Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 22. maí 2018 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðlaugur Victor og Rúnar í Evrópudeildina - Ari færist nær
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már og Ari Freyr.
Rúnar Már og Ari Freyr.
Mynd: Anna Þonn
Guðlaugur Victor Pálsson og Rúnar Már Sigurjónsson hjálpuðu liðum sínum í svissnesku úrvalsdeildinni að ná Evrópusæti.

Lokaumferðin í úrvalsdeildinni í Sviss fór fram um liðna helgi. Þar gerði Zürich 1-1 jafntefli við Lugano, en Guðlaugur Victor var hvíldur á laugardaginn.

Ástæðan fyrir því að hann var hvíldur er sú að Zürich er að fara í bikarúrslitaleik á sunnudaginn gegn Young Boys.

Victor hefur verið fyrirliði Zürich á tímabilinu.

Fjórða sætið gefur þáttökurétt í Evrópudeildinni, rétt eins og fimmta sætið ef bikarmeistarinn er í efstu fjórum sætunum. Ljóst er að bikarmeistari verður í efstu fjórum sætunum og því gefur fimmta sætið þáttökurétt í Evrópudeildinni.

Í fimmta sæti lendir St. Gallen með Rúnar Már Sigurjónsson innanborðs. Rúnar Már spilaði í 3-0 tapi liðsins gegn Lausanne Sport síðastliðinn laugardag.

Gengi St. Gallen að undanförnu hefur verið afar skrítið. Liðið vann fimm leiki í röð, frá 17. febrúar til 17. mars, en síðan þá hefur liðið tapað níu af 10 leikjum.

Þrátt fyrir þetta slæma gengi endar liðið í fimmta sæti, fjórum stigum á eftir Zürich.

Rúnar Már hefur verið í láni hjá St. Gallen frá Grasshopper, sem endar í áttunda sæti. Fróðlegt verður að sjá hvað Rúnar gerir í sumar, hvort hann verði áfram í herbúðum St. Gallen eða hvað.

Ari tveimur leikjum frá Evrópukeppni
Hvorki Rúnar né Guðlaugur Victor eru á leið á HM með íslenska landsliðinu, en þangað er Ari Freyr Skúlason að fara.

Ari á fast sæti í landsliðshópnum en hann er á mála hjá Lokeren sem leikur í belgísku úrvalsdeildinni.

Um helgina komst Lokeren skrefi nær Evrópukeppni á næsta tímabili með því að vinna sinn umspilsriðil. Fyrirkomulag belgísku úrvalsdeildarinnar er nokkuð flókið, en til að gera langa sögu stutta þá vann Lokeren sinn umspilsriðil og mætir Zulte-Waregem annað kvöld í leik upp á líf og dauða.

Ef Ari Freyr og félagar vinna Zulte Waregem þá mæta þeir Genk í hreinum úrslitaleik um sæti í Evrópukeppni. Spennan er að magnast.

Ari Freyr spilaði ekki um liðna helgi þar sem hann var spjaldi frá leikbanni. Hann ætti að snúa aftur í byrjunarliðið á morgun.



Athugasemdir
banner
banner