Álftanes
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2.deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-7 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1.
2. Álftanes, 75 stig
3. Grótta, 71 stig
4. Völsungur, 67 stig
5. Tindastóll, 65 stig
6. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, 34 stig
7. Einherji, 28 stig
8. Hvíti Riddarinn, 17 stig
2. Álftanes
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í 2. deild
Þjálfarinn: Birgir Jónasson er að fara inn í sitt fjórða tímabil með Álftanes. Hann er öllum hnútum kunnugur hjá félaginu. Hefur verið þar yfirþjálfari og þjálfað fjölmarga yngri flokka.
Álftanes var ekki langt frá því að komast upp úr 2. deildinni síðastliðið sumar en liðið endaði aðeins einu stigi á eftir Fjölni sem tók 2. sætið. Álftanes vann Íslandsmótið í Futsal annað árið í röð í upphafi árs og spilaði svo gegn 1. deildar liðum á undirbúningstímabilinu án þess að ná neitt sérstökum úrslitum. Álftnesingar hafa haldið sínum mannskap og bætt við sig sterkum leikmönnum svo liðið ætti að geta gert harða atlögu að 1. deildar sæti í ár.
Lykilmenn: Margrét Eva Einarsdóttir, Oddný Sigurbergsdóttir, Kristín Inga Vigfúsdóttir
Birgir þjálfari um spánna og fótboltasumarið:
„Hef ekki séð nægjanlega mikið af leikjum annarra liða í deildinni til þess að geta lagt mat á hvort spáin sé raunhæf eða ekki. Fyrst og fremst er hún gott framtak hjá Fótbolta.net. Ánægjulegt að hin liðin skuli hafa þessa trú á okkur og við þökkum það“
„Við höfum enn ekki sett okkur formleg markmið fyrir sumarið. Við vitum hins vegar hvert við viljum stefna á komandi árum og þeim upplýsingum viljum við halda innan okkar vébanda. Fyrst og fremst viljum við halda úti liði, hafa gaman og leika sóknarknattspyrnu, án þess að það þurfi að kosta fúlgu fjár með tilheyrandi áhættu og mögulegu brottfalli iðkenda. Við viljum sífellt bæta okkur og byggja lið okkar til framtíðar á þeim stúlkum sem vilja æfa og spila fyrir Álftanes allt árið um kring.“
„Ég býst við skemmtilegu móti. Hef hins vegar áhyggjur af mótafyrirkomulagi og hvernig mál virðast vera að þróast, það er að í 2. deild muni leika lið af landsbyggðinni. Að því leyti vona ég að spár fyrir 1. og 2. deild gangi ekki eftir. Þá hefur það áhrif á gæði að þurfa til dæmis að spila tvo leiki á tveimur eða þremur dögum, gagngert til að halda ferðakostnaði niðri.“
Komnar:
Auður Sólrún Ólafsdóttir frá ÍR
Kristín Inga Vigfúsdóttir frá Hetti
Margrét Albertsdóttir frá Grindavík
Salka Ármannsdóttir frá Stjörnunni
Sædís Kjærbech Finnbogadóttir frá Haukum
Edda Mjöll Karlsdóttir frá HK/Víking
Sesselja Ósk Gunnarsdóttir frá Haukum
Farnar:
Sunna Sigurveig Thorarensen til Danmerkur
Katrín Hanna Hauksdóttir í HK/Víking (var á láni frá Haukum)
Guðleif Edda Þórðardóttir hætt
Erna Birgisdóttir hætt
Perla Sif Geirsdóttir hætt
Fyrstu leikir Álftaness:
18. maí Álftanes - Völsungur
30. maí Grótta - Álftanes
6. júní Álftanes - Tindastóll
Athugasemdir