Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
banner
   fim 17. maí 2018 15:30
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2. deild kvenna: 3. sæti
Grótta
Gróttu er spáð 3. sæti í 2. deild
Gróttu er spáð 3. sæti í 2. deild
Mynd: Aðsend
Heiða Helgudóttir er fyrirliði Gróttu og lykilmaður í vörninni
Heiða Helgudóttir er fyrirliði Gróttu og lykilmaður í vörninni
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Frá leik Gróttu í vor
Frá leik Gróttu í vor
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Guðjón hefur þjálfað lið Gróttu síðan það var endurvakið
Guðjón hefur þjálfað lið Gróttu síðan það var endurvakið
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2.deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-7 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2.
3. Grótta, 71 stig
4. Völsungur, 67 stig
5. Tindastóll, 65 stig
6. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, 34 stig
7. Einherji, 28 stig
8. Hvíti Riddarinn, 17 stig

3. Grótta

Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 2. deild

Þjálfarinn: Guðjón Kristinsson hefur þjálfað Gróttu síðan meistaraflokkur kvenna var stofnaður snemma árs 2016. Guðjón er Seltirningur að upplagi og þekkir vel til hjá Gróttu. Hefur þjálfað mikið í yngri flokkunum auk þess sem hann hefur komið að þjálfun meistaraflokks karla hjá félaginu.

Meistaraflokkur Gróttu hefur verið í framför frá stofnun árið 2016 og liðið hefur bætt sig ár frá ári. Leikmannahópurinn er orðinn þéttari og ákveðinn stöðugleiki hefur myndast í kringum liðið. Úrslit á undirbúningstímabilinu hafa ekki fallið með Gróttukonum en stígandi hefur verið í þeirra leik og sigur vannst í fyrsta alvöru mótsleik tímabilsins, gegn Tindastól í Mjólkurbikarnum. Liðið verður án markmannsins reynda, Írisar Daggar Gunnarsdóttur, í sumar en treystir í stað á unga og efnilega Friðriku Arnardóttur. Þá fékk Grótta nokkuð óvæntan liðsstyrk úr Grafarvoginum rétt fyrir mót í þeim Kristu Björk og Lilju Nótt og þær munu vafalaust styrkja leikmannahóp Seltirninga.

Lykilmenn: Bjargey Sigurborg Ólafsson, Diljá Mjöll Aronsdóttir, Heiða Helgudóttir.

Guðjón þjálfari um spánna og fótboltasumarið:

Kemur spáin þér á óvart?

„Já, ég verð að viðurkenna það. Skemmtilega á óvart. Við erum að leggja af stað í þriðja tímabilið með kvennalið Gróttu og hlutir enn þá að þróast hjá okkur - en klárlega í rétta átt. Ég lít á þessa spá sem góða viðurkenningu á þeirri vinnu og því starfi sem hópurinn og félagið hefur lagt í þetta. Við áttum ágætt tímabil í fyrra, enduðum í 6. sæti og bættum okkur töluvert frá okkar fyrsta ári í Íslandsmóti. Þessi spá hvetur okkur enn frekar til að takast á við verkefni sumarsins.“

Hver eru markmið Gróttu í sumar?

„Fyrst og fremst viljum við halda áfram að bæta okkur sem þýðir að viljum vera ofar en í fyrra. Á sama tíma og við þróum okkar leik viljum við veita öllum liðum harða keppni og berjast í efri hluta deildarinnar. Einnig er það markmið hjá okkur að auka áhuga Seltirninga á kvennaliðinu en það var virkilega gaman að sjá hve margir mættu á bikarleikinn við Tindastól um daginn.“

Hvernig áttu von á að 2. deildin spilist í sumar?

„Rétt eins og í fyrra á ég von á að það verði hörð keppni um annað sætið. Augnablik er líklegt til að sigra deildina með ungan og öflugan hóp, í bland við fyrrverandi landsliðskonur, undir leiðsögn reynslumikilla þjálfara. Að öðru leyti held ég að deildin verði jöfn og að liðin muni taka stig hvert af öðru. En fyrst og fremst á ég von á skemmtilegu móti þar sem mörg lið ætla sér að vera í toppbaráttu.“

Komnar:
Friðrika Arnardóttir frá Þrótti R.
Guðrún Þóra Elfar frá Þrótti R.
Íunn Eir Gunnarsdóttir frá Hömrunum
Krista Björt Dagsdóttir frá Fjölni
Lilja Nótt Lárusdóttir frá Fjölni
Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir frá Völsungi
Suzanna Sofía Palma Rocha frá HK

Farnar:
Hekla Kristín Birgisdóttir í KR
Sofía Elsie Guðmundsdóttir í KR (var í láni)
Stígheiður Sól Einarsdóttir í Hauka
Valgerður Helga Ísaksdóttir í KR
Íris Dögg Gunnarsdóttir í barneignarfrí

Fyrstu leikir Gróttu:
25. maí Grótta - Einherji
30. maí Grótta - Álftanes
8. júní Grótta – Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
Athugasemdir
banner