Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 09. september 2014 21:08
Fótbolti.net
Umfjöllun: Þróttarar snúa aftur í deild þeirra bestu
Þróttur vann sig upp um deild sumarið 2012 og endurtók leikinn í dag
Þróttur vann sig upp um deild sumarið 2012 og endurtók leikinn í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa Lind var hetja Þróttar og skoraði gegn uppeldisklúbbnum
Harpa Lind var hetja Þróttar og skoraði gegn uppeldisklúbbnum
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Tinna Þorsteinsdóttir átti góða innkomu í lið Fjölnis en það dugði ekki til
Tinna Þorsteinsdóttir átti góða innkomu í lið Fjölnis en það dugði ekki til
Mynd: Björn Ingvarsson
Bergrós Lilja lék vel í vörn Þróttar
Bergrós Lilja lék vel í vörn Þróttar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú er ljóst að Þróttur og KR leika í Pepsi-deildinni að ári en liðin höfðu betur í sínum viðureignum í úrslitakeppni 1. deildar. Fjölnir tók á móti Þrótti í Grafarvoginum kl.16:30 í dag. Afar sérkennilegur leiktími verður að segjast og ekki til þess að stuðla að toppmætingu á völlinn. Aðsóknin var þó ágæt og áhorfendur fengu fína skemmtun. Fyrri leikur liðanna fór 2-1 fyrir Þrótti og því ljóst að Fjölnisliðið þurfti að sækja til að eygja von um sæti í efstu deild.

Heimakonur byrjuðu leikinn betur og áttu fyrsta færi leiksins eftir rúmlega sjö mínútna leik. Esther Rós Arnarsdóttir lék þá laglega upp hægra megin og renndi boltanum fyrir markið. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir reyndi viðstöðulaust skot en Gabriela Jónsdóttir náði að komast fyrir. Boltinn hrökk svo til Erlu Daggar Aðalsteinsdóttur sem skaut yfir úr ákjósanlegu færi. Stuttu síðar átti fyrirliði Fjölnis, Íris Ósk Valmundsdóttir ágætt skot úr aukaspyrnu en boltinn fór rétt yfir markið.

Hinum megin á vellinum átti Eva Bergrín Ólafsdóttir fína fyrirgjöf á Sunnu Rut Ragnarsdóttur sem setti boltann rétt framhjá áður en Hrefna Lára Sigurðardóttir átti hættulega tilraun að marki Þróttar. Hún reyndi þá viðstöðulaust skot utan teigs eftir ágæta sókn Fjölnis en náði ekki að lyfta boltanum yfir Margréti Ingþórsdóttur sem hafði verið komin heldur framarlega í markinu.

Þrátt fyrir að Fjölnir væri meira með boltann voru það Þróttarar sem náðu forystunni. Þar var að verki Harpa Lind Guðnadóttir sem skoraði eftir laglega stungusendingu frá Önnu Birnu Þorvarðardóttur. Harpa Lind er uppalin hjá Fjölni og var þarna að gera sínum gömlu félögum mikinn grikk.

Það var svo heilmikill barningur og barátta sem fylgdi í kjölfarið og Fjölniskonur áttu að fá víti skömmu síðar þegar Sesselja Líf Valgeirsdóttur hrinti Esther Rós í teignum. Heilladísirnar voru þó ekki með Fjölniskonum sem máttu sætta sig við að fara marki undir inn í hálfleikinn þrátt fyrir að hafa verið betri aðilinn og verið snuðaðar um víti.

Gestirnir unnu sig betur inn í leikinn í síðari hálfleik. Harpa Lind var mjög öflug í leiknum og var nálægt því að bæta við marki eftir nokkrar mínútur en Helena Jónsdóttir varði frábærlega frá henni.

Margrét í Þróttarmarkinu mátti svo hafa sig alla við að verja skalla frá varamanninum Tinnu Þorsteinsdóttur en Tinna kom sterk inn af bekknum og hleypti lífi í sóknarleik Fjölnis. Hún var aftur á ferðinni stuttu síðar en viðstöðulaust skot hennar fór rétt framhjá.

Leikurinn var fjörugur og bæði lið settu boltann í slá með stuttu millibili. Fyrst datt hættuleg fyrirgjöf Estherar Rósar ofan á þverslánna og síðan skallaði markaskorarinn Harpa Lind í slánna hinum megin.

Kristrún Rose kom sér svo í ágætt færi eftir góðan samleik við Sunnu Rut en Eyrún Kristín Eyjólfsdóttir stóð vaktina vel í Fjölnisvörninni og náði að henda sér fyrir skotið. Stuttu síðar átti varamaðurinn Margrét Björg Ástvaldsdóttir svakalegt skot í samskeytin á Fjölnismarkinu, beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi. Áfram héldu liðin að sækja og áfram var skotið í tréverkið. Esther Rós komst í gegn hægra megin og setti boltann í nærstöngina úr þröngu færi.

Það reyndist síðasta marktækifærið í leiknum og það eru því Þróttarar sem snúa aftur í Pepsi-deildina eftir ársfjarveru. Þróttarar voru betra liðið í fyrri viðureign liðanna en Fjölnir sótti meira í dag. Það er þó ekki alltaf nóg og reynsla Þróttara vóg þungt þegar kom að því að landa sigrinum og Pepsi-deildar sætinu. Þær eru vel að sigrinum komnar og næsta verkefni þeirra er að ná af sér jójó-stimplinum og festa sig í sessi í deild þeirra bestu.
Athugasemdir
banner
banner