.
Ási þjálfari um spánna og fótboltasumarið:
Kemur spáin þér á óvart?
„Já, hún kemur mér aðeins á óvart. Það hafa orðið miklar breytingar á hóp Augnabliks núna milli ára og mjög stór hluti af þeim kjarna sem hefur spilað síðastliðin tvö ár hefur farið í önnur verkefni. Hópurinn verður mjög ungur hjá okkur og margir leikmenn sem hafa litla sem enga reynslu af meistaraflokksbolta."
„Við fengum þó tvo góða reynslubolta til að hjálpa til (Ásta Árnadóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir) og þær eiga eftir að styðja vel við ungu stelpurnar. Við höfum verið í vandræðum með að finna markvörð til að leika með liðinu í sumar og leikið flesta leiki í vetur með útileikmenn í markinu. Við vorum þó að fá þau ánægjulegu tíðindi að Birgitta Sól Eggertsdóttir sem leikið hefur í markinu hjá okkur undanfarin ár verður með okkur fyrri hluta sumars áður en hún fer til náms í Bandaríkjunum. Við rennum því almennt frekar blint í sjóinn í deildina í sumar en þetta verður vonandi skemmtilegt.“
„Markmið Augnabliks er fyrst og fremst að byggja upp unga leikmenn Breiðabliks, styrkja þá og bæta til þess að fleiri leikmenn séu fyrr tilbúnir í krefjandi verkefni í meistaraflokki Breiðabliks. Liðið er að mestu samsett úr 2. og 3.fl og í æfingahópnum erum við að vinna með fimm lið, þrjú lið í 3.flokki, eitt í 2.fl og síðan lið meistaraflokks í Augnablik. Það samræmist vel fyrrgreindu markmiði að koma liðinu í sterkari deild og fá fleiri enn meira krefjandi verkefni og því er stefnan sett á það koma liðinu upp í 1.deild, Inkasso-deildina.“
„Ég á von á því að allir leikir verði erfiðir fyrir okkar unga og óreynda lið, en vonandi verður þetta jöfn, spennandi og skemmtileg deild.“
Komnar:
Ásta Árnadóttir úr KH
Kristín Ýr Bjarnadóttir úr Val
Farnar:
Fanney Einarsdóttir í KR
María Björg Fjölnisdóttir í Fylki
Bertha María Óladóttir í Fjölni
Helga Magnea Gestsdóttir í Hauka
Kristín Fjóla Sigþórsdóttir í Hauka
Dagrún Birta Karlsdóttir í Hauka
Valdís Björg Sigurbjörnsdóttir í Hauka
Bryndís Gréta Björgvinsdóttir hætt
Sunna Hlín Eggertsdóttir hætt
Ásthildur Ben Davíðsdóttir hætt
Fyrstu leikir Augnabliks:
27. maí Augnablik - Einherji
3. júní Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir - Augnablik
9. júní Völsungur - Augnablik
Athugasemdir